Svæfingarlyf

II. Svæfingarlyf

Annar flokkur slævandi lyfja nefnist svæfingarlyf. Þau valda allmörg róun í mjög litlum skömmtum, svefni í stærri skömmtum en svæfingu í fullum lækningalegum skömmtum. Staðdeyfingarlyf eru stundum talin undirflokkur svæfingarlyfja (flokkur II A). Þau verka greinilega á miðtaugakerfið en eru þó fyrst og fremst notuð til þess að upphefja leiðslu í taugum í úttaugakerfinu, einkum í sársaukaflytjandi taugum. Um þau ræðir því ekki frekar hér. Verkunarháttur þeirra er svipaður og áðurnefndra flogaveikilyfja (sbr. töflu 5).

Full svæfing er fræðilega skilgreind þannig að hlutaðeigandi einstaklingur hafi misst vökuvitund og verði ekki vakinn fyrr en svæfingarlyfið sem notað er hefur skilist út að vissu marki. Maðurinn er enn fremur að mestu viðbragðalaus þó þannig að frumlífsviðbrögð hans er varða starfsemi öndunar, hjarta og blóðrásar eru að jafnaði ekki meira skert en svo að honum á ekki að vera bráður bani búinn. Munur á svefni og svæfingu er í fyrsta lagi sá að svæfing er ekki líkamsrétt ástand og er ætíð vegna lyfja eða sjúkdóma eða vegna eitrunar og í öðru lagi sá að menn verða ekki svo sem áður er nefnt vafningalaust vaktir með viðeigandi áreiti fyrr en svæfingarlyfið hefur skilist út að marki. Dæmi um lyf sem veldur fullri svæfingu er halótan. Ketamín er hins vegar dæmi um svæfingarlyf sem í venjulegum skömmtum skerðir ekki vökuvitund til fullnustu en veldur miklu viðbragðaleysi og þar á meðal mikilli verkjadeyfingu svo og miklu óminni. Glaðloft er dæmi um svæfingarlyf sem í mörgu líkist ketamíni að verkunum og er yfirleitt einungis notað með öðrum öflugri svæfingarlyfjum. Þá eru til lyf sem einungis eru notuð til þess að innleiða svæfingu sem svo er haldið áfram með öðrum lyfjum. Tíómebúmal er hið dæmigerða lyf meðal þessara lyfja (nú yfirleitt notuð yngri lyf, m.a. mídazólam). Loks er þess að geta að við svæfingu eru notuð margs konar önnur lyf m.a. með verkun á vöðva, hjarta og blóðrás.

Halótan

Halótan (Fluothane) er rokgjarn vökvi (suðumark lægra en 100° C) sem jafnframt er mjög fituleysanlegur og torleystur í vatni. Efnafræðilega er halótan skylt ýmsum lífrænum leysiefnum (snefefnum). Sjúklingar sem á að svæfa með halótani eru látnir anda að sér svæfingarlyfinu í blöndu með súrefni í gegnum grímu yfir munn og nef sem tengd er við svæfingarvél með slöngu. Mikilvægt er að nægjanlegt súrefni sé ætíð í blöndunni.

Halótan hefur marga góða kosti. Það verkar fljótt, ertir ekki öndunarfæri og er ekki eldfimt eins og sum eldri svæfingarlyf (t.d. etri). Að lokinni gjöf kemst sjúklingurinn fremur fljótt úr svæfingarástandi og eftirverkanir eru minni en eftir mörg önnur svæfingarlyf. Í lok svæfingar er venjulega allmikið eftir af lyfinu í líkamanum. Það skilst smám saman út um lungun. Ókostir halótans eru þeir helstir að það bælir starfsemi hjarta og æða og getur valdið blóðþrýstingsfalli og hjarsláttaróreglu og slævt öndun við djúpa svæfingu. Til að draga úr skaðlegum verkunum halótans er oft reynt að gefa minna af því og nota í staðinn önnur lyf meðfram eins og t.d. glaðloft sem hefur umtalsverða verkjadeyfandi verkun.

Það hefur vafist fyrir mönnum að skýra í hverju svæfing af völdum halótans og hliðstæðra lyfja er fólgin. Verkunarháttur þessara lyfja er vafalaust margþættur en tengist að einhverju leyti aukinni gassvirkni (sbr. töflu 5). Ekki virðist hafa reynt á það hvort ávani eða fíkn myndast í halótan. Hitt er þó staðreynd að bæði etri og glaðloft voru notuð allnokkuð sem vímugjafar á 19. öld bæði áður og eftir að farið var að nota þau við svæfingar. Án efa myndast þol gegn verkun þessara lyfja, en lítið er vitað um fráhvarseinkenni af völdum þeirra.

Tíómebúmal

Þetta lyf er barbitúrsýrusamband líkt og fenemal. Tíómebúmal og skyld lyf eru gefin í lausn í æð og missir sjúklingur við það vökuvitund á 10-20 sekúndum, en það er sá tími sem tekur lyfið að berast eftir blóðbrautinni inn í miðtaugakerfið. Full verkun næst á minna en mínútu og sjúklingurinn kemur aftur til sjálfs sín eftir 20-30 mínútur. Eiginleg svæfing stendur stutt þar sem lyfið fer jafnhratt út úr miðtaugakefinu og það fór inn. Líkur eru á að verkun tíómebúmals við svæfingu sé bundin við stöðvar í heilastofni. Þol þekkist eftir notkun lyfsins við svæfingar. Lítið er vitað um fráhvarfseinkenni. Ekki hefur á það reynt á hvort lyfið veldur ávana eða fíkn.

Ketamín

Ketamín (Ketalar) er stundum gefið í æð til að fá fram sérstakt svæfingarástand (sbr. á undan). Galli við lyfið eru hins vegar hrikalegar eftirverkanir eins og rangskynjanir, óþægilegir draumar o.fl. Tíðni slíkra eftirverkana er mun minni hjá börnum og unglingum og lyfið því helst notað við skurðaðgerðir á ungu fólki. Meginnotagildi lyfsins er við dýralækningar (geldingar o.fl.)

Fencýklídín (PCP, Það sem gjarnan er kallað „englaryk“) er náskylt ketamíni. Það er nú hvergi notað við lækningar á fólki þar sem eftirverkanir þess eru enn verri en af völdum ketamíns. Fencýklídín hefur hins vegar verið notað sem vímugjafi. Bæði ketamín og fencýklídín draga úr virkni glútamínsýru í miðtaugakerfinu, en glútamínsýra telst vera aðalörvandi boðefnið í miðtaugakerfinu.

Glaðloft

Glaðloft er lofttegund sem eigi nægir til fullrar svæfingar eins og áður segir. Nýlegar rannsóknir sýna að glaðloft dregur einnig úr glútamínsýruvirkni í miðtaugakerfinu. Hjáverkanir af völdum þess eru þó fáar öfugt við það sem gildir um ketamín. Það hefur eins og áður segir umtalsverða verkjadeyfandi verkun.

Tafla 5

Birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum