Tannheilsa aldraðra

Tannheilsa hefur mikil áhrif á útlit okkar og umgengni við annað fólk

Lífslíkur Íslendinga eru með þeim mestu í heimi. Það er því full ástæða að lifa heilbrigðu lífi og hugsa vel um tennurnar sem eiga að endast okkur langa ævi.

Flúor fyrir alla

Flúorskol, flúorlökkun hjá tannlækni og flúortannkrem er ekki síður gagnlegt fullorðnum en börnum til að hindra tannskemmdir. Á uppvaxtarárunum verða flestar tannskemmdir í krónuhluta tannanna, en á efri árum getur tannhold og bein hörfað frá tönnum við langvinna bólgu í tannholdi og rótaryfirborð þeirra komið í ljós. Því verður þá hætt við skemmdum og þegar svo er komið verður notkun flúors enn mikilvægari en áður.

Sérstök áhöld og aðferðir

Ef þú þjáist af sjúkdómum sem gera þeir ókleift að hreinsa tennur þínar vel, er hægt að aðstoða þig með því að útbúa sérhönnuð áhöld til að hreinsa tennurnar eða finna áhöld og aðferðir sem henta þér.

Langlegusjúklingar

Langlegusjúklingum er nauðsynlegt að fá aðstoð við að hreinsa tennurnar og munnholið. Tannlæknar og annað sérmenntað starfsfólk getur ráðlagt þeim sem annast langlegusjúklinga heima fyrir eða á stofnunum, hvernig best er að hreinsa tennur og munnhol sjúklingsins. Nauðsynlegt er að hreinsa munnholið jafnvel þó sjúklingur sé tannlaus.

Munnþurrkur

Munnvatnið gegnir mikilvægu hlutverki. Það heldur munnholi og hálsi rökum og stuðlar þannig að heilbrigði. Í því eru bakteríudrepandi efni sem hjálpa okkur að verjast sýkingum og tannskemmdum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir munnþurrki. Mikill lofthiti, streita, vítamínskortur og neysla koffeín- og alkóhóldrykkja getur leitt af sér tímabundinn skort á munnvatni. Margir sjúkdómar og meðferð þeirra, svo sem lyf eða geislun, getur valdið tímabundnum eða varanlegum munnþurrki.

Afleiðingar munnþurrks

Munnþurrkur getur haft víðtækar afleiðingar. Bakteríur, veirur og sveppir eiga mun auðveldara með að sýkja munnholið þegar munnvatn er ekki til varnar. Oft fylgja þessu mikil óþægindi. Erfiðara verður að tala, tyggja, kyngja og halda gervitönnum á sínum stað. Slímhúðin í munninum þornar, springur og verður viðkvæm, varirnar líka. Munnþurrk þarf að meðhöndla sem fyrst ef góður árangur á að nást. Tannlæknirinn þinn getur greint hvort þú þjáist af munnþurrki og ráðlagt þér hvaða meðferð hentar þér best.

Best er að leita ráða hjá tannlækni eða öðru sérmenntuðu starfsfólki um hvaða aðferðir eru bestar til varnar tannsjúkdómum, enda getur verið mjög einstaklingsbundið hvað hverjum einstaklingi hentar best.

Tannmissir

Það er ómetanlegt að hafa eigin tennur en ýmsir möguleikar eru fyrir hendi ef eina eða fleiri tönn vantar. Hægt er að brúa bilið með föstum brúm eða lausum tannpörtum. Ef allar tennur vantar er hægt að smíða gervitennur og í sumum tilvikum er hægt að græða tannplönt í kjálkabein og bæta þannig festu og stöðugleika gervitanna eða smíða krónur og brýr á tannplöntin. Sjá nánar efnisflokkana Tannpartar og Gervitennur hér ofar á skjánum.

Þarf ég að fara til tannlæknis ef ég er með gervitennur?

Það er mikilvægt að fara til tannlæknis reglulega. Stoðvefir, s.s. kjálkabein og tyggingarvöðvar, taka stöðugum breytingum og til þess að gervitennur passi vel getur þurft að fóðra þær eða endurnýja með reglulegu millibili. Eftirlit hjá tannlækni felur í sér fleira en það eitt að skoða tennurnar. Tannlæknirinn þinn athugar hvort slímhúð og stoðvefir séu heilbrigðir. Krabbamein á höfuð- og hálssvæði er mun algengara hjá eldra fólki og þeim sem reykja. Segðu tannlækninum þínum strax frá því ef þú finnur sár, bólgu eða litabreytingar í munnholi eða hálsi. Því fyrr sem mein finnst því betri lífslíkur hefur sjúklingurinn. Auk krabbameins verður fjölda annarra sjúkdóma fyrst vart í munnholi. Sjá nánar efnisflokkana Tannpartar og Gervitennur hér ofar á skjánum. Hin síðari ár hefur í vaxandi mæli orðið vart við eyðingu glerungs af yfirborði tanna. Hún orsakast af sýru sem situr við yfirborð tannanna og leysir upp glerunginn. Sýran kemst í munninn eftir mörgum leiðum og er fyllsta ástæða fyrir alla að gera sér grein fyrir þeim þáttum sem því valda.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is