Sykursýki og ketónblóðsýring

Hvað er ketónblóðsýring hjá sykursjúkum?

Ketónblóðsýring er lífshættulegt ástand sem getur skapast hjá þeim sem eru með .insúlínháða sykursýki. Sjúklingar sem hafa sykursýki af gerð 2 fá ekki ketónblóðsýringu, en hjá þeim getur hins vegar komið upp annars konar lífshættulegt ástand sem kallast hyperosmolar nonketotic coma.

Hver er orsök ketónblóðsýringar?

Insúlínskortur hjá sjúklingum með insúlínháða sykursýki veldur því að líkaminn fer að brjóta niður fitu í auknum mæli til að ná sér í orku. Hlutverk insúlíns í líkamanum er að stuðla að flutningi á sykri úr blóðinu og til frumanna sem þá geta nýtt sér hann sem orku. Ef skortur er á insúlíni fer líkaminn að brjóta niður fitu í auknum mæli. Við það myndast aukið magn efna sem kallast ketónar. Afleiðingin er því hækkaður blóðsykur og ketónar, sem eru súrir, valda því að blóðið súrnar. Líkaminn reynir að losa sig við þessi efni í gegnum nýrun og magn þeirra hækkar því í þvagi. Auk þess reynir líkaminn að losa sig við aukið sýrumagn í blóðinu með því að auka öndunartíðni. Auk sykursins sem skolast út með þvaginu fylgir með mikið magn af vatni og salti sem leiðir til mikils vökva- og saltskorts í líkamanum.

Ketónblóðsýring er oft fyrsta einkenni um að einstaklingur er að þróa með sér insúlínháða sykursýki. Hjá þeim sem gengið hafa með sjúkdóminn í einhvern tíma, getur ketónblóðsýring verið merki um að auka þurfi insúlíngjafir vegna aukinna þarfa. Insúlínþörf eykst hjá þessum sjúklingum við ýmsar aðstæður s.s. við sýkingar, veikindi, ef þeir verða fyrir slysum eða öðru álagi svo eitthvað sé nefnt. Einnig getur ketónblóðsýring verið merki um orkuleysi, því oft á tíðum minnkar matarlyst vegna veikinda eða sjúklingur hefur misst úr máltíð.

Hver eru einkennin?

Oftast er þróun einkenna hæg. Í fyrstu gætir oft sömu einkenna og hækkaðs blóðsykurs:

 • þorsti
 • þurrkur í munni
 • tíð þvaglát
 • þreyta og slappleiki
 • matarlyst minnkar
 • þyngdartap.

Síðar koma fram einkenni sýrueitrunarinnar:

 • hröð og djúp öndun
 • asetónlykt frá vitum
 • ógleði, uppköst, kviðverkir
 • breyting á meðvitund.

Ketónblóðsýring er lífshættulegt ástand. Því er mjög mikilvægt fyrir sjúkling með insúlínháða sykursýki sem finnur fyrir þessum einkennum að leita strax læknishjálpar.

 • Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir ketónblóðsýringu?
 • Til að koma í veg fyrir ketónblóðsýringu er mikilvægt að hafa blóðsykursstjórnun alltaf sem nákvæmasta. Ef sjúklingar með insúlínháða sykursýki verða veikir, lenda í slysum eða öðrum áföllum er mikilvægt að mæla blóðsykurinn reglulega og gera aukamælingar því auknar líkur eru á aukinni insúlínþörf. Er þá ráðlagt að mæla blóðsykur og ketóna í þvagi á 4–6 klst. fresti. Ketónblóðsýring er algeng í kjölfar iðrasýkinga sem einkennast af ógleði, uppköstum og lystarleysi og einnig ef sjúklingar fá sýkingar og hita. Þá ríkir sá misskilningur gjarnan að sjúklingar telja að það eigi að minnka insúlínskammta vegna minni fæðuinntöku. Þessu er hins vegar öfugt farið og yfirleitt er nauðsynlegt að auka insúlínskammtinn.
 • Fylgjast reglulega með magni ketóna. Það er gert með mælingu á ketónum í þvagi. Notaðir eru einnota ketónstrimlar, þessir strimlar hafa ákveðinn líftíma. Mikilvægt er að fylgjast með að þeir séu ekki komnir fram yfir síðasta notkunardag því þá mæla þeir ekki lengur rétt.

Ef ketónefni eru í þvaginu og blóðsykurinn er of hár, er mikilvægt að hafa strax samband við lækni til að leita ráða og meðhöndlunar.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ef sjúklingur sem haldinn er insúlínháðri sykursýki finnur fyrir einkennum ketónblóðsýringar, þ.e. ketónar eru í þvagi og blóðsykur er hækkaður, er mikilvægt að hafa samband við lækni.

Læknir skoðar sjúklinginn og leitar eftir einkennum ketónblóðsýringar auk þess sem eftirfarandi rannsóknir eru gerðar:

 • mældur blóðsykur
 • mældur sykur og ketónar í þvagi
 • tekið blóðsýni úr slagæð (úlnliðnum) til að athuga sýrustig blóðs
 • mæld sölt í blóðinu
 • auk þess eru gerðar þær rannsóknir sem viðeigandi eru í hverju tilviki til að leita að orsökum ketónblóðsýringar.

Hver er meðferðin?

Markmið meðferðar er að lækka hækkaðan blóðsykur með auknum insúlíngjöfum og bæta upp tap á vökva og söltum. Ef sjúklingur áttar sig í tíma á einkennum áður en blóðsýring er orðin veruleg getur verið nægilegt að bregðast við með viðeigandi aðgerðum. Ef alvarlegri einkenni blóðsýringar eru komin fram er hins vegar nauðsynlegt að leggja viðkomandi inn á sjúkrahús til meðferðar vegna þess hversu ástandið er hættulegt.

Batahorfur

Með réttri meðferð hverfur ketónblóðsýringin yfirleitt á nokkrum dögum án þess að fylgikvillar komi fram. Sé ketónblóðsýring ekki meðhöndluð stax getur hún hins vegar leitt til dauða.
Sumir sykursýkissjúklingar telja að hreyfing lækki blóðsykur og ketóna í þvagi. Þessu er hins vegar öfugt farið. Ástandið er tilkomið vegna þess að við skort á insúlíni fá frumurnar engan sykur til orkunotkunar og þurfa því að brjóta niður fitu til að fá orku. Hreyfing kallar á aukna orku og því aukins niðurbrots á fitu og magn ketóna í blóði. Því er mikilvægt að stunda aldrei neina líkamsþjálfun ef blóðsykur er hækkaður eða ketónar eru í þvagi.