Tennur, gerð þeirra og myndun

Hlutverk tanna

Meginhlutverk tanna er að tyggja fæðuna og búa hana undir meltinguna. Barnatennur hafa þar að auki það hlutverk að örva vöxt kjálkanna og halda rýminu fyrir fullorðinstennurnar. Þá skipta tennur miklu fyrir útlit og hljóðmyndun. Erfitt er að ná framburði vissra hljóða, einkum s, f, v, þ og ð, nema framtennur séu heilar. Í nútímaþjóðfélagi, þar sem útlit og tíska hefur mikil áhrif á vellíðan fólks, skipta tennur og fallegt bros verulegu máli. Tennur eru mismunandi að stærð og lögun eftir hlutverki og staðsetningu í munninum.
  • Framtennur eru beittar og hentugar til að naga með og til að klippa eða hluta fæðuna sundur. Þær eru skóflulaga og beina fæðunni inn í munninn.
  • Augntennur eru lengstu tennurnar í munninum og eru með eina rót og einn tyggihnúð. Þær eru því sterkar og stingast eða grípa í fæðuna og rífa hana í sundur, sbr. vígtennur hjá dýrum.
  • Framjaxlar eru næst aftan við augntennur. Þeir hafa eina til tvær rætur og tvo til þrjá bratta tyggihnúða sem merja og tæta fæðuna.
  • Jaxlar eru aftast og eru þeir mun stærri en framjaxlar. Í efri góm hafa þeir þrjár rætur og tvær í þeim neðri. Tyggihnúðar eru fleiri og lægri en á framjöxlum og eru þeir hentugir til að mylja fæðuna frekar og merja hana í sundur.

Gerð tanna

Króna og rót: Tennur skiptast í krónu, sem er hinn sýnilegi hluti tannarinnar og stendur upp í munnholið, og rót sem situr í kjálkabeininu.

Tannbein: Aðalvefur tannarinnar er tannbeinið. Um það bil 70% þess eru steinefni, 20% lífræn efni og 10% vatn.

Glerungur: Bein tannkrónunnar er hulið hörðu lagi sem nefnt er glerungur. Glerungurinn er harðasti vefur líkamans og eru 95% hans steinefni en að öðru leyti vatn og lífræn efni.

Steinungur: Yfirborð rótanna er þakið þunnu lagi, svonefndum steinungi.

Tannkvika: Innan í tönninni er holrúm eða göng sem opnast í rótarendana og þar inni er tannkvikan. Oft er tannkvikan kölluð „taugin“, sem er naumast réttnefni því að þar er fleira en taugavefur, m.a. blóðæðar sem flytja tönninni næringu.

Koma fullorðinstanna

Sex ára jaxl

Fyrsta fullorðinstönnin kemur við 6 ára aldurinn. Langoftast er það svokallaður sex ára jaxl sem kemur fyrir aftan barnatennurnar. Hvorki sex ára jaxlinn né jaxlarnir þar fyrir aftan koma í staðinn fyrir barnatennur. Hins vegar myndast framtennur, augntennur og framjaxlar undir rótum eða á milli róta barnatannanna. Eftir því sem þessar tennur þroskast og vaxa færast þær upp að yfirborði tannboganna og eyða smám saman rótum barnatannanna. Þegar líður að komutíma þessara tanna hafa rætur barnatannanna alveg eyðst og krónurnar losna og detta úr.

Við u.þ.b. 7 ára aldur koma fyrstu fullorðinstennurnar undan barnatönnunum, oftast miðframtennur í neðra gómi. Barnatennurnar falla síðan næstu árin hver af annarri og fullorðinstennur koma í staðinn.

Tólf ára jaxl

Við 12 ára aldur kemur annar jaxl, svokallaður tólf ára jaxl, aftan við sex ára jaxlinn. Þá eru allar fullorðinstennurnar nema endajaxlinn vanalega komnar á sinn stað.

Endajaxl

Endajaxlinn kemur síðan venjulegast við 18 ára aldur en þó oft miklu seinna. Í sumum tilvikum kemur endajaxlinn alls ekki upp eða aðeins að hluta vegna þrengsla.

Alls eru fullorðinstennurnar 32. Í hverjum fjórðungi munnsins eru tvær framtennur, ein augntönn, tveir framjaxlar og þrír jaxlar.

Teikning Tannmyndun og tannkoma barna- og fullorðinstanna frá 5 mánaða fóstri til 18 ára aldurs. Skoða mynd

Birt með góðfúslegu leyfi Tannverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is