Sykursýki, insúlínháð

Hvað er insúlínháð sykursýki?

Insúlínháð sykursýki eða sykursýki af gerð 1 (týpu 1), getur byrjað á öllum aldri og jafnvel hjá börnum þó einkum byrji hún hjá ungu fólki. Líkaminn notar insúlín m.a. til að taka þrúgusykur (glúkósu) úr blóðinu og flytja inn í frumur. Við insúlínskort hækkar blóðsykur og þrúgusykur fer jafnvel að skiljast út með þvaginu.

Insúlínháð sykursýki gerir sjúklinga háða insúlínsprautum ævilangt en þær eru mikilvægar til að koma í veg fyrir fylgikvilla insúlínsskorts.

Hver er orsökin?

Insúlinháð sykursýki kemur fram, þegar frumur, sem framleiða insúlín í briskirtlinum verða ónýtar af einhverjum orsökum. Orsakirnar eru óþekktar en talið er að ónæmiskerfi líkamans ráðist á insúlinmyndandi frumur briskirtilsins og skaddi þær eða eyðileggi.

Hver eru einkennin?

 • Þreyta.
 • Þorsti.
 • Tíð þvaglát.
 • Magaverkir og ógleði.
 • Lystarleysi og þyngdartap.
 • Kláði umhverfis kynfæri.
 • Aukin hætta á sýkingum í húð, munni eða leggöngum.

Hvenær er rétt að hafa varann á?

Ef aðrir fjölskyldumeðlimir eru með sykursýki og ofangreindra einkenna verður vart. Þó eru líkurnar á að barn sykursjúkra foreldra eða systkini sykursjúkra fái sykursýki einungis í kringum 5-10%.

Hvernig er hægt að forðast insúlínháða sykursýki?

Ekkert er hægt að gera til að forðast þessa gerð sykursýki.

Hvað er til ráða?

 • Sjúklingur verður að hafa sjúkdóminn hugfastan og læra að fylgjast með einkennum hækkaðs og lækkaðs blóðsykurs.
 • Læra að mæla blóðsykurinn og gerðu það reglulega.
 • Læra að sprauta sig því það þarf að gera það daglega ævilangt.
 • Hafa alltaf sykur á sér til að bregðast við of lágum blóðsykri.
 • Fara reglulega til læknis, rétt er að fylgjast sérstaklega vel með augum, fótum og nýrnastarfseminni.
 • Leita til læknis ef annar sjúkdómur krælir á sér.

Hreyfing

Það eru engar sérstakar takmarkanir hvað hreyfingu varðar. Það er gott að hreyfa sig reglulega. Nauðsynlegt er þó að aðlaga insúlínmagnið líkamlegri hreyfingu. Of stór insúlínskammtur og hreyfing geta lækkað blóðsykurinn.

Hollt fæði

Það er mikilvægt að borða hollt og fjölbreytt fæði sem inniheldur trefjar og flókin kolvetni. Reyna ætti að hafa kolvetnamagnið jafnt frá degi til dags. Borðaðu þrjár aðalmáltíðir og tvær til þrjár millimáltíðir.

Hverjir eru hugsanlegir fylgikvillar?

 • Sykursýkisaugnsjúkdómar
 • Taugabólgur
 • Nýrnasjúkdómar
 • Æðakölkun og meðfylgjandi hætta á t.d. heilablóðfalli og hjartasjúkdómum.

Batahorfur

Ekki er hægt að lækna þessa gerð sykursýki en með réttri meðhöndlun, þ.e. insúlínmeðferð svo að að blóðsykurinn haldist sem næst eðlilegur er hægt að forðast síðkomna fylgikvilla.

Hver er meðferðin ?

 • Rétt mataræði
 • Hreyfing
 • Insúlín

Markmið insúlínmeðferðar er að auka insúlínmagnið í blóðinu, þannig að blóðsykurgildin verði sem næst eðlileg.

Meðferðin felur í sér mikla sjálfshjálp þar sem áhersla er lögð á að sjúklingurinn geti annast sjálfan sig. Þetta er vanalega kennt á lyflæknis- eða barnadeildum sjúkrahúsanna eftir því sem við á. Ítarleg kennsla í insúlínmeðhöndlun er nauðsynleg. Mikilvægur þáttur í meðhöndluninni er sykursýkisdagbókin en í hana eru skráð blóðsykurgildi sem sjúklingur tekur sjálfur. Vanalega fara sjúklingar í eftirlit á göngudeild sykursjúkra hjá sykursýkissérfræðingum eftir að sjúkrahúsdvöl er lokið. Þar er fylgst með meðferðinni og líðan sjúklingsins en einnig hugsanlegum fylgikvillum. Frekara eftirlit þarf stundum td. hjá augnlæknum.

Mikilvægasta tæki sjúklingsins er blóðsykurmælir sem gerir sjúklingnum kleift að mæla blóðsykurinn sjálfur og stýra daglegri meðferð.

Hvaða lyf eru í boði?

Hraðvirkt insúlín í sprautuformi:

Actrapid® Actrapid® Pen Actrapid® Penfill
Humalog® Humalog® Mix 25 Humalog® Pen
Humulin® Regular®

Meðal-langvirk:

Humulin® NPH Humulin® NPH Pen Insulatard®
Insulatard® Pen® Insulatard® Penfill® Monotard®

Meðal-langvirk en fljótvirk í upphafi:

Humulin® Mix 30/70 Mixtard® 30/70 Mixtard® 30/70 Penfill®
Mixtard® 10/90 Pen® Mixtard® 20/80 Pen® Mixtard® 30/70 Pen®
Mixtard® 40/60 Pen® Mixtard® 50/50 Pen®