Sykursýki, insúlínóháð

Hvað er insúlínóháð sykursýki?

Insúlínóháð sykursýki, sykursýki af gerð 2, stundum kölluð fullorðinssykursýki (öldrunarsykursýki). Allar frumur líkamans þarfnast insúlíns meðal annars til að taka til sín þrúgusykur (glúkósa) úr blóðinu. Þegar insúlín vantar eða þegar frumurnar eru ekki næmar fyrir því (þ.e. insúlínþörfin er meiri en eðlilegt er), hækkar blóðsykurinn. Þegar blóðsykurinn verður mjög hár fer þrúgusykur (glúkósi) í þvagið.

Insúlínóháð sykursýki er algengust hjá fullorðnu fólki, sem er yfir kjörþyngd. Vanalega er ekki nauðsynlegt að meðhöndla sjúkdóminn með insúlíngjöf þó það komi fyrir. Oft er nóg að sjúklingurinn neyti rétts mataræðis eða taki töflur, sem lækka blóðsykurinn.

Hvernig verður insúlínóháð sykursýki til?

Orsök sjúkdómsins er blanda af ófullnægjandi insúlínframleiðslu í briskirtli og minnkaðri næmni fyrir insúlíni í frumum líkamans.

Hver eru einkennin?

 • Þreyta.
 • Þorsti.
 • Tíð þvaglát.
 • Þyngdartap í kjölfar lítillar matarlystar.
 • Kláði umhverfis kynfæri.
 • Aukin hætta á sýkingum í húð, munni eða leggöngum.

Hvenær er rétt að sýna sérstaka aðgát?

 • Ef aðrir fjölskyldumeðlimir eru með eða hafa fengið insúlínóháða sykursýki.
 • Ef viðkomandi á við offituvandamál að stríða.
 • Hjá þunguðum konum, sérstaklega ef sjúkdómurinn hefur verið til staðar við fyrri þunganir.
 • Ef viðkomandi er með of háan blóðþrýsting, of háa blóðfitu (kólesteról eða þríglyseríð).
 • Ef viðkomandi hefur fengið blóðtappa í hjartað þ.e. kransæðastíflu
 • Við notkun nokkurra lyfja svo sem getnaðarvarnapillunar, tíasíð þvagræsilyfja, barkstera (nýrnahettu-hormóna) og fenýtoíns.

Hvað getur komið í veg fyrir insúlínóháða sykursýki?

 • Varast ber aukakílóin.
 • Regluleg hreyfing hefur fyrirbyggjandi áhrif.

Hvernig greinir læknirinn insúlínóháða sykursýki?

Fastandi blóðsykur er mældur, eða það er gert sykurþolspróf.

Hvað er til ráða?

 • Haldið kjörþyngd.
 • Vera skal meðvituð/aður um sjúkdóminn og lærðu að fylgjast með einkennum, sem fylgja of háum eða of lágum blóðsykri.
 • Læra skal að mæla blóðsykurinn og gerðu það reglulega.
 • Hafir þú þörf fyrir insúlíngjöf, lærðu þá að sprauta þig sjálf/ur.
 • Verið alltaf með sykur á þér til að bregðast við of lágum blóðsykri.
 • Fara skal reglulega í skoðun til að athuga augu, nýru, fætur, hjarta og blóðfitu.
 • Leita skal til læknis ef þú færð aðra sjúkdóma.
 • Muna skal að meðferðin byggist ekki einungis á blóðsykurgildinu. Meðferðin byggist einnig á því að losa sig við aukakílóin, koma í veg fyrir hækkun blóðþrýstings og fitu í blóði, sem og hjartasjúkdóma. Ef viðkomandi reykir skal að sjálfsögðu hætta því strax.

Starfsgeta

Það eru engar sérstakar takmarkanir hvað það varðar. Dagleg og regluleg hreyfing er mjög góð. Nauðsynlegt getur verið að aðlaga mataræði og lyfjameðferð að þeirri líkamlegu hreyfingu sem er stunduð.

Neyttu hollrar fæðu

Nauðsynlegt er að borða hollt og fjölbreytt fæði, sem inniheldur trefjar og flókin kolvetni. Mikilvægt er að neyta fitusnauðrar fæðu.

Hverjir eru hugsanlegir fylgikvillar?

 • Æðakölkun og meðfylgjandi hætta t.d. á heilablóðfalli og hjartasjúkdómum.
 • Nýrnasjúkdómar
 • Sykursýkisaugnsjúkdómar
 • Taugabólgur.

Batahorfur

Að öllu jöfnu er hægt að halda insúlínóháðri sykursýki í skefjum með réttu mataræði. Regluleg skoðun og eftirlit getur dregið úr hættu á fylgikvillum. Nauðsynlegt getur orðið að nota insúlín, þegar frá líður ef önnur meðferð dugar ekki.

Hvaða lyfjameðferð er boðið upp á?

Sykursýkislyf til inntöku við insulínóháðri sykursýki.

Glucophage® Daonil® Mindiab®
Diamicron® Amaryl® Glucobay®

Insúlín: sjá kafla um insúlínháða sykursýki