Taóismi

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Taóismi – Kínversk heimspeki

Taoism

Engin opinber trú er í Kína og kenna Kínverjar sig yfirleitt ekki við nein tiltekin trúarbrögð. Þrátt fyrir það eru trúarviðhorf þeirra allt í senn margbreytileg og sundurleit og mótast af heimafengnum og aðfluttum viðhorfum, þar sem guðshugmyndin er á engan hátt skýr. Það er einkum þrennt sem stendur upp úr þegar reynt er að fá yfirlit yfir trúarlíf Kínverja. Í fyrsta lagi eru það kenningar Konfúsíusar þar sem lögð er áhersla á hlutverk einstaklingsins í samfélaginu og í öðru lagi er það taóismi. Báðar þessar stefnur eiga upptök sín í Kína fyrir um 2500 árum og hafa því mótað kínverskt samfélag um aldir og haft mikil áhrif á kínverska menningu og hugsun. Í þriðja lagi er það búddatrú sem barst til Kína á fyrstu öld okkar tímatals. Ekki eru alltaf skýr mörk hvar eitt viðhorfið endar og hvar annað tekur við.

Taóismi er afar umfangsmikið og flókið fyrirbæri. Honum er helst lýst sem heimspekistefnu með trúarlegu ívafi. Það má segja að stefnan móti lífsskoðun Kínverja og hafi áhrif á viðhorf þeirra til nánast allra hluta. Í taóisma er gengið út frá einingu alls heimsins, að taó sé upphaf alls, kraftur sem býr að baki öllum hlutum bæði sýnilegum og ósýnilegum og hafi áhrif á allt. Þessi kraftur samanstendur af tveim andstæðum öflum yin og yang. Hvort aflið um sig hefur sína sérstöku eiginleika sem með samspili sínu og eða víxláhrifum leitast við að halda jafnvægi í eilífri hringrás náttúrunnar þ.e. milli jarðar, manns og himins. Þannig eru yin og yang ekki bara andstæð öfl heldur geta þau einnig verið samstæður, unnið saman og bætt hvort annað upp.

Ekki er vitað hvort þeir Kínverjar sem búsettir eru hér á landi aðhyllist almennt taóisma. Hinsvegar gætir áhrifa hugmyndafræðinnar í lífsmynstri, fæðuvali og viðhorfum almennings til sjúkdóma og heilbrigðis víða um lönd Asíu.

HELGISIÐIR

Engir sérstakir helgisiðir tíðkast en forfeðradýrkun er rík í arfleifðinni. Álitið er að andi forfeðranna sé á sveimi og geti refsað eða verðlaunað fyrir slæmar eða góðar gjörðir, eftir því sem við á. Því er reynt að halda öndum þeirra góðum með ýmsum ráðum. Kínverjar búa sér gjarnan til altari þar sem þeir geta fært forfeðrunum fórnir, t.d. með því að færa þeim pappírsblóm, mat eða brenna reykelsi.

Kínverjar halda upp á nokkrar þjóðlegar hátíðir en stærst er hátið vorsins í febrúar. Einnig halda flestir Kínverjar sem eru búsettir hér á landi upp á jól og áramót.

LÍFSHÆTTIR

Fæðuvenjur
Þó að matarvenjur Kínverja séu nokkuð breytilegar leggja flestir mikið upp úr reglulegu og „réttu“ mataræði og telja að koma megi í veg fyrir sjúkdóma og ýmsa kvilla á þann hátt. Þeir gæta þess vandlega að jafnvægi ríki á milli yin þ.e. kaldrar og yang þ.e. heitrar fæðu. Er þá átt við fæðutegundir fremur en hitastig. Þumalputtareglan er sú að grænmeti og ávextir eru oftast meira yin en dýraafurðir eru þá frekar yang, þó að undantekningar megi finna á því. Yin fæði kælir líkamann meðan yang eykur brennslu og eykur þar með hita í líkamanum, annað mótverkar hitt, þannig er leitast við að viðhalda jafnvægi. Neysla mjólkurafurða er talin góð fyrir börn sem eru að vaxa en ekki fyrir þá sem eldri eru. Fyrir eldra fólk er lögð áhersla á grænmeti, soyjabaunamjólk og tófu svo eitthvað sé nefnt. Þá drekka þeir frekar te en kaffi.

Föstur
Í taoisma gilda engar sérstakar föstuvenjur.

