Tannáta/tannskemmdir

Tannáta er dæmigerður menningarsjúkdómur. Nánast allir íbúar menningarlandanna þurfa að leita til tannlæknis vegna tannátu og flestir oft. Íslendingar eru þar engin undantekning.

Hægt er að skipta tannátu í eftirfarandi þrjú stig:

I. Myndun tannsýklu

Sjá kafla um tannsýklu.

II. Myndun sýru í tannsýklunni eða tannskáninni

Eftir að tannsýkla hefur myndast geta sumar sýklategundir, sem lifa í munni okkar, gerjað sykurinn úr fæðunni og breytt honum í sýru. Við neyslu sykurríkra fæðutegunda leysist sykurinn upp í munnvatninu og leitar inn í tannsýkluna. Sýklarnir í tannsýklunni gerja sykurinn og myndast þá fljótlega sýra í tannsýklunni við yfirborð tannarinnar. Sýran kringum tönnina heldur áfram að aukast meðan gerjanlegur sykur er til staðar. Sú sýra sem þarna myndast er einkum mjólkursýra. Streptokokkar eru uppistaða sýklagróðursins í tannsýklunni og einnig afkastamestu sýruframleiðendurnir. Þeir streptokokkar er valda tannátu eru einkum Streptococcus mutans. Allir þeir sýklar er valda tannskemmdum mynda sýru.

III. Sýra leysir upp glerunginn og hola myndast

Þegar nægjanleg sýra hefur myndast byrja steinefni glerungs, kalk og fosfór, að leysast upp. Þetta heldur áfram uns sýran er orðin mettuð af steinefnum úr tönninni eða að munnvatnið nær að þynna sýruna og gera hana skaðlausa. Það skiptir því miklu máli hve kröftug mótefni eru í munnvatninu. Ef tannsýklan er þykk þá kemst munnvatnið illa að yfirborði glerungsins og sýruverkunin varir lengur. Hinn lífræni hluti glerungs og tannbeins nuddast síðan af þegar tuggið er eða gerhvatar (ensím) frá sýklunum í sýklunni leysa hann sundur.

Dæmi um tannskemmdir í barnatönnum.

Dæmi um tannskemmdir á mismunandi stöðum í munni.

Helstu orsakir tannátu / tannskemmda

Matarræði og matarvenjur – Sífellt nart skemmir tennur!

Tannáta á sér helst stað þegar sykurríkra fæðutegunda er neytt oft og skammur tími líður á milli. Þegar sælgætis er neytt annað slagið, t.d. á fimmtán mínútna fresti, eða ef sopið er á gosdrykkjarflösku við og við þá verður sýrumyndun í tannsýklunni stöðug. Þegar sýrumyndun er stöðug þá heldur glerungurinn áfram að leysast upp uns hola hefur myndast. Ekki bætir úr skák ef fæðan hefur þann eiginleika að klessast við tennurnar, eins og t.d. karamellur.

Sérstaklega er varasamt að leyfa smábörnum að sofa með pela eða setja síróp eða hunang á snuðið. Sætindi eins og harður brjóstsykur og tyggigúmmí sem gefa stöðugt frá sér sykur í nokkuð langan tíma hafa svipuð áhrif. Hér á hið sama við og um aðra sjúkdóma að það fer eftir því hvort sterkara er vörn eða skaðvaldur að tennur okkar endast vel eða skemmast. Ef nægilega langur tími líður á milli mála verður sýrumyndunin ekki stöðug. Í sumum tilvikum á þá endurkölkun sér stað og nær tönnin þá nægilega miklu af steinefnum úr munnvatninu til þess að styrkja glerunginn áður en næstu máltíðar er neytt og skánin á tönninni súrnar aftur. Ef sykurauðugrar fæðu er neytt á annað borð er skást að borða hana með aðalmáltíðum.

Aðrir áhrifaþættir

Margt getur orðið til að flýta fyrir tannátu. Alkunna er að tennur skemmast mismunandi fljótt eftir því hvar þær eru í munninum og að sumir tannfletir skemmast fyrr en aðrir, jafnvel á sömu tönninni. Þetta er mun frekar háð tannsýklunni á tannfletinum og hvort hún fær að vaxa óáreitt eða ekki heldur en einhverjum meðfæddum eiginleikum glerungs eða rótarflatar. Hins vegar geta atriði eins og hrjúfleiki glerungs, lögun tannar, t.d. dýpt tyggiskora, og/eða tannskekkja haft áhrif á myndun og magn tannsýklu. Til dæmis skemmast tennur að jafnaði langfyrst í tyggiskorunum á jöxlum. Þar kemst tannburstinn illa að og tannsýklan fær því oft að vera þar óáreitt. Næst-algengastar eru skemmdir á snertiflötum tanna, sérstaklega á jaxlasvæði. Síðan koma fletir niðri við tannholdið sem snúa út að kinn og vörum en þar verður tannsýklan þykkust.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is