Tannvernd aldraðra

Dagleg munnhirða og reglubundið eftirlit tannlæknis er ekki síður mikilvægt fyrir aldraða en þá sem yngri eru. Á þetta jafnt við um þá sem hafa náð að halda tönnum sínum og þá sem nota gervitennur.

Á síðastu áratugum hafa tannlækningar aldraðra (gerodonti) þróast í að verða sérstök kennslugrein í tannlæknaháskólum. Í tengslum við heilsugæslu má skipta öldruðum í tvo hópa. Í „yngri" hópnum er fólk innan 75 ára aldurs en í þeim „eldri" þeir sem komnir eru yfir þessi aldursmörk.

Reynslan sýnir að fólk sem heldur góðri andlegri og líkamlegri heilsu er oftast fært um að annast munnhirðu sína sjálft. Með aldrinum hægist á allri líkamsstarfsemi og almenn hrörnun á sér stað. Það getur því verið nauðsynlegt í sumum tilvikum að veita aðstoð við tannhirðu.

Með hækkandi aldri aukast líkur á að eftirfarandi þættir geti haft áhrif á tannheilsu:

  • erfiðleikar við að annast eigin munnhirðu
  • þurrkur í munni, t.d. vegna lyfjanotkunar
  • breyttar matarvenjur
  • fólk hættir að fara reglulega til tannlæknis af sjálfsdáðum
  • rýrnun í stoðvefjum sem veldur því að rætur standa upp úr kjálkanum, berar og óvarðar af glerungi
  • skemmdir á tannhálsum og rótum breiðast ört út og oft getur verið mjög erfitt að halda þeim í skefjum
  • krónískir sjúkdómar í stoðvefjum, sem oft eiga sér langan aðdraganda, komast á lokastig og tennur glatast.

Þeir sem dveljast á elliheimilum, sjúkrahúsum eða stofnunum þarfnast oft aðstoðar við daglega munnhirðu og ber sérmenntað starfsfólk ábyrgð á að þessi aðstoð sé veitt. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og þroskaþjálfar hafi og viðhaldi undirstöðuþekkingu á sjúkdómum í tönnum og munni. Engin regla segir til um hverja þurfi að aðstoða við munnhirðu og hverja ekki heldur verður að leggja mat á það hjá hverjum og einum. Fyrst skal kannað hvort einstaklingurinn er fær um að annast munnhirðu sjálfur. Ef svo er ekki kemur í hlut starfsfólks eða aðstandenda að veita viðeigandi aðstoð.

Mikill meirihluti þeirra sem nú dvelur á elliheimilum notar gervitennur en á komandi árum er þess að vænta að þeim fjölgi sem eru enn með eigin tennur. Rannsókn á munnheilsu vistfólks á elliheimilum í Reykjavík leiddi í ljós að sár eru algeng undan gervitönnum sem ekki passa lengur. Áhersla skal því lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og auka þannig líkur á að fólk haldi tönnum sínum ævilangt.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is