Það er ekki nóg að vera góður kokkur

– helstu reglur til að tryggja örugg matvæli

Þvoum hendur

Þvoum alltaf hendur áður en farið er að eiga við mat eða borða, milli þess að ólík matvæli eru meðhöndluð og að sjálfsögðu eftir salernisferð.

Ef nokkur möguleiki er á, útbúðu ekki mat fyrir aðra ef þú hefur magapest, hálsbólgu eða ígerð í sári á höndum.

Notum hrein áhöld.

Þvoum hnífa og skurðarbretti oft og höldum eldhúsborði hreinu. Borðtuska getur breyst í bakteríubombu! Þvoum hana við a.m.k. 60°C eða leggjum í klór. Skiptum oft um borðtusku. Notum hana aldrei á gólfið! Eldhúspappír hentar oft í stað tusku.

Hitum vel – kælum hratt

Ef halda þarf matnum heitum, verður hann að vera vel heitur(a.m.k. 60°C) Verði maturinn volgur geta bakteríur fjölgað sér og valdið matarsjúkdómum.

Ef maturinn er eldaður löngu áður en á að borða hann, er betra að kæla hann hratt niður og hita hann svo upp aftur þegar á þarf að halda. Setjum t.d. pottinn í kalt vatn (með klaka) og hrærum í. Sé matnum skipt niður í minni ílát kólnar hann hraðar.

Athugum hitastigið í ísskápnum.

Matvæli sem á að geyma í kæli þarf að setja í kæliskáp.
Hitastigið á að vera 0-4°C. Það hindrar fjölgun baktería.

Látum hráan mat og tilbúinn mat ekki snertast.

Notum ekki sömu áhöld á mismunandi hrávöru og alls ekki sömu áhöld á hrávöru og tilbúinn mat – eða þvoum áhöldin vel á milli. Þannig getum við komið í veg fyrir að við flytjum sjúkdómsvaldandi bakteríur úr hráum mat yfir í tilbúinn mat.

Heitur matur á að vera vel heitur.

Fuglakjöt og hakkað og annað unnið kjöt á að gegnsteikja. Á heilum kjötstykkjum (annað en fuglakjöt) er mikilvægast að steikja yfirborðið vel, því þar eru bakteríurnar. Við matreiðslu og upphitun á hitinn að fara í 75°C, því þá eru sjúkdómsvaldandi bakteríur dauðar.

Þegar eldað er í örbylgjuofni, er mikilvægt að hræra í og láta réttinn standa nokkrar mínútur svo að hitinn dreifist jafnt.

Lærum að matreiða öruggan mat.

Bakteríur finnast allsstaðar í náttúrunni, einnig í matvælum. Ef matur er meðhöndlaður á rangan hátt, geta bakteríur fjölgað sér og valdið matareitrun eða matarsýkingu. Bakteríur fjölga sér hratt við ca 8°C til 60°C. Sjúkdómsvaldandi bakteríur drepast ef maturinn er hitaður í 75°C.

Algengustu ástæður matarsjúkdóma eru: Léleg hitun, hæg kæling, matur geymdur við of hátt hitastig og lélegt hreinlæti. Með því að fylgja þeim einföldu ráðum sem hér hafa komið fram leggjum við okkar af mörkum til að matur sem við útbúum valdi ekki matarsjúkdómum.

 

Tilkynnið heilbrigðiseftirliti ef matareitrun eða matarsýking kemur upp.

Heilbrigðiseftirlitið vinnur að því að matvæli séu örugg til neyslu og hefur eftirlit með fyrirtækjum sem framleiða eða dreifa matvælum.

Heilbrigðiseftirlitið þarf að fá vitneskju um ef þú telur að þú hafir veikst vegna neyslu matar. Það á við hvort sem þú borðaðir á veitingastað, mötuneyti eða útbjóst matinn sjálf(ur).

Á Íslandi sjá sveitarfélög um heilbrigðiseftirlit og eru 10 heilbrigðiseftirlitssvæði á landinu.

Birt með góðfúslegu leyfi Hollustuverndar ríkisins.

Af vef Hollustuverndar ríkisins.

Nánari upplýsingar um ofangreint efni má fá hjá sérfræðingum matvælasviðs Hollustuverndar ríkisins.