Það eru til lausnir ef fólki líður illa

Þegar fólk verður fyrir áföllum þarf það að muna að nauðsynlegt er að ræða málin við sína nánustu og fá hjá þeim þann stuðning sem hægt er. Flestum nægir slíkur stuðningur en fyrir þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki rætt við sína nánustu eru önnur úrræði í boði. Ef fólk finnur fyrir kvíða, depurð eða einkennum þunglyndis eða þekkir einhvern sem það hefur áhyggjur af eru margvíslegar leiðir til að leita aðstoðar.

Það eru til lausnir og hjálpin er nær en þig kann að gruna, þar á meðal eru:

 1. Heilsugæslan; heimilislæknar og hjúkrunarfræðingar.
 2. 1717 hjálparsími Rauða Krossins.
 3. Ráðgjöf á vegum geðdeildar Landspítala í Heilsuverndarstöð verður opnuð á næstu 1–2 sólarhringum.
 4. Ráðgjafarstöð heimilanna.
 5. Göngudeildir geðdeilda Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.
 6. Göngudeildin Von við SÁÁ (í erfiðum aðstæðum aukast líkur á falli).
 7. Ráðgjafarstöð á vegum félagsmálaráðuneytis (verið að setja upp).
 8. Aðstoð við fólk í vanda á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga
 9. Fjölskyldumiðstöð á Háleitisbraut.
 10. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar.
 11. Vaktþjónusta heilsugæslunnar.
 12. Sérfræðistofur geðlækna, geðhjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.

Langvarandi álag, streita og kvíði geta valdið þunglyndi ef ekkert er að gert, þ.e. ef fólk hlúir ekki að sér og sínum nánustu eða leitar þeirrar aðstoðar sem í boði er. Munum að þegar rætt er um þunglyndi þá verið að ræða sjúklegt ástand sem hefur staðið samfellt í a.m.k. 14 daga og getur þróast í alvarlegan sjúkdóm. Við þurfum þó fyrir alla muni að gæta þess að líta ekki á áhyggjur af aðsteðjandi efnahagsvanda eins og um sjúkdóm sé að ræða.

Látið áfengi í friði
Það er einnig ástæða til á að hvetja fólk sem hefur þungar áhyggjur til að láta áfengi eða önnur vímuefni í friði vegna þess að neysla þeirra losar um hömlur og getur gert ástandið mun verra. Áfengisneysla getur til að mynda aukið á samskiptaerfiðleika, komið af stað pirringi, valdið reiði og vakið bæði vonleysi og neikvæðar hugsanir um tilgangsleysi.

Að lokum skal bent á meiri fræðslu um þessi efni á vefjunum www.thunglyndi.landlaeknir.is og www.umhuga.is, en þar er listi yfir enn fleiri staði sem hægt er að leita til (http://www.umhuga.is/I-vanda-Hvert-leita-eg). Sjá ennfremur: Hugum að velferð barna.

Salbjörg Bjarnadóttir
geðhjúkrunarfræðingur
verkefnisstjóri Þjóðar gegn þunglyndi