Tannvernd – forvarnir

Mataræði

Er eitthvað samhengi milli mataræðis og sterkra tanna?
Rangt mataræði getur stuðlað að tannskemmdum. Til að sporna gegn þeim er ráðlegast að borða hollan og góðan mat, sætindi í hófi en bursta tennur vel með flúortannkremi. Í raun er flúor eina efnið sem vitað er með vissu að hefur áhrif á styrkleika glerungs á tönnum. Kalk og önnur steinefni, sem áður voru talin nauðsynleg, hafa ekki áhrif á styrkleika tanna eftir að þær eru fullmyndaðar.

Skiptir máli hvort maður notar sykrað álegg á brauð eða ekki?
Öll sætindi hafa áhrif á tannheilsu; ætandi áhrif. Þess vegna er mikilvægt að hreinsa munninn eftir neyslu sætinda. Sé það gert skiptir ekki meginmáli fyrir tennurnar þótt þú fáir þér til dæmis brauð með sultu. Sé það ekki gert hefur fjöldi þeirra skipta sem þú borðar sætindi yfir daginn áhrif, til dæmis át milli mála. Þess vegna er það betra fyrir tennurnar að borða aðeins á föstum matmálstímum heldur en sitt lítið af hverju með stuttum hléum allan liðlangan daginn!

Hefur sykraður safi áhrif á tennheilsu?
Já, en það skiptir líka máli hvernig hans er neytt. Með reglulegum máltíðum er í lagi að drekka safa, en sé hann drukkinn í smáum skömmtum allan daginn, eykst hætta á tannskemmdum. Þetta á sérstaklega við um þá sem þjást af munnþurrki. Þá er skárra að velja heldur sykurlausa drykki. Íslenska vatnið er best!

Tannkrem og munnskol

Hvernig á ég að velja tannkrem sem hentar mér?
Síðustu ár hafa margar tegundir tannkrema með mismunandi efnasamsetningu litið dagsins ljós. Flúortannkrem er það sem hvað lengst hefur verið á markði, en þau vinna vel gegn tannskemmdum. Nýrri tannkrem innihalda einnig efni sem vinna gegn bakteríum í munnholi auk tannsteins og tannholdsbólgum. Það fer því eftir þörfum hvers og eins hvaða tannkrem velja skal. Best er að ráðfæra sig við tannlækninn sinn.

Get ég keypt tannkrem sem nýtist öllum í fjölskyldunni?
Já, og þannig er því langoftast farið. Mikilvægast er að tannkremið innihaldi flúor og það gera langflest tannkrem. Þó er ekki ráðlegt að bursta tennur ungra barna með venjulegu flúortannkremi, og alls ekki þeirra yngstu sem enn eru að taka tennur og hafa ríka tilhneigingu til að kyngja því sem kemur í munninn. Slík tannkrem eru of sterk og geta valdið magakveisu. Þess vegna er ráðlegast að kaupa tannkrem sem sérstaklega eru ætluð börnum.

Þá má einnig nefna að flest tannkrem innihalda hreinsiefni sem nefnist natrium lauryl sulfat. Örfáir einstaklingar eru viðkvæmir fyrir þessu efni og verða fyrir ertingu í slímhúð munnsinns vegna þess. Til eru tannkrem sem ekki innihalda þetta efni og gæti því hentað betur. Fáir þú oft kul í tennur skaltu kaupa tannkrem sem sérstaklega eru ætluð viðkvæmum tönnum. Enn önnur tannkrem henta þeim sem hafa bólgur í tannholdi. Sum þessara tannkrema þarf að nota í ákveðinn tíma, allt að nokkra mánuði í einu, áður en árangur næst.

Tannkrem sem innihalda ensím; hvað er það?
Ennsímtannkremum er ætlað að vinna á bakteríum í munnholi þannig að þær framleiði ekki sýru sem valdið getur vanheilsu. Rannsóknir sýna að þeir sem eiga það til að fá munnangur fá oft lækningu með notkun ensímtannkrema. Þessi tannkrem innihalda ekki natrium lauryl sulfat, en það gæti einnig haft þessi jákvæðu áhrif.

Er mikilvægt að nota munnskol?
Mikilvægast er að bursta tennur og hreinsa með tannþræði eða vönduðum tannstöngli milli tanna. Notkun munnskola í stuttan tíma í einu getur verið nauðsynleg, til dæmis eftir skurðaðgerð, tannplantaísetningu og í fleiri tilfellum. Langtímanotkun munnskols er aðeins ráðleg meðal langlegusjúklinga eða fatlaðra.

Hvaða munnskol eru í boði hér á landi?
Við höfum þrenns konar munnskol:

  • Flúorskol sem vinnur gegn tannskemmdum.
  • Munnskol sem vinnur gegn bakteríum. Munnskol sem innihalda virka efnið klórhexidín eru langvirkustu munnskolin gegn sýklum. Slík munnskol geta valdið litun á tönnum, fyllingum, tungu og víðar í munnholi. Bragðskyn getur einnig breyst og sár myndast á slímhúð. Þetta gengur yfirleitt til baka þegar notkun er hætt. Þú skalt ráðfæra þig við tannlækninn þinn áður en þú notar þannig skol.
  • Munnskol sem gefur frískt og gott bragð í munn.

Munnhirða unglinga

Hvað þarf ég að gera til að halda tönnum mínum hreinum?
Eiga tannbursta, tannkrem og tannþráð og nota kvölds og morgna. Hafðu í huga að tannþráður er mjög mikilvægt hjálpartæki við tannhirðu og án hans myndast tannsteinn sem síðar getur valdið tannholdsbólgum. Rannsóknir sýna að með tannbursta hreinsir þú um 60% tanna, með tannþræði getur þú hreinsað 40% yfirborðs tanna. Hann kemst að matarleifum sem kunna að liggja rétt undir tannholdi. Séu þær ekki hreinsaðar úldna þær undir tannholdinu og valda andfýlu og eins og áður segir tannholdsbólgum síðar meir. Þú skalt venja þig á að nota tannþráð á hverju kvöldi og ekki sjaldanr en þrisvar í viku. Næst þegar þú ferð til tannlæknis skaltu spyrjast frekar um þetta atriði.

Hvernig á ég að velja tannbursta?
Í fæstum tilfellum, ef nokkrum, henta tannburstar með hörðum haus (Merktir: Hard). Þeir geta þvert á móti farið illa með tannhold og valdið skaða á tönnum ef þeir eru notaðir af krafti. Veldu bursta sem þú telur að henti þér best, hvort sem hann er með bognu skafti eða ekki. Ennfremur eru hausar burstanna misjafnlega hærðir. Hvað það varðar skaltu ráðfæra þig við tannlækninn þinn.

Hvað er fleirhliða tannbursti – er hann betri?
Það er ekki nauðsynlegt að kaupa slíkan bursta ef þér gengur vel að bursta með venjulegum bursta. En fyrir börn og þá sem hafa minni styrk í höndum, gæti þessi bursti verið heppilegur.

Hvað með rafmagnstannbursta?
Hugsanlegt er að rafmagnstannbursti gagnist liðagigtarsjúklingum og þeim sem hafa lamast vegna heilablæðingar. En almennt má segja að mörgum finnist spennandi að bursta tennurnar með rafmagnstannbursta, eingöngu vegna að hann er rafknúinn. Það skilar sér oft í betri burstun, en rafmagnstannbursti er ekki ávísun á fullkomna tannhirðu. Hann getur verið gagnlegur, en hann er ekki auðveldari í notkun en venjulegur tannbursti. Það gildir sama og um fleirhliða burstann; rafmagnstannbursti getur hugsanlega hentað börnum og þeim sem hafa minni styrk í höndum.

Hvernig á ég að bursta tennurnar?
Í fyrsta lagi skaltu varast að nota of harðan tannbursta, hann getur eyðilagt glerung tannanna. Við sjálfa burstunina er mikilvægt að þú leggir burstann að tannholdinu og burstir frá því, það er að segja, varastu að bursta upp að tannholdinu því ef þú gerir það er hætta á að þú ýtir óhreinindunum undir tannholdið. Þegar þú burstar tennur efri góms skaltu bursta niður, en þegar þú burstar tennur neðri góms skaltu bursta upp. Þannig kemur þú best í veg fyrir að þú ,,sópir undir teppið“.

Ég hef heyrt að sætuefni kunni að vera skaðleg?
Á Íslandi eru strangar reglur sem gilda um sætuefni. Efnin eiga að vera skaðlaus og mega ekki brotna niður í skaðleg efni í líkamanum. Þau mega ekki hafa áhrif á líkamsstarfsemina og þau mega hvorki gefa aukabragð né eftirbragð. Á Íslandi eru eftirfarandi sætuefni leyfð: Sakkarín, Cyklamat, Aspartam, Sorbitol, Xylitol, Mannitol og Maltitol.

Hver er mismunur þessara sætuefna?
Þau eru tvenns konar; Annars vegar samsett efni sem innihalda engar hitaeiningar og eru gjarnan notuð í megrunarvörur. Dæmi eru Sakkarín og Cyklamat. Aspartam gefur t.d. fáar hitaeiningar og er gjarnan notað í gosdrykki. Hins vegar eru svokölluð sykuralkohól. Þau eru til í náttúrunni og innihalda hitaeiningar. Algeng efni eru Xylitol og Sorbitol og eru þau gjarnan notuð í tyggigúmmí og sælgæti.

Skemmast tennur ef ég drekk eða borða eitthvað sem inniheldur sætuefni?
Bakteríurnar í munninum breyta sykri sem við innbyrðum í sýru sem svo leysir upp glerung tanna. Þannig byrjar tannskemmd. Sætuefni sem ekki innihalda hitaeiningar breytast ekki í sýru og skemma því ekki tennur. Sykuralkohól hegða sér á mismunandi hátt; Sorbitol getur breyst í sýru, en það gerist svo hægt að það er ekki talið hafa nein áhrif. Xylitol virðist hafa bakteríuhemjandi áhrif, þannig að í raun vinnur Xylitol á móti tannskemmdum.

Er gott fyrir tennurnar að tyggja tyggigúmmí með Xylitol?
Það eru komin tyggigúmmí á markaðinn sem eru sætt bæði með Xylitol og Sorbitol. Fræðin segja að það eigi að hindra tannskemmdir. Það er þó ekki hægt að alhæfa á þann hátt, en það má fullyrða að tyggja tyggigúmmí með þessum sætuefnum, valdi ekki tannskemmdum.

Hefur neysla sætuefna einhverjar aukaverkanir?
Tilraunir hafa sýnt að óhófleg neysla sætuefna geti valdið óæskilegum einkennum en enn er ekki séð samhengi milli neyslu þessarra efna og sjúkdóma. Það skal þó nefnt að neysla í miklu magni getur valdið niðurgangi.

Reglulegar heimsóknir til tannlæknis

Hve oft á ég að heimsækja tannlækninn minn?
Tennur þínar eru á þína ábyrgð. Þú sérð um hina daglegu hreinsun og það skiptir höfuðmáli. Þó geta alltaf komið upp sjúkdómar og annað sem krefst faglegrar meðhöndlunar. Það er ekki auðvelt að dæma sjálfur um tannheilsu sína og því er reglulegt eftirlit hjá tannlækni nauðsynlegt. Það er ekki hægt að gefa neina reglu um hversu oft þú skalt leita til tannlæknis; það verður hver að ákveða sjálfur Hitt er annað mál að oft er sagt að tennur séu spegill mannsins. Það er nokkuð til í því!

Er alltaf nauðsynlegt að koma tvisvar á ári í eftirlit?
Nei, ekki fyrir alla. Þeir sem mynda lítinn sem engann tannstein, hafa engar tannholdsbólgur og fáar eða engar skemmdar og viðgerðar tennur ættu ekki að þurfa að fara nema einu sinni á ári. Börn geta þurft að fara oftar þar sem fylgjast þarf með biti, flúorlakka o.fl. Eldra fólk þarf einnig að fara oftar þar sem mörg tannheilsuvandamál skjóta upp kollinum á efri árum. Eins og áður hefur verið nefnt er það mjög einstaklingsbundið hve oft hver einstaklingur þarf að fara. Skynsamlegast er að hver og einn vegi það og meti í samráði við tannlækni sinn.

Hvaða tilgangi þjóna röntgenmyndir?
Röntgenmyndir eru teknar til að skoða hvort tannskemmdir hafi myndast milli tannanna og undir tannholdi og hvernig kjálkabeinið og annar stoðvefur tanna lítur út. Einnig sýna röntgenmyndir okkur nauðsynlega hluti í sambandi við rótfyllingar, tannáverka og fleira. Röntgenmyndir eru ómetanlegt hjálpartæki fyrir tannlækninn, til að sjá það sem annars sæist ekki fyrr en löngu síðar. Með hjálp röntgenmynda er hægt að sjá byrjunarstig tannskemmda, eyðingu beins og margt fleira. Geisl un af völdum röntgengeislanna er hverfandi og ekki ástæða til að hafa áhyggjur af henni. Að mati tannlækna getur fullnægjandi athugun á tannheilsu ekki farið fram án töku röntgenmynda. Hana verður að framkvæma minnst einu sinni á ári.

Andremma

Hvað get ég gert við andremmu?
Andremma á oft rætur sínar að rekja til ástands í munni. Minnkað munnvatnsflæði er mikilvægasta orsökin. Tannholdsbólgur og tannvegssjúkdómar geta einnig valdið andremmu. Mikilvægt er að leita til tannlæknis og fá úr því skorið hvort ástæðan sé í munnholinu. Góð munnhirða og sykurlaust tyggigúmmí geta einnig hjálpað til.

Munnþurrkur

Mér finnst ég vera þurr í munninum – hver er ástæða þess?
Það geta verið margar ástæður fyrir munnþurrki. Mörg lyf hafa áhrif á munnvatnskirtlana, þ.a. munnvatnsflæðið minnki. Dæmi um slík lyf eru þunglyndislyf, ofnæmislyf og þvagræsilyf. Ákveðnir sjúkdómar s.s. lifrarsjúkdómar, hormóna- og efnaskiptasjúkdómar o.fl. geta einnig haft áhrif þannig að munnvatnsflæði minnki. Hár hiti, vannæring og fasta geta einnig valdið munnþurrki. Geislameðferð á höfði og hálsi getur valdið munnþurrki, svo og áverkar eða sjúkdómar í munnvatnskirtlunum sjálfum.

Eru einhver ráð við munnþurrki?
Það eru tvær leiðir; annars vegar að auka seytrun munnvatnskirtla og hins vegar að nota gervimunnvatn. Flestum finnst auðveldara að auka seytrun munnvatnskirtla. Það er gert með hjálp sykurlauss tyggigúmmís svo og töflum, ásamt flúortöflum. Mikilvægt er að drekka mikið vatn. Gæta skal þess að nota ekki sogtöflur eða tyggigúmmí sem inniheldur sykur; það er mjög slæmt fyrir tennurnar. Það eru til sérstakar töflur til að nota í þessum tilgangi og fást þær í lyfjabúðum. Best er fyrir þig að ráðfæra þig við tannlækninn þinn svo og starfsfólkið í lyfjabúðinni.

Hvaða áhrif hefur munnþurrkur á tannheilsu mína?
Það að vera með munnþurrk eykur verulega hættu á tannskemmdum. Munnvatn hefur mjög verndandi áhrif á tennur og án munnvatns standa tennur og tannvegur berskjölduð fyrir tannskemmdum og tannholdsbólgum. Mikil og öflug tannhirða er nauðsynleg auk tíðari heimsóknir til tannlæknis; flúortöflur, flúorskol og tyggigúmmí eru einnig nauðsynleg hjálpartæki.

Tóbak og tannheilsa

Hefur það skaðleg áhrif á tennur mínar og munnhol að ég reyki?
Reykingarfólk fær margfalt oftar krabbamein í munnhol en þeir sem ekki reykja. Tannholdssjúkdómar, andremma, litur, og margt annað hlýst af reykingum. Samkvæmt rannsóknum tapar reykingarfólk frekar tönnum sínum en þeir sem ekki reykja. Það hefur því ótvírætt skaðleg áhrif á tennur og munnhol að reykja.

Hvað með munntóbak?
Það er orsakasamhengi milli notkunar munntóbaks og krabbameins í munnholi. Oft byrjar meinið með myndun hvítrar slykju, sem ekki fer þrátt fyrir hreinsun. Einnig myndast oft miklar tannholdsbólgur á svæðinu þar sem munntóbakið er notað. Tannholdið getur einnig litast svo og tennur og fyllingar. Ef þú reykir eða notar munntóbak, þá getur þú beðið tannlækninn þinn um að benda þér á þessar afleiðingar. Eftir að tóbaksnotkun er hætt, ganga þessi einkenni oft til baka.

Lystarstol og lotugræðgi

Hafa lystarstol og lotugræðgi áhrif á tannheilsu?
Já, sér í lagi lotugræðgi. Þegar kastað er upp oft á dag, kemur súrt magainnihaldið í munnholið og getur valdið miklum sýrskaða á tönnum. Það sést helst á bakhlið framtanna í efri góm. Þetta er ekki eins algengt í neðri góm, því þar eru tennur betur varðar af kinn og tungu. Þegar þessir sýruskaðar eru verulegir, geta tennur jafnvel brotnað niður.

Skemmast tennur hjá lotugræðgisjúklingum meira en hjá öðrum?
Ekki endilega, en ef fæðan inniheldur mikinn sykur, þá geta tannskemmdir orðið verulegar.

Hver er meðferð þegar tennur skaðast á þennan hátt?
Besta meðhöndlunin eru forvarnir; því er mikilvægt að greina vandann í upphafi. Til að minnka sýruskaðann er nauðsynlegt að skola vel með vatni eða flúor, sem er betra, eftir uppköst. Það má alls ekki bursta tennur strax eftir uppköst. Ef kul er í tönnum, má minnka það með sérstökum efnum sem minnka viðkvæmni tanna. Athugið að tannkrem sem innihalda efnið pyrofosfat (minnkar tannsteinsmyndun) geta valdið aukinni viðkvæmni.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is