Tannheilsugæsla barna

Deila má um hversu nauðsynlegar tennur eru mannskepnunni. Að sönnu eru þær okkur ekki lífsnauðsynlegar lengur. Víst verður þó að teljast að ef við í einhvern tíma höfum þörf fyrir þessi líffæri þá er svo á barnsaldri. Þessi fullyrðing er studd svofelldum rökum:

1) Á barnsaldri er vöxtur og viðgangur hvers einstaklings hvað örastur svo að fæðutekja og melting þurfa að vera í sem bestu lagi. Tygging fæðunnar og blöndun hennar við munnvatnið er upphaf meltingarinnar. Án tanna raskast meltingin þegar í upphafi.
2) Við lærum að tala snemma á barnsaldri. Eðlilegum framburði vissra hljóða náum við ekki án heilla framtanna. Einkum á þetta við um hljóð sem táknast með bókstöfunum s, f, v, þ og ð.
3) Glatist barnatönn að hluta svo sem við niðurbrot tannátu eða í heilu lagi eins og við tannúrdrátt riðlast tanngarðarnir og skekkja á fullorðinstönnum vill hljótast af.
4) Vöxtur neðri hluta andlits er að nokkru háður notkun kjálkanna. Séu kjálkarnir ekki notaðir til tyggingar, t.d. vegna tannfæðar eða vegna þess að í munni barnsins eru svo sárar tennur að barnið forðast mat sem krefst tyggingar, vaxa kjálkarnir ekki eðlilega og neðra andlitið verður rýrara en ella.
5) Barn með afbrigðilegar tennur verður oft fyrir miskunnarlausum athugasemdum félaga sinna. Við það getur barnið orðið félagslega afskipt, fengið minnimáttarkennd, dregist aftur úr í námi og seint beðið þessa bætur.

Sé þessum rökum tekið ætti þar með að vera leiðréttur allur sá misskilningur sem hefst á orðunum: „Þetta eru nú bara barnatennur o.s. frv.“

Að jafnaði byrjum við að taka barnatennurnar um sex mánaða aldurinn. Um 21/2 árs höfum við tekið allar 20 þ.e.a.s. 10 tennur í efri og 10 í neðri gómi. Um 6 ára aldur tökum við svo að fella barnatennurnar aftur og jafnframt að taka fullorðinstennur. Um 12 ára aldurinn höfum við svo fellt allar barnatennurnar en tekið allar fullorðinstennurnar 28 að tölu eða 14 í efri og 14 í neðri gómi. Endajaxlarnir 4 eru ekki taldir þar með. Þeir skila sér ekki alltaf en geta verið að birtast fram eftir öllum aldri. Þar sem hér er talað um aldur verður frávik um eitt ár til eða frá að teljast innan marka hins eðlilega.

Tennur okkar skiptast eðlilega í tvo helminga þ. e. a. s. tennur efri góms og tennur neðri góms. Um miðju tannboganna má svo enn skipta þeim í tvennt. Miðju tannboganna má finna með því að toga í vör. Sést þá hvar vararhaftið gengur úr vörinni í miðjan tannbogann. Þannig fást fjórir fjórðungar nefnilega tveir hægri og tveir vinstri. Hver fjórðungur í barni ber 5 tennur: 2 framtennur, 1 augntönn og 2 jaxla. Hver fjórðungur fullorðinna ber 7 tennur: 2 framtennur, 1 augntönn, 2 forjaxla og 2 jaxla. Jaxlar þessir eru oft nefndir 6 ára jaxl og 12 ára jaxl. Í nær öllum íslenskum börnum tekur 6 ára jaxlinn að skemmast um leið og hann kemur upp og skemmist gjarna mjög hratt. Þar eð hann er oft fyrstur fullorðinstanna til þess að koma upp, og það fyrir aftan aftari barnajaxlinn, nær hann oft að skemmast til ónýtis áður en eftir er tekið. Þurfi að fjarlægja hann má telja víst að tannskekkja hljótist af. Auðvelt er að koma í veg fyrir slík slys með því einu að gæta að honum mánaðarlega frá því að barnið er orðið 5 ára. Þegar 6 tennur teljast frá miðlínu og aftur úr er hann þar kominn. Er þá rétt að fá tannlækni til þess að hyggja að honum.

