TIL HAMINGJU MEÐ AÐ VERA HÆTT(UR) AÐ REYKJA!

 

Það krefst mikils undirbúnings að hætta að reykja, ekki síst ef um stór reykingarfólk er að ræða. Þar ber hæst sú hugarfarsbreyting sem þarf að eiga sér stað og sjálfsaginn sem knýr fólk áfram til að komast yfir erfiðasta hjallann og slökkva endanlega í. Það er mikilvægt að velja ákveðinn dag til að hætta tóbaksneyslu og það er táknrænt að velja áramótin, en margir gera það að nýjársheiti sínu. En hvað verður svo þegar tóbakinu er sleppt, hvað getum við gert til að brjótast úr viðjum vanans. Það að hætta að reykja er lífsstílsbreyting og krefst mikillar vinnu að halda sér reyklausum – að halda út.

Líkaminn er um 4-6 vikur að losa sig við eiturefnin sem hafa safnast fyrir í honum og á þeim tíma geta ýmis fráhvarfseinkenni gert vart við sig. Mikilvæg leið til að auðvelda líkamanum þessa hreinsun er að auka vökvainntekt og þá sérstaklega vatnsdrykkju og einnig að auka hreyfingu. Þessi lífsstílsbreyting skapar mikla streitu og til að losna við hana er mikilvægt að auka hreyfinguna. Öll hreyfing er af hinu góða og mikilvægt að finna hreyfingu sem hentar hverjum og einum.

Ýmislegt þarf að hafa í huga til að forðast að falla á reykbindinu. Eftir farandi atriði hafa hjálpað mörgum til að forðast fall:

· Veldu rólegan dag til að hætta að reykja og haltu þig við hann.

· Undibúðu hvernig þú ætlir að takast á við erfiðar aðstæður.

· Vertu jákvæð(ur). Hafðu ávallt í huga ávinninginn af því að hætta að reykja.

· Taktu einn dag í einu.

· Hrósaðu þér oft fyrir árangurinn.

· Ef þú veist um einhvern sem er að hætta að reykja, fáðu stuðning frá viðkomandi og veittu honum jafn framt þinn stuðning í baráttunni.

· Notkun reykingalyfja tvöfaldar líkurnar á árangri til reykleysis og minnkar einnig líkurnar á fráhvarfseinkennum.

· Forðastu þá staði og aðstæður sem þú reyktir á.

· Hafðu nóg fyrir stafni og forðastu andlegt álag.

· Leggðu til hliðar peningana sem þú hefðir eytt í tóbak og verðlaunaðu sjálfa(n) þig reglulega.

· Hver ein sígaretta færir þig aftur á byrjunarreit.

 

Rannsóknir sýna að það eykur líkur á að reykingafólk ,,haldi út" reykbindindið ef það fær stuðning fyrsta árið sem það er reyklaust. Sá stuðningur sem er í boði á Íslandi:

· Krabbameinsfélag Reykjavíkur veitir ýmiss konar ráðgjöf og einstaklingsviðtöl og heldur námskeið í reykbindindi.

· Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er með námskeið til reykleysis.

· Tóbaksvarnarnefnd er með heimasíðuna www.reyklaus.is og eru þar ýmsar upplýsingar og fræðsla sem nýtast fólki til að hætta að reykja. Einnig gefur tóbaksvarnarnefnd út ýmis fræðslurit.

· Hjartavernd gefur út mikið af fræðsluefni.

· Ráðgjöf í reykbindindi, grænt númer 800-6030 er símaþjónusta sem veitir fólki sem vill hætta að reykja, eða er nýhætt að reykja, hvatningu, ráðgjöf og stuðning. Þjónustan er opin frá kl. 17-19 alla virka daga. Utan þess tíma er hægt að leggja inn skilaboð á símsvara og starfsfólk þjónustunnar hefur samband síðar.

· ,,Létta leiðin til að hætta að reykja", er námskeið til reykleysis sem er í umsjón Valgeirs Skagfjörðs og Péturs Einarssonar.

· ,,Reyklaus að eilífu", er námskeið sem Guðjón Bergmann er með umsjón með.

· ,,Meðferð gegn reykingum", er námskeið sem Dagmar Jónsdóttir heldur á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík.

Heilsufarsávinningurinn kemur fljótt fram eftir að tóbaksneyslu er hætt eins og í færri veikindadögum og færri læknaheimsóknum.

Það er aldrei of seint að hætta að reykja og það er ekkert sem reykingafólk getur gert mikilvægarar til að auka lífslíkur sínar og lífsgæði en það að hætta að reykja.

Gangi ykkur vel í baráttunni við nikótínfíknina og gleðilegt nýtt reyklaust ár.

Jóhanna S. Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi