Taugabólga hjá sykursjúkum

 • Hvað er taugabólga?

 • Taugabólga hjá sykursjúkum er samheiti yfir nokkra fylgikvilla sem tengjast taugakerfinu. Taugabólga kemur yfirleitt fram hjá einstaklingum sem ekki hafa haft nógu góða sykurstjórn í gegnum tíðina, það er hafa ekki fylgt meðferðaráætlun.

  Taugabólga getur verið bráð eða langvinn. Bráð taugabólga hverfur yfirleitt við bætta blóðsykurstjórnun en langvinn taugabólga hefur alvarlegri afleiðingar í för með sér.

  Taugabólga getur lýst sér í:

  • Breyttu húðskyni annaðhvort minnkað skyn eða sársaukafull tilfinning.
  • Breytingum á vöðvastarfsemi (breyting á viljastýrða taugakerfinu)
  • Breytingum á starfsemi innri líffæra (breyting á ósjálfráða taugakerfinu)

  Hver eru einkennin?

  • Breytt húðskyn:

   Annars vegar er um að ræða taugabólgu sem hefur í för með sér stingandi, brennandi eða nístandi verki sem koma aðallega að nóttu til. Hins vegar er um að ræða taugabólgu sem er án verkja og er mun algengari en sú fyrri. Þá er um að ræða minnkað eða breytt húðskyn, þar sem m.a. titringsskyn minnkar og snertiskyn breytist þannig að sjúklingurinn fær einkennilega tilfinningu í iljar við gang og finnst sem hann gangi á bómull.
   Þessi einkenni koma oftast fram í fótum og fótleggjum, einnig höndum og handleggjum.

   

  • Breytingar á vöðvastarfsemi:

   Eru sjaldgæfari og geta leitt til minnkaðs krafts í fót- og handleggjum. Þannig getur göngulag orðið óeðlilegt.

  • Breytingar á starfsemi innri líffæra:

   Koma fram í:

  • svima, sérstaklega þegar skyndilega er staðið upp
  • ógleði og uppköstum eftir máltíðir
  • niðurgangi
  • erfiðleikum við að tæma þvagblöðru
  • erfiðleikum við að greina einkenni lækkaðs blóðsykurs
  • getuleysi hjá karlmönnum.

 • Hver er orsökin?

 • Að hluta til stafar taugabólga af því að litlir taugaþræðir eyðileggjast við of háan blóðsykur.

 • Hvað er til ráða?

 • Mikilvægast er að halda blóðsykrinum innan viðmiðunarmarka því það er hár blóðsykur sem veldur taugaskemmdunum.

  Þar sem taugabólga herjar yfirleitt á fæturna er nauðsynlegt að skoða þá reglulega til að koma í veg fyrir sáramyndanir. Ef sár myndast er mikilvægt að meðhöndla þau strax.

 • Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Greiningin byggist á:

  • einkennum
  • könnun á sinaviðbrögðum (reflexum) með þar til gerðum hamri
  • könnun á titringsskyni með tónkvísl
  • blóðþrýstingsmælingum bæði liggjandi og standandi
  • hjartalínuriti
  • öðrum sérhæfðum rannsóknum.
 • Batahorfur

 • Bráð taugabólga hverfur yfirleitt eftir nokkrar vikur þegar blóðsykurinn hefur verið eðlilegur í einhvern tíma. Langvinn taugabólga er komin til að vera en hægt er að hægja á henni. Nauðsynlegt er að koma insúlínmeðferð í lag.

 • Hver er meðferðin og hvaða lyf eru í boði?

 • Mikilvægast er að fylgjast með blóðsykrinum og að vera á varðbergi gagnvart sáramyndunum á fótum. Nauðsynlegt er að leita til fótasérfræðings öðru hverju ef maður treystir sér ekki sjálfur til að fylgjast með ástandi fótanna, fjarlægja sigg, neglur o.s. frv..

  Hægt er að gefa lyf til að draga úr verkjum í tengslum við taugabólgu

  • væg verkjalyf eins og parasetamól eða asetýlsalisýlsýru
  • morfínlyf, t.d Nobligan eða
  • þríhringlaga þunglyndislyf.

  Að vera í stuðningssokkum getur verið hluti af meðhöndlun við svima sem kemur þegar staðið er upp.

  Hægt er að fá ýmis lyf við óþægindum frá meltingarvegi t.d. ógleði og uppköstum.