Talmeinafræðingur

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Félag talkennara og talmeinafræðinga (FTT)

Nafn á tengilið:

Þóra Sæunn Úlfsdóttir, formaður FTT

Aðsetur:

Pósthólf 8730, 123 Reykjavík,
tal-mal@visir.is

Starfssvið (hlutverk):

Talkennarar og talmeinafræðingar starfa í leikskólum, skólum, á sjúkrahúsum, endurhæfingarstöðvum, greiningarstöðvum, hjá sveitarfélögum og á eigin stofum. Talkennarar og talmeinafræðingar vinna við greiningu á mál- og talmeinum ásamt meðferð og má þar nefna frávik í málþroska og framburði, stam, raddveilur, tjáningarerfiðleika eftir heilablóðfall og kyngingartregðu. Einnig meta þeir þörf fyrir og veita þjálfun í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. Ráðgjöf er mikilvægur þáttur í starfi talkennara og talmeinafræðinga. Talmeinafræðingar vinna í nánu samstarfi við kennara, lækna og aðrar uppeldis-og heilbrigðisstéttir. Í byrjun meðferðar þarf yfirleitt tilvísun frá lækni. Skjólstæðingar eru á öllum aldri, allt frá ungabörnum til aldraðra.

Þær aðferðir sem talkennarar og talmeinafræðingar beita eru mismunandi og byggjast á nákvæmri greiningu. Markmið meðferðar getur verið að:

 • auka málskilning
 • auka máltjáningu
 • stuðla að bættum boðskiptum
 • styrkja talfæri
 • leiðrétta framburð
 • lagfæra tunguþrýsting
 • auka málfærni
 • draga úr raddvandamálum
 • draga úr stami
 • auka málvitund
 • draga úr þvoglumæli
 • draga úr lestrarörðugleikum
 • styrkja ritmál
 • styrkja hljóðkerfisvitund
 • vinna með óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

Kostnaður meðferðar:

Kostnaður er mismunandi allt eftir því hvar þjónustan er veitt. Talkennsla í leik- og grunnskólum er greidd af viðkomandi sveitarfélagi. Þjónusta sem veitt er innan stofnana eins og sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila er skjólstæðingnum yfirleitt að kostnaðarlausu. Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði fyrir þá sem falla undir viðmið þeirra og þurfa að sækja þjónustu til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.

Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/verkalýðsfélögum:

Félag talkennara og talmeinafræðinga hefur í gildi samning við Tryggingastofnun ríkisins þar sem ríkið greiðir meðferð hjá talmeinafræðingi að nokkru eða öllu leyti.

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Talmeinafræðingar hafa löggildingu og er þeim einum heimilt að starfa sjálfstætt sem hafa fengið til þess leyfi frá Heilbrigðisráðuneytinu.

Menntun:

Talkennslu og talmeinafræði er aðeins hægt að læra erlendis. Eftir B.Ed eða B.A. gráðu er hægt að nema talkennslu/talmeinafærði erlendis og tekur námið 2-3 ár. Talmeinafræði er yfirleitt á meistarastigi. Námið er lánshæft hjá LÍN.

Hliðargreinar:

Talkennarar og talmeinafræðingar sérhæfa sig á ýmsum sviðum innan talmeinafræðinnar. Má þar nefna talþjálfun ungra barna, mismunandi þroskafrávik, sértækar lesraskanir, raddþjálfun, málstol, kyngingaörðugleikar og stam.

Nýjungar í stéttinni:

Talmeinafræði er fag í stöðugri þróun sem fylgir framförum og nýjungum innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Talkennarar og talmeinafræðingar leggja sífellt meiri áherslu á endurmenntun og rannsóknir í störfum sínum.

Annað sem brýnt er að taka fram

Mál og tal eru mikilvægur þáttur í lífi hvers manns. Við þurfum innra mál til þess að skipuleggja hugsanir okkar. Með tali komum við hugsunum okkar á framfæri og notum til þess talfæri, rödd og öndun. Þeir sem ekki geta notað talmál til tjáskipta þurfa að nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir til þess að gera sig skiljanlega. Erfiðleikar í sambandi við mál, tal og boðskipti geta komið fram hjá fólki á öllum aldri.