Svefnlyf


Svefnlyf

Svefnlyf eru flokkur lyfja sem notaður er við vissum svefntruflunum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þessi lyf eiga ekki við í öllum tegundum svefnerfiðleika og þess vegna þarf að skýra lækni skilmerkilega frá í hverju svefnerfiðleikarnir eru fólgnir þegar kvartað er um slæman svefn.

Svefnleysi má skipta í þrjá aðalflokka: Síðvöku, þegar fólk á erfitt með að festa svefn, óværð, þegar fólk vaknar upp af svefni margsinnis á hverri nóttu og árvöku, þegar fólk vaknar mjög snemma að morgni og getur ekki sofið þrátt fyrir fullan vilja til að sofa lengur.

Að jafnaði er eingöngu ráðlegt að nota svefnlyf í fyrsta flokkinum, þ.e. síðvöku. Óværð stafar oft af líkamlegum sjúkdómum og árvaka fylgir oft þunglyndissjúkdómi. Í þessum tilfellum er því ekki rétt, og oft beinlínis varasamt, að nota svefnlyf, heldur ber að meðhöndla sjúkdóminn er svefnerfiðleikunum veldur.

Þegar svefnlyf eru notuð er rétt að hafa það í huga að flest þeirra hætta að verka þegar þau eru tekin í meira en tvær vikur samfellt. Fólk ætti því aldrei að taka svefnlyf á hverri nóttu, heldur nota þau mjög sparlega. Í mörgum tilfellum hefur fólk komist upp á að nota alltof stóra skammta af svefnlyfjum. Oftast nægir hálf tafla af minnsta styrkleika svefnlyfs til að gefa góða svæfandi verkun og ávinningur af stærri skömmtum er lítill.

Algengustu svefnlyfin hér á landi eru af flokki bensódíazepína. Þau hafa þann kost, að auk þess að vera ágætlega virk lyf, hafa þau tiltölulega litlar eiturverkanir, nema þau séu tekin í mjög stórum skömmtum. Séu þeu tekin reglulega verður verkun svipuð og af róandi lyfjum og fráhvarfseinkenni svipuð. Ávanahætta af bensódíazepínlyfjum er minni en af mörgum eldri gerðum svefnlyfja, en er einkum fólgin í því að þegar töku er hætt koma fram fráhvarfseinkenni sem geta varað vikum saman og lýsa sér sem pirringur, svefnleysi, martraðir og almenn vanlíðan og kvíði.

Á undanförnum árum hafa komið á markað tvö ný lyf hérlendis (Stilnoct og Imovane) sem eru af lyfjaflokki sem líkist bensódíazepínum en eru með sérhæfðari verkun á svefn og minni verkun á annað, svo sem kvíða. Þessi lyf hafa ýmsa kosti, líklega heldur minni ávanahættu og eitthvað minni áhrif á fólk að deginum til, en í eðli sínu eru þessi lyf öll mjög skyld og svipuð að kostum og göllum.