Þunglyndislyf

Þunglyndislyndislyf eru lyf sem notuð eru við þunglyndissjúkdómi (endogen depression). Þó ekki sé um sjúkdóminn að ræða heldur þunglyndi sem á sér aðra orsök t.d. lanvarnandi álag er talið að lyfin virki stundum. Sum þunglyndislyf verka einnig á þráhyggju og fælni. Þráhyggja er það þegar fólk losnar ekki við tiltekna hugsun. Fælni er mikill ótti við eitthvað, sem ekki vekur ótta hjá heilbrigðum manni, svo sem það að vera úti á víðavangi eða í miklu mannhafi, ferðast með flugvél o.s.frv.

Það gildir almennt um þunglyndislyf að áhrif þeirra koma ekki í ljós fyrr en eftir að þau hafa verið tekin í nokkurn tíma. Venjulega líða 3-4 vikur áður en full verkun kemur fram. Nokkur nýrri lyfin á markaðnum eru þó sögð geta byrjað að verka innan vikutíma.

Verkun þunglyndislyfja er ákaflega breytileg eftir einstaklingum og sjúkdómsástandi og oft erfitt að spá fyrir um verkun í hverju tilfelli.

Algengustu þunglyndislyfin nú eru af flokki serótónínvirkra lyfja (SSRI lyfja) en það eru lyf sem hafa sérhæfða verkun á taugar með serónín boðefni.

Þessi lyf komu fyrst fram fyrir rúmum 15 árum og náðu strax mikilli notkun þar sem þau höfðu minni aukaverkanir en eldri þunglyndislyf. Þau eru þó fjarri því laus við aukaverkanir og geta haft neikvæð áhrif á svefn og á kyngetu, valdið ógleði og ýmsum vægari aukaverkunum.

Eldri þunglyndislyf, hin svokölluðu þríhringlaga lyf, sem enn eru mikið notuð, hafa áhrif á mun fleiri boðefnakerfi og valda því fleiri aukaverkunum, einkum frá ósjálfráða taugakerfinu. Hin breiða verkun þeirra á mörg boðefnakerfi líkamans tryggir hins vegar oft öruggari virkni en af nýrri lyfjum. Lyf af þessum flokki geta nær öll valdið aukaverkunum á hjarta, ef þau eru tekin í stórum skömmtum, og þannig valdið hjartsláttartruflunum. Flest þeirra hafa einnig áhrif á ósjálfráða taugakerfið, þannig að lyfið veldur munnþurrki og dregur úr hreyfingum þarma en það leiðir til hægðatregðu. Þá hefur lyfið einnig áhrif á litla vöðva í auganu sem breyta lögun augasteinsins, þannig að fólk verður fjarsýnt. Ósjálfráða taugakerfið stjórnar auk þess hjartslætti, svitaframleiðslu, losun á þvagi o.fl. og geta lyfin haft væg áhrif á alla þá starfsemi.

Þótt sértæku serótónínlyfin virki vel á sumar tegundir þunglyndis virðist sem önnur boðefni komi þar líka við sögu. Einkum virðist boðefnið noradrenalín mikilvægt og nýlega eru komin á markað lyf með sértæka verkun á þetta boðefnakerfi.

Annar flokkur lyfja er svokölluð RIMA lyf sem hafa áhrif á efnavaka í taugum og auka þannig magn boðefna. Þessi lyf hafa breiða verkun á mörg boðefni eins og þríhringlaga lyfin en hafa færri aukaverkanir. Nokkuð er þó umdeilt hvort verkun þeirra sé eins öflug.

Nokkrir fleiri lyfjaflokkar hafa komið fram á síðustu árum, þessi lyf hafa öll sitthvað til síns ágætis, ýmist minni aukaverkanir eða skjótari og öflugri verkun.

Þegar fólk þjáist af þunglyndisjúkdómi fylgir því oft svefntruflun, einkum er árvaka algeng, þ.e.a.s. að sjúklingar vakna mjög snemma morguns og geta ekki náð að sofna aftur þótt þeir vilji. Þessi tegund svefnleysis lagast oft af þunglyndislyfjum og er það stundum fyrsta merki um bata þegar svefninn lagast.

Þegar þunglyndislyf eru gefin við þunglyndissjúkdómi er meðferð venjulega haldið áfram í nokkra mánuði og smádregið úr skammti, þar til ætla má að sjúkdómurinn sé að fullu genginn til baka. Mikilvægt er að hætta ekki meðferð fyrr en læknir telur það ráðlegt, þó svo að aukaverkanir valdi vissum óþægindum