Tannsýkla

Tannsýkla er örveruskán sem sest utan á tennurnar og veldur algengustu tannsjúkdómunum, þ.e. tannátu og tannholdssjúkdómum. Í fyrstu er tannsýklan ósýnileg en ef örverurnar ná að fjölga sér nógu lengi óáreittar verður hún sýnileg sem hvítleit skán utan á tönnunum. Oftast er tannsýklan þykkust á milli tannanna og á tannhálsunum niðri við tannholdið. Viðloðun sýklunnar við tennurnar er svo sterk að ekki er nóg að skola munninn heldur verður að hreinsa tennurnar rækilega. Tannburstun og notkun tannþráðar er því nauðsynleg til að fjarlægja þessa skán af tönnunum áður en hún veldur skaða. Til þess að átta sig á hvar tannsýklan liggur helst getur verið hentugt að nota svonefndar litatöflur.

Til að skilja eðli og orsakir algengustu tannsjúkdómanna og geta komið við árangursríkum forvörnum þurfum við að vita nokkuð um samsetningu og myndun tannsýklunnar. Einnig þau efnahvörf sem eiga sér stað í henni og líffræðileg áhrif hennar á tennur og tannhold.

Myndun og samsetning tannsýklu

Tannsýkla er að mestu leyti örverur (bakteríur) eða um 70% hennar. Örverugróðurinn í tannsýklunni er mjög fjölbreytilegur, bæði gram jákvæðir og gram neikvæðir kokkar og einnig stafir og gormlaga sýklar (spiroketur). Önnur efni í tannsýklunni eru úr munnvatni, t.d. eggjahvítuefni, fjölsykrungar, dauðar frumur og ýmis efni úr fæðunni, auk úrgangsefna frá sýklunum sjálfum.

Samsetning örverugróðurs í tannsýklunni er einnig mismunandi eftir því hvar á tönnunum hún er. Tannsýklu er því oft skipt niður eftir svæðum í munninum: tannsýklu í tyggiskorum, á sléttum flötum og á rótarflötum undir tannholdi eða í tannholdspokum. Tannsýklu á sléttum flötum tannkrónu er t.d. hægt að fjarlægja með venjulegri tannhirðu en ekki er unnt að komast að sýklu í tyggiskorum og djúpum tannholdspokum.

Það ber langmest á streptokokkum í nýrri sýklu sem er að byrja að myndast því að þeir loða best við hreinar tennur. Eftir því sem tannsýklan eldist verður sýklagróðurinn fjölbreyttari uns hann nær ákveðnu jafnvægi. Nokkrir sýklar mynda límkenndan fjölsykrung, glúkan, úr sykri í fæðunni sem þjónar því hlutverki að líma tannsýkluna við tennurnar, jafnframt því að vera bindiefni innan tannsýklunnar sjálfrar.

Við tíða sykurneyslu eykst glúkanið í sýklunni og fjölgar þá um leið sýklunum sem við hana loða. Þannig hefur sykurát áhrif á hraða tannsýklumyndunar. Auk þess hefur sykurát mjög mikil áhrif á hversu skæð tannsýklan er. Tannsýkla, sem er í sykursvelti veldur ekki miklum tannskemmdum, en við tíða sykurneyslu verður hún afar skaðleg.

Líffræðileg áhrif tannsýklu á tennur og tannhold

Tannsýkla veldur svokölluðum tannsýklusjúkdómum. Þeir eru í tveimur meginflokkum, annar svegar tannáta eða tannskemmd og hins vegar tannholdssjúkdómar, en marga þeirra má rekja til skaðlegara áhrifa tannsýklu. Tennur og aðrir vefir munnsins verða fyrir skaða ef tannsýklan kemst í beina snertingu við vefina. Hin skaðlegu áhrif tannsýklunnar stafa síðan af efnum sem myndast í sýklunni við starfsemi örveranna og vegna viðbragða líkamans við nærveru örveranna. Tannáta og tannholdssjúkdómar eru því örverusjúkdómar.

Hin skaðlegu áhrif tannsýklunnar

Teikningar ásamt skýringatexta.#

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is