Sýklalyf- helstu flokkar

Sýklalyfjum er skipt í flokka, þar sem reynt er að hafa saman þau lyf sem eru efnafræðilega líkust og virka á svipaðan hátt. Í þessum kafla verður gerð grein fyrir flokkaskiptingu helstu sýklalyfja sem mest eru notuð utan sjúkrahúsa hérlendis.

Sýking er sjúkdómsmynd er stafar af tilteknum sýklum, en þeir eru oftast úr hópi baktería eða veira, en eru sjaldnar sveppir eða einfrumungar. Bakteríur geta valdið allt frá tiltölulega vægum algengum sjúkdómum, svo sem eyrnabólgu, sumum hálsbólgumlungnabólgu,blöðrubólgu og húðsýkingum til alvarlegrar heilahimnubólgu, blóðsýkingar, beinsýkingar o.fl. Sýklalyf verka á bakteríur (og oft á sveppi og einfrumunga) og eru því nauðsynleg við meðferð sjúkdóma af þeirra völdum. Skiptir rétt notkun lyfjanna oft sköpum um örlög mjög veikra sjúklinga.

Flestar pestir og kvefsóttir sem manninn hrjá eru hins vegar af völdum veira af ýmsu tagi. Til eru lyf gegn ýmsum alvarlegum veirusýkingum, t.d. af völdum HIV og herpesveira, og fleygir rannsóknum á því sviði mjög fram. Hins vegar eru lyf yfirleitt ekki til reiðu gegn algengum kvefsóttum og pestum. Því eru sýklalyf ekki sjálfsögð við hvaða hitasótt sem er. Notkun þeirra er þó talsvert meiri hérlendis en í ýmsum nálægum löndum og bendir ýmislegt til að um ofnotkun sé að ræða enda er ólíklegt að tíðni bakteríusýkinga sé meiri hérlendis en í nálægum löndum. Notkun sýklalyfja er ekki með öllu laus við vandamál. Um 5-7% þeirra sem nota lyfin fá aukaverkanir, flestar þó vægar. Þau kosta fé og sum eru mjög dýr. Síðast en ekki síst getur óhófleg notkun sýklalyfja valdið því, að tilteknir sýklar sem næmir voru fyrir þeim myndi ónæmi þannig að lyfin verði óvirk gegn sýklunum þegar á þeim þarf að halda. Um þetta eru mýmörg dæmi og hérlendis ber e.t.v. hæst penisillín ónæmi meðal lungnabólgusýkla (pneumokokka). Þess vegna skiptir miklu að reynt sé að sporna við of mikilli og óþarfa notkun þessa lyfjaflokks.

Oft er örðugt að greina milli vægrar veirusóttar og jafnvel hættulegs bakteríusjúkdóms á einkennum einum saman, sérstaklega í upphafi. Því er nauðsynlegt að taka ýmis sýni (t.d. hráka, þvag, blóð) til ræktunar og annarra mælinga í upphafi. Niðurstöður fást oftast ekki fyrr en að 1-2 dögum liðnum og er þess vegna stundum þörf á að hefja gjöf sýklalyfja byggðri á ágiskun einni saman ef sjúklingur er mikið veikur. Lyfjameðferðinni er síðan hætt ef sjúkdómur reynist vera af öðrum völdum en sýkla sem lyf verka á.

Þegar algengar sýkingar (t.d. eyrnabólga, hálsbólga, væg lungnabólga, þvagfærasýking) eru meðhöndlaðar minnka sjúkdómseinkenni oft eða jafnvel hverfa á tveimur eða þremur sólarhringum. Þá hefur dregið úr sýklafjölda á sýkingarstaðnum vegna notkunar lyfsins. Ef hætt er að taka lyfið þá, getur vöxtur þeirra aukist á ný og sýkingin tekið sig upp aftur. Til að koma í veg fyrir þetta, þarf að nota nægilega stóra skammta í ákveðinn tíma. Því er nauðsynlegt að fara eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar eru, bæði hvað magn og tímalengd snertir, þ.e.a.s. ljúka öllum skammtinum samkvæmt fyrirmælum.

Penisillínlyf

Penisillín kom fyrst fram árið 1941 en Bretinn Alexander Fleming hafði uppgötvað það nánast fyrir tilviljun rúmum áratug áður.

Þrátt fyrir að nýjar tegundir sýklalyfja hafi komið fram eru penisillínlyf þau sýklalyf sem mest eru notuð hérlendis enda eru alvarlegar aukaverkanir af þeirra völdum mjög fátíðar. Algengustu aukaverkanir eru óþægindi frá meltingarfærum, þ.m.t. niðurgangur, og ofnæmi með útbrotum á húð. Þeir sem fá ofnæmi við töku þessara lyfja mega ekki nota þau framar. Nú eru til ýmis afbrigði penisillína sem virka á mismunandi sýklategundir og eru sum hinna nýrri sambanda mjög breiðvirk. Penisillín grípur inn í myndun frumuveggjar sýklanna og kemur þannig í veg fyrir áframhaldandi vöxt þeirra.

Margar sýklategundir hafa myndað þol gegn penisillínlyfjum. Það gerist þannig, að eftir töku penisillíns eru ennþá eftir sýklar sem hafa lifað af penisillínmeðferðina. Þeir hafa náð að mynda efni (enzým, ß-lactamasa) sem eyðileggur lyfið. Ýmis nýrri penisillínafbrigði eru hins vegar ónæm fyrir þessum enzýmum og er þeim beitt þegar grunur leikur á eða vissa er fyrir að sýklar ónæmir fyrir venjulegu penisillíni séu sýkingarvaldar.

Cefalósporínlyf

Þessi flokkur sýklalyfja kom fram á sjónarsviðið skömmu eftir 1960 og var álitið að þessi lyf myndu leysa penisillínlyfin af hólmi. Í fyrstu var haldið að þeir sem hefðu ofnæmi fyrir penisillíni hefðu ekki ofnæmi fyrir þessum lyfjum en svo var ekki. Þessi lyf hafa svipaða efnafræðilega byggingu og penisillínin og er einnig til af þeim fjöldi afbrigða, sum mjög breiðvirk. Almennt verka þau á hliðstæða hópa baktería og penisillínsambönd og aukaverkanir eru mjög svipaðar.

Makrólíðar

Fyrst var farið að nota lyf úr þessum flokki árið 1952 og er erýtrómýcín mest notað. Þessi lyf eru notuð þegar ekki er hægt að nota penicillín vegna ofnæmis en þeir sem hafa ofnæmi fyrir penicillíni hafa yfirleitt ekki ofnæmi fyrir markrólíðum. Þau eru einnig mikilvæg við meðferð ákveðinna tegunda lungnabólgu (Mycoplasma, Legionella) og sjúkdóma af völdumklamydía sem m.a. veldur algengasta kynsjúkdómi á Íslandi. Á markaði eru nokkur ný makrólíðsambönd sem hafa færri aukaverkanir en erýtrómýcín, en eru talsvert dýrari.

Súlfalyf

Súlfalyf, sem Gerhard Domagk kom fyrst með fram á sjónarsviðið 1932, frásogast yfirleitt mjög greiðlega frá meltingarvegi og út í blóðrásina. Þau skiljast út úr líkamanum með þvagi. Til að draga úr líkum þess að þau falli út í þvagi og stuðli að myndun nýrnasteina er nauðsynlegt að neyta mikils vökva meðan lyfin eru tekin. Notkun súlfalyfja einna sér er nú helst við þvagfærasýkingum. Lyfin á ekki að gefa nýfæddum börnum.

Til eru samsett lyf sem innihalda efnið trímetóprím ásamt súlfaefninu. Þau lyf verka á sama hátt og súlfalyfin. Mismunurinn er sá að samsetta lyfið grípur inn í vaxtarferil sýkilsins á tveimur stöðum en súlfalyf aðeins á einum stað. Samsettu súlfalyfin hafa því meiri sýkladrepandi áhrif.

Tetracýklínlyf

Tetracýklínafbrigði kom fyrst fram 1948 og nefnist það oxýtetracýklín (Terramycin).

Tetracýklínsambönd eru frekar hættulítil og fremur breiðvirk. Mikil notkun þeirra undanfarna áratugi hefur gert ýmsar sýklategundir ónæmar fyrir þeim. Notkun þeirra hefur því farið minnkandi og eru þau nú helst notuð gegn ákveðnum öndunarfærasýkingum. Lyfin valda óþægindum ef þau eru notuð á húð. Í mörgum tilfellum valda þessi lyf óþægindum í maga en þau má minnka með því að taka lyfið inn með mat. Alvarlegasta aukaverkunin er skemmd á glerungi tanna í vexti. Þess vegna eiga þungaðar konur og börn ekki að taka tetracýklínlyf. Hver pakkning sem inniheldur þessi lyf er merkt með áletrun sem varar við notkun lyfjanna með kalkríkum mat, t.d. mjólk og mjólkurafurðum eða lyfjum og efnum sem innihalda tví- eða þrígilda málma (svo sem járn, zink, magnesíum, kalsíum og/eða alúminíum). Þessir málmar bindast lyfjunum og eyðileggja verkun þeirra