Hreinlæti
Viðhorf til hreinlætis eru þau sömu og þekkjast í íslensku samfélagi.

Hreyfing
Margir sem aðhyllast taóisma stunda daglega “Taó Ji” líkamsæfingar og hugleiðslu (einskonar joga) sem leið til að hvíla hugann.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Engin andstaða er við hóflegri notkun áfengis.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er aðhyllast taóisma sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Viðhorf til fjölskyldunnar byggir á kenningum Konfúsíusar. Litið er á fjölskylduna sem grunneiningu samfélagsins, þar sem hver einstaklingur hefur ákveðna stöðu svo og ákveðnar skyldur gagnvart foreldrum og þeim sem eldri eru. Ákvörðunarvaldið liggur fremur hjá þeim sem elstur er innan fjölskyldunnar en hjá einstaklingnum sjálfum. Fjölskyldubönd eru sterk og er hagur einstaklingsins látinn víkja fyrir heildarhagsmunum fjölskyldunnar. Mikil áhersla er lögð á að allir fjölskyldumeðlimir haldi uppi heiðri fjölskyldunnar.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Kínversk læknisfræði á u pptök sín í heimspeki og heimsýn Kínverja. Hún byggir á kenningunni um samspil líkama og sálar. Áhersla er á orkuflæði líkamans sem berst eftir ákveðnum brautum milli allra líkamshluta og er á stöðugri hreyfingu. Stíflist einhver þessara brauta og ójafnvægi verður, veldur það sjúkdómum. Álitið er að ná megi til allra innri líffæra mannsins í gegnum orkubrautirnar með því að meðhöndla ákveðin svæði á yfirborði líkamans með nálarstungum, þrýstinuddi og með einhvers konar sogi eftir því sem við á. Þá eru ýmis jurtalyf svo og mataræði notað til að fyrirbyggja og/eða lækna sjúkdóma. Til að hægt sé að tala um heilbrigði þarf yin og yang að vera í jafnvægi. Þá telja Kínverjar að greina megi sjúkdóma einungis með því að þreifa púlsinn. Sú aðferð krefst áralangrar þjálfunar og getur tekið allt að 1-2 klst. að gera sjúkdómsgreiningu.

Kínverjar sem flust hafa til Vesturlanda nýta sér þá læknisþjónustu sem er í boði, en leita oft til læknis seinna en æskilegt er. Þeir reyna gjarnan fyrst að meðhöndla veikindi sín og annarra fjölskyldumeðlima með þeim ráðum sem þeir best kunna í ljósi yin/yang hugmyndafræðinnar, einkum með mataræði “heitu eða köldu” eftir því hver kvillinn er, svo og með þrýstinuddi og jurtalyfjum. Ástæða þess að þeir leita oft seint til læknis kann að vera meðal annars sú, að enn fyrirfinnst það viðhorf að sjúkdómar geti verið refsing vegna slæmra gjörða. Þá hafa þeir trú á eigin læknisfræði, en viðurkenna að hún er oft seinvirkari en sú vestræna, einkum er varðar meðhöndlun sýkinga. Þá fyrirfinnst sú skoðun að þegar um vestræn lyf er að ræða sé óæskilegt að taka margar mismunandi tegundir á sama tíma.

Orsakir sjúkdóma
Enn ríkir það viðhorf meðal sumra að sjúkdómar og fatlanir séu afleiðing slæmra gjörða.

Getnaðarvarnir
Almennt er ekkert haft á móti getnaðarvörnum. Hins vegar er talið æskilegt að kona noti ekki p-pilluna fyrr en eftir að hún hefur ákveðið að eiga ekki fleiri börn, þar sem notkun hennar fyrir barnsburð er álitin geta haft óæskileg áhrif.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar eru háðar ákvörðun einstaklingsins.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er aðhyllast taóisma sem lýtur að meðgöngu.

Líffæraflutningar
Ekkert er haft á móti líffæraflutningum.

Verkjameðferð
Engin mótstaða er við notkun verkjalyfja.

Blóðgjafir
Ekki er haft á móti blóðgjöf, en talið er æskilegt að blóðið komi frá einhverjum ættingja, ef því verður við komið.

Krufningar
Ekki er andstaða við krufningu ef hún er nauðsynleg.

