Sykursýki og fætur

 

Fótasár

Sykursýki getur haft nokkra fylgikvilla, þar með talið fótamein og þá oft fótasár.

Margir virðast halda að ef maður sé með tegund 2 sykursýki þá sé ekki nein hætta á fylgikvillum. En hvað varðar fætur þá er mun algengara að sjá fótasár hjá einstaklingum með tegund 2 sykursýki heldur en hjá þeim sem hafa tegund 1 sykursýki.

Það eru tveir meginþættir sem orsakað geta fótasár. Í fyrsta lagi taugaskemmdir og í öðru lagi æðaþrengsli.

Taugaskemmdir í fótum geta lýst sér með stingjum eða dofa og þessum einkennum finnur sjúklingur oft mest fyrir á kvöldin þegar viðkomandi er lagstur upp í rúm. Taugaskemmdir gera það að verkum að sjúklingur hefur skerta sársaukatilfinningu. Þegar sársaukaskyn er skert finnur sjúklingur ekki ef stigið er á lítið glerbrot eða ef lítill steinn er í skónum. Þá myndast auðveldlega sár. Einnig er algengt að fólk gangi í of litlum skóm og afleiðingar þess eru hælsæri og/eða blöðrur á tám. Þessháttar smá áverkar geta orðið stórmál, þ.e. stór fótasár, sem erfitt er að ráða við og fá til þess að gróa hjá sykursjúkum.

Æðaþrengsli í fótum lýsa sér með verkjum en þá aðallega við gang. Húðin verður þunn, litabreytingar í húð koma fram og sjúklingur finnur oft fyrir kulda á fótum.

Öll fótasár hjá sykursjúkum, hversu lítil sem þau eru, þarf að taka alvarlega og leita til læknis varðandi sárameðferð.

Það er því mikilvægt að sykursjúkir gangi aldrei berfættir hvorki á stétt né strönd, þar sem einhver aðskotahlutur gæti auðveldlega stungist upp í fótinn án þess að sjúklingur finni fyrir því.

ALMENN UMHIRÐA

 

Mikilvægt er að sykursjúkir fá fræðslu hjá fótaaðgerðafræðingum varðandi umhirðu og daglega skoðun fóta

Skoðun

Skoðið fætur á hverju kvöldi. Húðin á að vera heil bæði á rist og il. Ef sjúklingur á erfitt með að skoða iljarnar er oft gott að nota spegil. Húðin á helst að vera laus við harða húð (sigg) og líkþorn og sprungur. Það er stranglega bannað að nota líkþornaplástur og önnur efni sem leysa upp húðina. Notið ekki þjöl (rasp) á húðina því við það geta myndast sprungur, frumulagið verður hart og húðin missir teygjaleikann.

Athuga skal vel á milli tánna. Þar mega ekki vera sprungur í húð né mikill raki.

Neglur og naglaumgjörð:

Það á ekki að vera bólga eða roði í kringum neglurnar.

Þrif

Þvoið fætur reglulega og er venjulegt bað eða sturta nægjanlegt, mörgum finnst gott að fara í fótabað og er það í lagi. Nokkur atriði þarf maður þó að hafa í huga við fótabað. Vatnið má ekki vera of heitt og mælið hitastigið með olboganum. Ekki nota sterka sápu eða fótasalt það þurrkar húðina og hætta á sprungum eykst. Eftir bað er mikilvægt að þurrka fæturna vel og líka á milli tánna til þess að koma í veg fyrir fótsveppi. Mikilvægt er að bera reglulega krem á fæturna, helst á hverjum degi til að viðhalda teygjanleika húðarinnar. Varist þó að bera krem á milli tánna því þar er nægjanlegur raki fyrir.

Kaldir fætur

Margir sjúklingar finna fyrir fótkulda og óþægindum sem því fylgja. Gott er að gera æfingar til þess að auka blóðflæðið niður í fæturna. Varist að ganga í of þröngum sokkum eða skóm. Aldrei skal nota hitapoka né rafmagnsteppi til þess að ná upp hita í fótum. Það eru allmörg dæmi um sjúklinga með skert sársaukaskyn sem hafa fengið alvarleg brunasár vegna hitapoka eða rafmagnsteppa. Notið frekar ullarsokka, dúnsokka og ullarteppi til þess að halda hita á fótunum.

