Þegar sorgin kom í heimsókn

Þá eru páskarnir í nánd of eflaust flestir að komast í páskafrí, nema auðvitað öll þau fjölmörgu sem þurfa að standa vaktina á einn eða annan hátt til þess að við hin getum notið þess að borða páskaeggin okkar áhyggjulaus. Páskarnir eru mikil gleðihátíð, vorið er að koma, náttúran að vakna til lífsins og þeirri upprisu fagna allir á sama tíma og kristnir menn, sem við íslendingar erum flestir, fagna upprisu Jesú Krist. Þá skýtur það ef til vill skökku við að velta fyrir sér sorginni, svona í miðri vorgleðinni, grillstemmningunni, skíðafjörinu og hinu almenna stuði sem ríkir um allt land. Og þó. Því stuðið nær ekki til allra. Það eru margir sem af einhverjum ástæðum eiga um sárt að binda, sem hafa lent í því að sorgin kom í heimsókn hjá þeim annaðhvort nýlega eða fyrir einhverju síðan. Og þess vegna gerir páskagleðin ekki annað en að ýfa upp gömul sár. Sorgin á sér margar orsakir, en oft syrgjum við eitthvað sem við höfum misst, eitthvað eða einhvern sem við söknum og sjáum eftir og ekkert getur komið í staðin fyrir. Sumir syrgja hjónabandið sitt eða sambúðina sem lenti í erfiðleikum og endaði með upplausn. Aðrir syrgja glataða heilsu og berjast við heilsubrest, annaðhvort sinn eigin eða einhverja sem eru þeim nákomnir. Enn aðrir syrgja glötuð tækifæri, glataða vináttu eða hafa lent í fjárhagslegu basli sem breytti aðstæðum þeirra og lífi til hins verra. Og það er stór hópurinn sem syrgir horfna ástvini, hvort sem þau hafa misst einhvern sér nákominn eftir langa og erfiða baráttu við sjúkdóm eða skyndilega af slysförum. Já, þær eru margar ástæðurnar sem valda því að sorgin knýr á dyrnar. Við vildum víst öll vera laus við þessa heimsókn sorgarinnar, hverjar svo sem ástæðurnar eru fyrir innlitinu. En það er enginn sem sleppur við heimsókn sorgarinnar einhverntíman á ævinni og suma heimsækir hún svo oft að hún er eins og árviss gestur.

Sorgin verður syrgjanda sjaldan erfiðari en einmitt á þeim stundum þegar gleðin og hátíðarstemmningin ríkir allt í kring, eins og einmitt núna á páskum þegar vorfjörið gagntekur að því er virðist alla. Þá sækja að hugsanir um liðna tíð, um þá gleði sem einu sinni var og þá sorg sem nú er komin í hennar stað. Á slíkum stundum brýst jafnvel minningin um einhverja löngu liðna heimsókn sorgarinnar upp á yfirborðið, minning sem syrgjandinn hefur bægt frá sér lengi. Þá er gott að eiga einhvern að sem skilur mann og styður, sem veit að góður vinur getur styrkt og huggað og hleypt vorsólinni inn í hús þar sem sorgin hefur ríkt. Auðvitað losna menn aldrei alveg undan sorginni, sérstaklega ef hún hefur skilið eftir sig djúp sár. En með stuðningi ástvina er hægt að læra að lifa með sorginni og finna lífi sínu nýjan farveg. Við þekkjum öll einhvern som sorgin hefur sótt heim, hvort sem það nú er nýlega eða fyrir einhverju síðan. Kannski er það einhver ættingja okkar, vinur eða kunningi. Og við skulum ekki gleyma börnunum, því oft hefur þeirra sorgum verið ýtt til hliðar vegna þess að allir hafa svo miklar áhyggjur af hinum fullorðnu. Börnin syrgja líka á sinn hátt og þurfa huggunar með. Hvernig væri nú að taka sér tíma í miðju páskafjörinu til þess að líta við hjá þeim sem þannig er ástatt fyrir og láta hann eða hana finna að þér er ekki sama, að þú skilur og vilt bjóða fram þína öxl, þinn stuðning? það þarf ekki að kosta þig mikinn tíma af páskafríinu þínu. En heldurðu ekki að páskaeggið þitt eigi eftir að bragðast betur, ef þú veist að þú færðir sólargeisla inn í hjarta þar sem sorgin hafði knúið dyra?

Gleðilega páska.

Þórhallur Heimisson.