Það er leikur að læra að borða hollan mat!

Börn þurfa eins og allir aðrir að borða hollan og góðan mat. Með því er ekki aðeins verið að stuðla að því að barnið sé hraust,vaxi og dafni, heldur er verið að leggja grunninn að framtíðinni, því mataræði í æsku hefur einnig áhrif á heilsu- og holdafar á fullorðinsárum. Margir hafa áhyggjur af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Sífellt fleiri börn eru of þung og of feit og þar er hreyfingarleysi og röngu mataræði um að kenna. Offitunni fylgja alvarlegir sjúkdómar og skert lífsgæði.

Þess vegna er mikilvægt að við grípum í taumana og snúum þróuninni við, enda felast verðmæti þjóðarbúsins í orku þeirra kynslóðar sem nú vex úr grasi.

Fjölbreytt fæða og reglulegt máltíðamunstur, ásamt hreyfingu er það sem við þurfum að leggja áherslu á. Með jákvæðum skilaboðum og skemmtilegri fræðslu getum við stuðlað að því að börnin velji með gleði hollan mat og njóti þess að borða hann. Orkubókin frá Latabæ er dæmi um leið, þar sem börnin læra að fylgjast með eigin mataræði og hreyfingu um leið og viss leikur felst í því að koma límmiðum fyrir í bókinni. Það er því um að gera að nýta orkuátakið, sem er að hefjast í að virkja börnin enn frekar – leyfa þeim að skipuleggja matseðilinn, hjálpa til við eldamennskuna, bjóða þeim með fjölskyldunni í sund eða bara út í góða göngu að skoða haustlitina.

Sum börn eru matvönd, en þegar maturinn er orðinn að spennandi viðfangsefni getur það auðveldlega breyst. Samt er vert að hafa í huga að börn þurfa að borða nýja fæðutegund oft áður en þau venjast henni. Það getur því verið ráð að setja mjög lítinn skammt af nýrri fæðutegund á diskinn, rétt þannig að börnin kynnist bragðinu, en bjóða svo þessa sömu tegund oftar næstu daga. Eins er ráð að taka tillit til barnanna og hafa þau með í ráðum við innkaupin, t.d. með því að leyfa þeim að velja grænmetið og ávextina sem þau vilja borða. Maturinn þarf að lenda í innkaupakörfunni til að hann komist upp í munn og ofan í maga.

Börnin þurfa heilbrigðar fyrirmyndir. Á meðal þeirra eru litskrúðugar persónur Latabæjar, en foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimar, leikskóla- og grunnskólakennarar og aðrir þeir sem taka virkan þátt í daglegu lífi barnsins skipta þó mestu máli. Með því að taka þátt í þjóðarátakinu er ekki aðeins tekið þátt í skemmtilegum leik, heldur hvetur það börnin til að stunda heilbrigðan lífsstíl og um leið er það foreldrum til góðs, því fyrirmyndirnar verða líka að borða hollan mat og hreyfa sig.

Virkjum orku komandi kynslóða!

Frá Landlæknisembættinu