Tannvernd sjúkra

Sjúkir – langlegusjúklingar

Langvarandi sjúkdómar auka líkur á tannheilsuvandamálum. Mótstaða gegn sýklum verður minni, auknar líkur á munnþurrki (xerostom) vegna sjúkdóma og/eða notkunar á tilteknum lyfjum.

Með réttri munnhirðu og fæðuvali er unnt að draga úr útbreiðslu sjúkdóma í munni. Matur skal vera næringarríkur og þannig framreiddur að hann þurfi að tyggja en það eykur munnvatnsmyndun. Forðast skal sætindi og „bita milli mála“. Mælt er með vatni milli mála, gjarnan með ísmolum, í stað sætra eða súrra drykkja.

Skipting sjúklinga í hópa með tilliti til hæfni við tannhirðu:

Sjálfbjarga sjúklingar

Nauðsynlegt er að fylgjast vel með öllum sjúklingum, jafnvel þótt þeir teljist sjálfbjarga. Oft þarf að minna fullorðna á tannhirðu ekki síður en börn.

Hjálpartæki

Sjálfbjarga sjúklingur þarf að hafa eftirfarandi hjálpartæki á aðgengilegum stað:

 • mjúkan tannbursta
 • flúortannkrem
 • tannþráð
 • vatnsglas
 • handþurrku.

Viðkomandi þarf að geta skolað munn og gervitennur eftir hverja máltíð. Einnig getur sogrör í vatnsglasi auðveldað sumum sjúklingum munnskolun.

Sjúklingar sem þarfnast aðstoðar

Rétt munnhirða þeirra sem þarfnast aðstoðar felur í sér að skoða og hreinsa tennur og munn og, þar sem þörf krefur, að væta tannhold, tungu, slímhimnur og varir. Sömuleiðis þarf að hreinsa gervitennur og tannparta. Munnhirða þarf að vera hluti af skipulagri umönnun sjúklinga sem sinnt er á ákveðnum tímum og henta bæði sjúklingi og starfsfólki.

Verklag við munnhirðu lasburða sjúklinga:

 1. Byrjið á að útskýra fyrir sjúklingi hvað gera skal.
 2. Hækkið höfðalag.
 3. Þvoið hendur.
 4. Íklæðist einnota hönskum.
 5. Breiðið handklæði (viskustykki) yfir háls og bringu sjúklingsins.
 6. Hafið nýrnaskál við höndina.
 7. Takið út og burstið gervitennur eða tannparta.
 8. Burstið tennur.
 9. Látið sjúklinginn skola munninn.
 10. Látið gervitennur og tannparta á sinn stað.
 11. Þurrkið sjúklingnum um munninn og berið vaselín á varir sé þess þörf.
 12. Ef sjúklingurinn á erfitt með að skola munninn þarf að hreinsa munnholið með munnhreinsipinna eftir að tennur hafa verið burstaðar.

Meðvitundarlausir eða mjög lasburða sjúklingar

Sjúklingar, sem ekki taka fæðu gegnum munn, fá engu að síður tannsýklu á tennur. Tannsýklan verður ekki fjarlægð nema með tannburstun. Mjög lasburða fólk á ekki að hafa tannparta eða gervitennur í munni. Tennur skulu burstaðar minnst einu sinni á sólarhring. Þetta skal fært í sjúkraskrá ásamt nafni þess sem burstar. Eigi sjaldnar en 6 sinnum á sólarhring skal hreinsa og fjarlægja óhreinindi úr munni með rakri grisju. Síðan skal strokið yfir varir, tungu, tannhold, kinnar, góm og munnbotn með munnhreinsipinna, sem dýft hefur verið í vatn, klórhexidín eða gervimunnvatn.

Verklag við munnhreinsun MJÖG lasburða sjúklinga:

 1. Útskýrið fyrir sjúklingi hvað gera skal.
 2. Þvoið hendur.
 3. Íklæðist einnota hönskum.
 4. Breiðið handklæði yfir bringu og háls.
 5. Hafið nýrnaskál við höndina.
 6. Reynt skal að snúa höfðinu til vinstri við hreinsun á hægri hlið og öfugt.
 7. Opnið munninn með því að taka varlega á höku sjúklingsins.
 8. Munni skal haldið opnum með því að styðja við höku eða láta bitklossa milli jaxla.
 9. Kannið ástand í munni.
 10. Skán á tungu má hreinsa með mjúkum tannbursta.
 11. Burstið tennur og tannhold með tannbursta, sem dýft hefur verið í vatn eða klórhexidín.
 12. Notið örlítið eða ekkert tannkrem.
 13. Einnig skal hreinsað með tannþræði ef tök eru á.
 14. Með kraftsogi er auðvelt að fjarlægja munnvatn og óhreinindi. Sé ekki notað kraftsog þarf að hreinsa munninn að lokinni burstun með rakri grisju.
 15. Strjúkið yfir allar slímhimnur með munnhreinsipinna sem dýft hefur verið í vatn, gervimunnvatn eða klórhexidín.
 16. Þurrkið varir og berið á þær vaselín sé þess þörf.

Ef sjúklingurinn tekur lyf í töfluformi, skal fylgjast með hvort hann kyngir þeim strax. Lyf í töfluformi sem liggja lengi í munni geta sært slimhimnur (drug burn). Gott er að reyna að forðast lyf í fljótandi formi sem innihalda sykur eða sýróp.

Hjálpartæki við hreinsun á munni

Við hreinsun á munni lasburða fólks er nauðsynlegt að hafa:

 • mjúkan tannbursta,
 • munnhreinsipinna
 • flúortannkrem
 • tannþráð,
 • vatnsglas,
 • handklæði (viskustykki)
 • nýrnaskál,
 • gott ljós
 • einnota hanska.

Einnig, sé þess þörf:

 • kraftsog
 • bitklossa
 • sogrör
 • gervimunnvatn
 • klórhexidín
 • og grisjur.

Munnhreinsipinnar – Pinnar með áföstum svampi á endanum, má nota til að hreinsa og væta slímhimnur, tungu og kinnar.

Grisjur – Forðast ber að sleppa hendi af grisjum eða öðru lauslegu í munni sjúklings, slíkt gæti hrokkið ofan í hann og valdið köfnun.

Kraftsog – Kraftsog er færanlegur sogmótor, sem tengdur er slöngu með sogröri eða sérstaklega gerðum tannbursta (Mynd – í vinnslu). Á sumum sjúkrahúsum er við hvert rúm tengill fyrir innbyggt sogkerfi. Sé notað kraftsog, þurfa tveir að annast munnhirðu sjúklingsins. Annar stjórnar kraftsoginu og hreinsar burt óhreinindi og munnvatn, meðan hinn annast burstun og hreinsun á munni.

Bitklossar – Eigi sjúklingur erfitt með að gapa, þarf að láta bitklossa eða sívalning úr mjúku efni milli jaxla, meðan hreinsað er.

Önnur sérstök hjálpargögn við tannhirðu – Flestum nægir góður tannbursti, tannþráður eða tannstöngull, ásamt réttri aðferð við tannburstun, til að hreinsa tennurnar. Í sérstökum tilfellum getur þurft önnur hjálpargögn til að auðvelda tannhirðuna.

 • Rafmagnstannbursti
 • Flöskubursti (interdental – bursti)
 • Einnar tannar bursti (solo – bursti)

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is