Þegar foreldrarnir gefa börnum sínum ekki nóg af sér

Michael er kominn í viðtal til mín, íklæddur fjólubláum bol og gallabuxum sem eru alsettar götum. Hann er stöðugt að pilla í götin til að stækka þau. Hann er með þykkan svartan farða kringum augun og hárið í rauðlitaðan hanakamb upp í loftið. Hann er nauðrakaður upp vangana. Stígvélin hans eru handsaumuð, og hann er kattþrifinn. Hann kom með hvíta rottu í gullbúri.

Hann segir mér, að hann hafi stolið 12.190 krónum af bensínstöðinni þar sem hann vinnur um helgar. Hann veit ekki hvers vegna hann stal peningunum, en hann notaði þá til að kaupa sér geisladiska, en hefði getað keypt þá án þess að stela.

Móðir hans komst að því að hann hafi stolið peningunum og fékk hann til að viðurkenna það og borga þá til baka í smáskömmtum. Þetta er nú úr sögunni og eigandi bensínstöðvarinnar varð einskis vísari.

Michael verður bráðum stúdent, en hann hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera með stúdentspróf. Ég spyr hann hvort hann hafi rætt það við foreldra sína. „Við pabbi tölumst ekki við, hann hefur ekki hugmynd um þjófnaðinn, mamma vill ekki blanda honum í þetta. Hann myndi líka bara reka mig að heiman ef hann frétti af þessu.

Ég bið hann að lýsa föðurnum. Hann situr grafkyrr og lítur á mig eins og ég hafi sagt eitthvað óviðeigandi. Eftir drykklanga stund bið ég hann að segja mér frá því hvenær hann hafi átt góð samskipti við föðurinn.

Michael hugsar sig lengi um, augasteinarnir dragast saman og hann er íhugull. „Það var rétt eftir að ég fermdist. Við vorum í fótbolta í bakgarðinum. Það var í maí og sólin skein.

Michael gaf mér leyfi til að skrifa föðurnum og biðja hann að koma í viðtal. En faðirinn kærði sig ekki um að tala við mig – við hefðum ekkert um að tala. Ef Michael ætti við einhver vandamál að etja þyrfti hann sjálfur að leysa þau, og ef hann væri óánægður, væri enginn að banna honum að flytja. Móðirin tilkynnti mér þetta í símann.

Hálfu ári síðar sagði hún mér, að Michael væri að flytja á stúdentagarð, og að hún færi að heimsækja hann. Hann var ekki lengur í pönkbúningi. Hann gæti ekki komið aftur heim til sín – hann þurfti sjálfur að standa undir náminu – líka fjárhagslega. „Maðurinn minn er afar óánægður með Michael.

Vandi drengsins er því miður ekkert einsdæmi, og ég held að ég hafi rambað á erfiðleika margra ungmenna og ástæðurnar fyrir uppreisn þeirra. Sem betur fer er það ekki alltaf svona átakanlegt. Faðirinn var vondi kallinn í þessari sögu, en það hefði alveg eins getað verið móðirin eða þau bæði.

Hvað á ég að gera við líf mitt? Það er spurning sem margir spyrja sig og eiga sjaldnast svar við. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eiga að gera við sig og finnst lífið innantómt, einskisvert og tilgangslaust. Oft taka þeir ekki sjálfir sínar ákvarðanir en láta aðra um það. Foreldrar þeirra hafa ekki sagt þeim, hvað þeim finnst mikilvægt – höfðu ef til vill aldrei hugsað um það sjálfir – eða fundu fyrir sama tómlæti.

Það eru margir eins og Michael, sem hafa ekki fengið nóga ást og þjást af hungurverkjum eftir móður- eða föðurást, og þegar verst lætur, hvoru tveggja.

Þeir eru í tilvistarkreppu – vita ekki hvað eða hvern þeir ættu að trúa á. Þeir vita heldur ekki hverjir þeir eru né muninn á góðu og slæmu. Það kemur greinilega fram um þessar mundir með vinsældum bóka um dulræn málefni og heimspekilegar hugleiðingar um tilgang lífsins. Tíundi áratugurinn markast mjög af leit fólks að sjálfsmynd og innihaldi.

Margir hafa ennfremur alist upp við vond félagsleg viðmið. Þeir hafa fylgst með foreldrum sínum stela úr búðum á laugardögum. Þeir hafa heyrt fullorðna fólkið gorta af að hafa borgað píparanum undir borðið þegar hann gerði við eldhúsvaskinn og hæðast að grannanum sem er svo vitlaus að borga iðnaðarmönnunum fullu verði.

Það er stolið, logið og svikið samviskulaust.

Frá 1980 til 1988 hefur þeim fjölgað um helming sem eru yfir fertugt og fá á sig dóm. Á sama tímabili brjóta unglingar æ oftar af sér. „Ef uppalendur fremja fleiri glæpi, er mjög líklegt að þeir dragi börnin með sér. segir afbrotafræðingurinn Flemming Balvig. Og hann heldur áfram: „Það þarf að losa sig við þetta trosnaða siðgæðismat sem ríkt hefur ef hrakspárnar um upplausn þjóðfélagsins eiga ekki að rætast.

Jákvæð félagsleg viðhorf hafa ekki forgang. Ef maður undirstrikar mikilvægi heiðarleika er maður jafnvel talinn frelsað fífl. Boðorðin tíu eru ágæt til að styðjast við en fólk kann þau jafnvel ekki eða vill ekki viðrukenna að kunna þau.

Ef ég sem foreldri óska þess að barnið mitt verði heiðarleg manneskja neyðist ég til að ganga á undan með góðu eftirdæmi sem áreiðanleg og hreinskiptin manneskja á hverjum einasta degi. Það er ekki hægt að blekkja börn. Þau bregðast við fullorðna fólkinu af eðlisávísun – þau eru skynsamar mannverur og bera skynbragð á fólk.

Við berum merki foreldra okkar alla ævi, það mark hefur brennt sig fast. Slæmt háttalag gengur mann fram af manni ef ekki kemur til meðvituð viðleitni til að snúa við blaðinu. En heilnæmir lífshættir og siðgæði erfast sem betur fer líka. Börn og unglingar vilja og þurfa fyrirmyndir. Þau vilja fólk sem þau geta treyst og litið upp til. Þau sækjast eftir fullorðnum sem þau geta líkt eftir.

Ég er af þeirri kynslóð sem var hadin mikilli efnishyggju og gaf sér ekki tíma fyrir það sem allar lifandi verur hungrar og þyrstir í, ást, blíðu, öryggi og snertingu. Allt snerist um að eignast dauða hluti. Ef við öll eignuðumst hús og tækjum þátt í lífsgæðakapphlaupinu yrðum við sæl og glöð. Við fullorðna fólkið verðum að viðurkenna mistökin og það strax. Við verðum líka að reyna að skilgreina á hvað við trúum. Hvort afstaðan er trúarleg, pólitísk eða eitthvað annað, skiptir ekki mestu máli. En næsta kynslóð þarf haldbært gildismat til að byggja á – eða hafna, og jafnvel skipta á því og eigin skoðunum og viðhorfum. Það verður að tjá hugsanir sínar svo að hægt sé að taka afstöðu til þeirra gilda sem einstaklingurinn óskar að börn hans fái í arf.

Menn geta velt því fyrir sér sjálfir, hvaða eftirmæli þeir vilja. Hvað vilja þeir að börnin sín og vinir segi um þá, þegar þeir eru horfnir yfir móðuna miklu? Hvað verður skrifað á minnisvarðann?

Eru til leiðbeiningar um það, hvernig við getum veitt hvert öðru meiri umhyggju og kærleik, bæði innan fjölskyldunnar og út á við? Nei, en hægt er að styðjast við ýmsar ábendingar í þá veru. Við skulum fikra okkur í áttina til að öðlast það sem við þráum: hamingju okkar og ástvina okkar.

Efnahagskreppan er ekki síður siðferðiskreppa. Samfélagið byggir á fjölskyldunni, og þegar gildismat hennar er á brauðfótum – eða þegar verst lætur, komið að fótum fram, og lög og reglur eru fótum troðin – getur allt endað í upplausn og lögmál frumskógarins nær yfirhöndinni og hinir sterku hafa sína hentisemi án tillits til hinna minna megandi í þjóðfélaginu.

Lífsstíll og gildismat breytast ekki með nýjum lagasetningum einvörðungu. Hver og einn verður að reyta arfann í eigin garði. Efnishyggjan hefur beðið skipbrot. Hugmyndafræðin sem lífsgæðakapphlaupið byggir á hefur reynst vera býsna gölluð. Mannskepnan verður ekkert sérlega hamingjusöm af að sitja bak við eigin tölvu og panta varning frá kjörbúðinni og halla sér síðan í hægindastólinn til að góna á myndbönd með öl og popp við höndina. Þetta er dægrarstytting en sveltir fólk tilfinningalega. Skiptar skoðanir eru um hvað gefi lífinu gildi og hvað sé hamingja. Hér er mín skilgreining:

  1. Hversdagsleg hamingjutilfinning er ástand ánægju og gleði.
  2. Tilfinningin um að hafa tök á starfi sínu og nautnin af vel unnu verki.
  3. Að vera í andlegu og líkamlegu jafnvægi svo að maður geti gert eitthvað fyrir ástvini sína og notið þess að fylgjast með þeim þroskast og dafna.
  4. Það er líka hamingja að teysta lífsförunaut sínum og vita að hann muni veita stuðning ef eitthvað bjátar á.
  5. Að eiga aflögu til að hugga og hjálpa þeim sem þurfa á því að halda.
  6. Allt þetta stuðlar að lífsgleði og veitir styrk í mótlæti og sorg.