Snerting

Að snerta aðra manneskju er ekki viðtekin venja. Að heilsast með handabandi er mörgum framandi. Ókunnugir ættu til dæmis ekki að snerta höfuð annarrar manneskju að óþörfu þar sem sumir álíta það heilagt. Einföld athöfn eins og að strjúka andlit eða höfuð sjúklings getur valdi sjúklingi erfiðleikum, hann gæti upplifað það sem ákveðna vanvirðingu við sig.

Samskipti

Ekki er alltaf hægt að meta líðan einstaklinga af framkomu þeirra, glaðlegt yfirbragð þarf ekki endilega að þýða vellíðan. Arfleifðin felur í sér hógværð og allt að því undirgefni gagnvart þeim sem álitnir eru æðra settir í þjóðfélagsstiganum. Sjálfsagt er því að nota túlkaþjónustu þegar ræða þarf mikilvæg mál.

Það viðhorf er algengt að ekki beri að segja sjúklingnum frá því í byrjun hversu alvarlegt ástand hans er, því það kunni að valda honum auknu álagi og getur orðið til þess að hann verði enn veikari. Hins vegar vilja sjúklingar, einkum karlmenn, vita þegar dregur að lokum lífs svo þeir geti gert ráðstafanir s.s. að undirbúa jarðarför sína, m.a. ákveða í hvaða fatnaði þeir verði lagðir til grafar í.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Fyrir utan hefðbundna umönnun getur heilbrigðisstarfsfólk hvað best stutt við sjúklinginn með því að sýna honum og viðhorfum hans skilning. Einnig að vera meðvitaður um að viðhorf og óskir sjúklingsins geta verið blandaðar trúarlegu ívafi jafnt úr kristni, búddatrú og taóisma auk þess að vera blandaðar af menningu og hefðum hvers og eins.

Flestir þeir sem aðhyllast taóisma trúa á líf eftir dauðann, það er að andi mannsins taki sér bólfestu í nýjum líkama síðar. Litið er á dauðann sem eðlilegan þátt af lífinu og ber manninum að búa sig undir hann. Þegar líður að lokum lífs vill sjúklingurinn og aðstandendur hans vita ef um ólæknandi sjúkdóm er að ræða svo hægt sé að undirbúa vel brottförina úr þessum heimi. Sjúklingurinn gæti kosið að hitta búddamunk, prest eða einhvern ábyrgan úr samfélagi þeirra til að ganga frá atriðum varðandi jarðarförina. Aðstandendur útbúa ef til vill lítið altari í herbergi sjúklingsins, einkum ef hann dvelur heima, og setja þar á reykelsi, olíu, pappírsblóm og kerti, sem látið er loga yfir nótt ef aðstæður leyfa.

Fjölskyldan kann að bera sig mismunandi að við dánarbeðið en ákveðnar hefðir eru til varðandi umönnun eftir andlát. Ein þessara hefða er að ættingjar þvo hinum látna með sérstakri blöndu af vatni, sem álitið er að innihaldi verndandi anda. Líkið er þvegið oftar en einu sinni ef talin er þörf á aukinni vernd andanna, eða þá að það er þakið bökstrum sem er önnur aðferð við að halda illum öndum frá. Þá er hinn látni klæddur í föt sem valin hafa verið af ættingjum eða af sjúklingnum sjálfum nokkru fyrir andlátið.

Ættingjar og vinir votta hinum látna virðingu sína og færa honum gjafir sem fylgja með í gröfina.

Umhverfi

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er aðhyllast taóisma sem lýtur að umhverfi sjúklings.

Útför og greftrun

Mikið er um venjur og hefðir er tengjast dauðanum og útförinni. Miða þær að því að halda forfeðrunum góðum svo að hinum látna farnist vel á leið hans yfir á næsta tilverustig. Það er sameiginlegt Kínverjum að þeir óska sér eðlilegs dauðdaga og að útförin fari fram með sæmd. Tengist þetta trúarviðhorfi þeirra, þ.e. sá sem ekki fær virðulega útför hefur ekki lifað góðu lífi. Eftir jarðarförina hefst svo hinn formlegi sorgartími. Ekki þykir við hæfi að sýna sterk sorgarviðbrögð, þar sem litið er á sjálfsstjórn sem dyggð. Þó tíðkast meðal sumra að fá svokallaðar grátkonur við jarðaförina.

Venjulega fer fram bálför.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda