Þungun að eigin ósk


Hvernig koma á í kring þungun að eigin ósk

Óski fólk eftir að eignast barn er best að hafa samfarir um það bil sem konan hefur egglos.

Þessi síða er ætluð fólki í barneignarhugleiðingum. Hér er einnig yfirlit yfir það hvernig getnaður gengur fyrir sig.

Egglos, LH-stix og morgunlíkamshiti

Í eðlilegum tíðahring verður egglos um það bil hálfum mánuði eftir fyrsta dag síðustu blæðinga.

Margar konur verða varar við egglos og finna þá fyrir vægum sársauka í kvið eða síðum.

Við getnað smeygir sæðisfruma karlmannsins sér inn í eggið. Það gerist í eggjaleiðara konunnar og að því loknu færist frjóvgað eggið niður í legið og hreiðrar um sig í slímhúð legsins.

Hlutverk hormónanna

Egglosið stjórnast m.a. af kvenhormónum sem koma úr heiladinglinum.

Kynfrumukveikjandi hormónið (FSH) og gulbúsörvandi hormónið (LH) valda því að eggið þroskast og losnar úr eggjastokknum. Eggið fer síðan í eggjaleiðarann sem þokar því áfram niður í legið.

Gulbúsörvandi hormónið eykst mikið um það bil einum og hálfum sólarhring fyrir egglos og er góð vísbending um það hvort egglos hafi orðið.

  • Í apótekum fást LH-þungunarpróf sem sína styrk hormónsins í þvagi. Aukinn styrkur gefur til kynna að egglos sé bráðlega framundan. En slík LH-þungunarpróf eru dýr og einfaldara og ódýrara er að mæla líkamshitann (hitastigsaðferðin) að morgni.
  • Líkamshiti kvenna hækkar nefnilega við egglos.

Hvenær og hvernig á að mæla morgunhitann?

Morgunhiti kvenna – mældur í endaþarmi – er um það bil 36,5°C þegar konan er nývöknuð og ekki farin á fætur. Við egglos, u.þ.b. tveimur vikum eftir fyrsta dag seinustu blæðinga, hækkar hitinn í um það bil 37,1 gráðu.

Ef notast á við morgunhitann til að finna út hvenær egglos er, verður að mæla hitann á hverjum morgni allan tíðahringinn áður en farið er á fætur.

Síðan er hægt að skrifa niður hitann í dagatal eða í hitatöflu. Þannig er hægt að hafa auga með öllum breytingum sem verða á líkamshita konunnar.

Hvenær er þá hentugast að hafa samfarir?

Sæðisfrumur karlmannsins lifa í um það bil þrjá sólarhringa en þær eru auðvitað fjörugastar fyrstu tímana eftir sáðlát. Það er því best að hafa samfarir daginn fyrir egglos eða daginn sem egglos verður. Sæðisfrumurnar synda upp í gegnum leghálsinn og legið og enda síðan í eggjaleiðaranum þar sem sæðið frjóvgar eggið. Frjóvgaða eggið færist síðan niður úr eggjaleiðaranum og hreiðar síðan um sig í slímhúð legsins.

Litningar: hvað ákvarðar kyn fósturs?

Í venjulegu fólki eru 46 litningar, þar af 2 litningar sem ákvarða kynið og nefnast X og Y. Hjá stúlkum er litningastæðan 46XX en hjá drengjum er hún 46XY. Í litningunum er erfðavísar mannsins og þeir eru númeraðir frá 1 upp í 22 auk kynlitninganna tveggja.

Egg konunnar er alltaf með litningastæðuna 23X en sæðisfruma karlmannsins getur verið hvort heldur 23X eða 23Y. Við eðlilegan getnað sameinast eitt egg og ein sæðisfruma. Ef til verður drengur (46XY) frjóvgast eggið (23X) með sæðisfrumu með litningastæðuna 23Y, en ef um stúlku (46XX) er að ræða frjóvgast eggið (23X) með sæðisfrumu með litningasamstæðuna 23x.

Litningar og tvíburar

Ef um tvíbura er að ræða geta þeir orðið til á tvennan hátt:

  • eineggja tvíburar verða til þegar frjóvgaða eggið skiptist snemma á þroskaferlinum ogúr verða tvö eins fóstur af sama kyni og með eins litningastæður. Erfðaefni eineggja tvíbura eru alveg eins.
  • tvíeggja tvíburar verða til ef tvö egg losna samtímis og frjóvgast af sitthvorri sæðisfrumunni. Þessi tvö fóstur geta því verið sitt af hvoru kyni og eru ekki með eins litninga.

Er alltaf hægt að ákvarða þungun fyrirfram ?

Því miður verður ekki öllum strax að ósk sinni þegar ákveðið er að eignast barn en sem betur fer eiga fæstir í vandræðum með það. Flestar konur verða þungaðar innan eins árs eftir að byrjað er að reyna að geta barn.

Sjá kafla á Doktor.is um glasafrjóvgun

Þungunarpróf

Þungunarpróf eru oftast gerð með þvagprufu. Prófið greinir þungunarhormónið hCG (Human Corionic Gonadotropin) sem verður til í frumum legsins þegar frjóvgaða eggið tekur sér þar bólfestu.

Þungunarpróf sem greina hCG í þvagi fást í flestum lyfjaverslunum. Flest þeirra eru ágæt og ná að greina örlítið magn hCG í þvaginu. Þau eru því nokkuð áreiðanleg og gefa sjaldan falskar niðurstöður.

Önnur þungunarpróf

Ekkert þungunarpróf er 100% áreiðanlegt. Við innri skoðun er hægt að finna hvort leg konunnar hefur stækkað. Stækkun legsins gefur til kynna hversu langt meðganga er komin. Ef blæðingar hafa verið óreglulegar eða stærð legsins samsvarar ekki meðgöngulengd er stundum gripið til ómskoðunar. Frá 6. viku meðgöngu er hægt að greina hjartslátt fóstursins í ómskoðun og því hægt að segja til um hvort það er lifandi. Ómskoðun fer venjulega fram á sjúkrahúsum eða á einkastofu kvensjúkdómalæknis. Ljósmóðirin og verðandi móðir geta heyrt hjartslátt fóstursins með aðstoð hljóðnema á 10. -13. viku þungunarinnar.

Unnt er að rannsaka hormónið hCG með blóðprófi, líkt og þvagprófi, en þar sem sú rannsókn er dýr, er sjaldan gripið til hennar nema um afbrigðilega þungun sé að ræða.

Sjá nánar á Doktor.is: Einkenni þungunar