Heitir fætur

Einnig er algengt að sjúklingar séu mjög rakir og sveittir á fótum. Rétt er að ráðgast við fótaaðgerðafræðing um aðferðir til að draga úr fótsvita. Skiptið um sokka daglega og notið gjarnan bómullarsokka þar sem um náttúrulegt efni er að ræða.

Klipping nagla

Klippið neglur eftir bað meðan þær eru ennþá mjúkar. Klippið aðeins lítið í einu og oftar. Það á alltaf að klippa neglurnar þvert yfir til þess að forðast að þær vaxi inn í holdið. Ef sjónin er ekki góð er nauðsynlegt að leita til fótaaðgerðarfræðings.

Skór

Það er mjög mikilvægt að fóturinn passi í skóinn frá upphafi en það á ekki að „ganga skóinn til“! Flest fæðumst við með fimm tær og það á að vera pláss fyrir þær allar í skónum okkar. Sólinn á að vera sveiganlegur. Skórinn á að vera breiðastur þar sem fóturinn er breiðastur. Það er grundvallarregla við skókaup fyrir alla og ekki síst sykursjúka. Kaupum skó seinnihluta dags því þá eru fæturnir stærstir. Þegar sjúklingar hafa fótamein s.s. platfót, tábergssig, hamartær og þess háttar kvilla getur verið nauðsynlegt að fá innlegg eða jafnvel sérsmíðaða skó til þess að koma í veg fyrir þrýstingssár og líkþorn. Sykursjúkir eiga rétt á niðurgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins varðandi sérsmíðaða skó og innlegg. skv.reglum um hjálpartæki.

Starf fótaaðgerðarfræðings á Göngudeild sykursjúkra Landspítala

Sykursýki verður æ algengari og greinist a.m.k. einn sjúklingur á dag, hér á landi með þennan sjúkdóm. Fótasár er einn af alvarlegum fylgikvillum sykursýki og afleiðingar fótasára oft mjög slæmar þ.e. drep og síðar aflimanir. Þessir liðir eru mjög kostnaðarsamir fyrir heilbrigðiskerfið. Fótaaðgerðarfræðingur á Göngudeild sykursjúkra leggur mikla áherslu á að fræða og leiðbeina sjúklingum um afleiðingar sykursýki á fætur og hvernig koma má í veg fyrir fótasár.

Til þess að geta betur lagt mat á ástand og horfur eru gerðar mælingar. Meðal þess sem athugað er, húð, blóðflæði, vibrationsskyn, stöðuskyn, hita/kuldaskyn og refleksar.

Þegar upp koma fótasár, er hvert tilfelli metið þ.e. hvaða meðferð viðkomandi þarf. Við stórum sýktum sárum er sjúklingur oftast lagður inn. Við minni háttar sár er meðferð á göngudeildum, heilsugæslum eða heimahjúkrun.

Ef þörf er á stoðtækjum þ.e hjálpartækjum, er það í starfi fótaaðgerðarfræðings að útbúa beiðnir til Tryggingastofnunar ríkisins, og fylgja eftir umsóknum til stoðtækjafyrirtækja og hafa eftirlit með hjálpartækjum (sérsmíðaðir skór, innlegg, sjúkrasokka og fl.)

Það er mikilvægt að sjúklingar fái einnig skriflegar upplýsingar. Það er verk fótaaðgerðarfræðings að útbúa fræðsluefni fyrir sjúklinga.

Það verður seint lögð of mikil áhersla á umhirðu og eftirlit fóta hjá sykursjúkum.

Góð meðferð og eftirlit með fótum sykursjúkra er mikilvægur liður í því að hindra fótasár, sýkingar og drep og þannig koma í veg fyrir aflimanir.