Þeir sjúkdómar sem einkum hafa herjað á tennur manna eru:

1) Tannáta (kallast einnig tannskemmd í daglegu tali).
2) Tannvegssjúkdómar (jurtir spretta úr jarðvegi og tennur úr tannvegi).
3) Tannskekkjur.

Svokölluð tannsýkla er ein höfuðorsök tannátu og tannvegssjúkdóma og óbeint einnig verulegs hluta tannskekkja. Vegna hinna sameiginlegu orsaka eru þessir þrír sjúkdómar því oft nefndir tannsýklusjúkdómar einu nafni. Sýklan er límkennd skán sem sest utan á tennur og tannveg og vill þrengja sér niður a milli þeirra og losa hvort frá öðru. Höfuðhlutar sýklunnar eru sýklar og vatn. Í henni myndast eiturefni sem vinna á tönnunum, skemma þær og sýkja tannveginn. Þegar snertifletir barnatanna skemmast hættir tönnunum til þess að ganga hver inn í aðra sem nemur skemmdinni. Við það styttist tannröðin og minnkar það rými sem var ætlað fullorðinstönnunum sem kunna þá að koma upp skakkar eða komast alls ekki upp. Að sjálfsögðu glatast svo enn meira rými ef barnatönn er fjarlægð úr röðinni. Á þennan hátt orsakast verulegur hluti tannskekkja þótt ekki sé þetta orsök þeirra allra.

Mögulegt er að forðast allar tannskekkjur sem eiga rætur sínar að rekja til tannsýklu og megnið af tannvegssjúkdómum og tannskemmdum. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru einkum af fernum toga: flúors, mataræðis, munnhirðu og eftirlits tannlæknis.

Flúor

Frá um 1940 hefur verið vitað að hæfilegt flúorinnihald drykkjarvatns veitir mikla vörn gegn tannátu tönnum þeirra sem neyta vatnsins. Drykkjarvatn á Íslandi er flúorsnautt og ekki hefur okkur auðnast að fúorbæta vatn okkar eins og víða hefur þó verið gert.

Helsta flúoruppbót okkar er því fólgin í reglulegri notkun viðurkennds flúortannkrems við daglega munnhirðu. Víða þar sem tannáta er mikil og útbreidd hefur verið reynt að baða tennur skólabarna reglulega með flúorlausn. Á stofum tannlækna er einnig boðið upp á meðferð með mismunandi flúorsamsetningum sem þá má sníða að þörfum hvers og eins. Algengust er svo kölluð flúorlökkun tanna sem verður að teljast þeirra heppilegust fyrir börn bæði vegna öryggis meðferðarinnar og virkni gegn tannátu. Eðlilegt er að tannlæknir meti hversu oft slíkrar flúormeðferðar er þörf.

Mataræði

Foreldrar skyldu reyna að sjá til þessa að börn þeirra metti sig af hollum mat á matmálstímum og hafi þannig sem minnsta þörf fyrir millimál. Verði ekki hjá millimálum komist ættu þau að samanstanda af ávöxtum eða grænmeti en síst af sælgæti eða öðru sem er sykrað því að úr sykri er munnsýklunum auðveldast að vinna eiturefni sín. Ekki er þó raunhæft að ætla sér að koma með öllu í veg fyrir sælgætisát barna. Enda er það neyslutíðni sykurs sem er mun þyngri á metunum en neyslumagnið. Þannig er það tönnunum mun verra að borða 100 gr. sykurs 10 sinnum á 30 mínútna fresti heldur en að snæða 1 kg af sykri í eitt mál sé ekki meiri sykurs neytt þann daginn. Því er varla ástæða til þess að amast við sælgætisáti barna á fátíðum tyllidögum. Sé sælgætisát barns orðið óhóflegt getur verið ráð að fara samningaleiðina. Semja má við barnið um að það fái óbreytt sælgætismagn áfram en bara í einum skammti sem skuli klárast á einhverjum afmörkuðum tíma – laugardagssælgæti. Einnig þurfa foreldrar að vera á verði gagnvart matvælaliðnaðinum. Sykri hefur verið bætt í flestan verksmiðjuframleiddan mat. Mjólkurvörur okkar eru þar engin undantekning. Mörg barnalyf eru í sírópsformi og bragðbætt með sykri. Verði barn að taka inn um munn slík lyf skal bursta tennur barnsins eftir lyfjagjöfina sé þess nokkur kostur. Eitt það versta fyrir tennurnar er að barninu sé gefið hunang eða sykur á snuð eða sykur- eða hunangslausn á pela. Ekki einasta er hunang mjög tannskemmandi heldur finnast einnig í því sýklar sem geta orðið hvítvoðungum að bana.

Munnhirða

Haus tannbursta barns ætti ekki að vera lengri en 25 mm, 6 – 8 mm á breidd, úr þéttum, fínum og mjúkum hárum sem öll eru jöfn að lengd eða um 10 mm. Burstann þarf svo að endurnýja þegar hárin taka að lýjast og bogna sem jafnan er á nokkurra mánaða fresti.

Flúortannkrem er rétt að nota en ekki meira hverju sinni en sem nemur baunarstærð að magni eða stærð naglar litla fingurs barnsins sjálfs. Til öryggis eiga börn undir sex ára aldri ekki að skammta sér flúartannkrem sjálf.

Tannhreinsun þarf að hefja strax og fyrsta tönninn kemur í ljós. Sjálf ná börn ekki góðu valdi á hreinsun tanna sinna fyrr en þau eru orðin 6 – 7 ára. Fram að því verða foreldrar að annast verkið. Hentugast er að foreldrið sitji, láti barnið snúa í sig baki og halla sér aftur í kjöltu foreldrisins. Þannig eru báðir stöðugir. Með fingrum annarrar handar má þá víkja frá vörum og kinnum eftir því sem burstað er með hinni hendinni. Flest börn vilja bursta líka og er það vel. En þar eð þeim hættir oft til að tyggja burstann og skemma hann á skömmum tíma kann að vera hagkvæmt að hafa tvo bursta í takinu þ.e.a.s. annan fyrir barnið að tyggja og hinn fyrir foreldrana að bursta með.

Til er fjöldi aðferða til tannhreinsunar en vart nokkur auðlærð af bók. Hér skal einungis reynt að gera nokkra grein fyrir einni, sem kalla mætti nuddadferðina: Burstinn er lagður hallandi að tönnum og tannholdi (mynd 1). Haldið er létt um burstaskaftið gjarna aftarlega og einungis með fingrum. Síðan er burstinn hreyfður léttilega eða látinn titra fram og aftur en ekki um meira en 4-5 mm. Hárin eiga ekki að skrúbba heldur hreyfast aðeins örlítið fram og til baka í stöðugri snertingu við tennur og tannhold. Þetta er nudd sem losar um tannsýkluna fremur en burstun.

Mikilvægt er að ganga skipulega til verks svo að engin tönn eða tannflötur verði afskiptur. T.d. má byrja aftast uppi, hægra megin, að utan. Burstanum er komið rétt fyrir og það svæði sem hann nær yfir nuddað a.m.k. 10 sinnum. Síðan er næsta svæði sem burstinn nær yfir meðhöndlað á sama hátt með eilítilli skörun við hið fyrra. Þegar komið er að framtönnunum er burstanum snúið við, haldið aftur eftir og endað á öftustu tönn vinstra megin. Sami háttur er hafður á bæði uppi og niðri og utan jafnt sem innan. Síðast eru bitfletir tannanna hreinsaðir með sams konar nuddi.

Jaxlar neðri góms hallast nokkuð að tungu. Við hreinsun tunguflata þeirra þarf burstinn því að hallast nokkru meira en annars staðar í munninum eigi viðunandi árangur að nást (mynd 2). Léttara kann að vera að hreinsa framtennur efri góms að innan sé skaftinu beint skáhallt niður og út (mynd 3) og er þá einungis nuddað með hæl burstans (mynd 4). Eins er farið að við framtennur neðri góms að innan nema hvað þá er skaftinu beint skáhallt upp. Þrátt fyrir þessa breyttu stefnu burstans miðað við tennurnar er nuddstefnan söm og fyrr þ.e.a.s. hún fylgir lengdarás burstans (mynd 3). Bakhlið öftustu tanna er auðveldast að hreinsa með tá burstans (mynd 4).

Tannhreinsun með sumum tegundum rafmagnstannbursta kann að vera auðveldari og fljótlegri en með handbursta. Rafmagnstannbursti getur auðveldað fötluðum, sem illa geta notað handbursta, að annast tannhreinsun sína sjálfir. Ennfremur getur nýnæmið að rafmagnstannbursta orðið hvatning annars burstalötu barni til þess að þrífa tennur sínar.

Þrátt fyrir hreinsun með bursta eru snertifletir tannanna enn eftir óhreinsaðir og hætt við skemmdum. Þessa fleti má hreinsa með tannþræði. Um 40 cm langur þráður er tekinn og honum vafið að mestu um vísifingur annarrar handar en um 4 cm bútur er strengdur handa á milli. Þráðurinn er færður aftur fyrir öftustu tennur og í hvert bil milli tanna í báðum gómum. Í hverju bili er þráðurinn færður eins langt niður á milli tannholdsins og aftari tannar bilsins og hægt er án þess að meiða og tönnin skafin upp og niður með þræðinum a.m.k. fimm sinnum. Síðan er einn vafningur undinn ofan af vísifingrinum og þá notaði búturinn gjarna vafinn um vísifingur hinnar handarinnar. Er þá aftur kominn hreinn þráðarbútur handa á milli. Aftur er þráðurinn færður í sama bil en nú upp að fremri tönn bilsins og sama sagan endurtekin þar.

Hægt að viðhafa alla þessa tilburði án þess að tennur hreinsist að sama skapi. Því er vert að fylgjast með verkum sínum, t.d. mánaðarlega, með þar til ætluðum litartöflum sem fást í lyfjaverslunum. Eftir tannhreinsun er tafla tuggin og sullað um munninn. Síðan er litnum spýtt út og munnurinn skolaður með vatni. Liturinn situr þá eftir á þeim blettum einum sem burstinn hefur ekki náð til.

Ljóst er að að tannhreinsun sem þessi er bæði tímafrek og miður skemmtileg en skjótari og skemmtilegri aðferð er ekki þekkt. Þó ætti fæstum heilbrigðum og fæstum foreldrum að vera vorkunn að fremja þetta á sjálfum sér og börnum sínum einu sinni á sólarhring áður en gengið er til náða. Ein rækileg tannhreinsun á dag gefur betri raun en fleiri flausturslegar.

Að lokum er rétt að geta þess að jafnvel þótt tennur séu hreinsaðar kvölds og morgna skemmast þær allt að einu ef sykurát eru tíð.

Eftirlit tannlæknis

Með notkun viðurkennds flúortannkrems, góðri munnhirðu og skynsamlegu mataræði er hægt að forðast flestar tannskemmdir og megnið af tannvegssjúkdómum en ekki allt. Sumir fá einhverja tannátu og einhverja tannvegssýkingu þrátt fyrir bestu varnaraðgerðir. Því er þörf eftirlits hjá tannlækni. Mjög er misjafnt eftir aldri og einstaklingum hve títt slíkt eftirlit þarf að vera. Í því efni er varlegast að hlíta ráðum tannlæknis.

Börn er ráðlegt að færa tannlæknis í fyrsta skipti eigi síðar en þegar allar barnaframtennurnar, fjórar niðri og fjórar uppi, eru komnar fram.

Tilgangur eftirlitsins er að koma í veg fyrir vandamálin á byrjunarstigi áður en þau verða að stórum, kostnaðarsömum og sársaukafullum vandræðum því að snilldarlegasta handverk færasta tannlæknis er einungis eftirlíking hins náttúrulega.