Stuðningur við sjúklinga er mikilvægur

Senn eru liðin 50 ár frá stofnun Krabbameinsfélags Íslands. Áður höfðu verið stofnuð krabbameinsfélög í Reykjavík, í Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði og síðan voru stofnuð aðildarfélög víðs vegar um landið. Nú eiga 30 svæðafélög og stuðningsfélög sjúklinga aðild að Krabbameinsfélagi Íslands.

Í lögum félagsins er tilgreint að tilgangur þess sé að styðja og efla í hvívetna baráttuna gegn krabbameini. Þessum tilgangi hyggst félagið ná með því að stuðla að þekkingu á krabbameini, efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og úrvinnslu upplýsinga, ennfremur að beita sér fyrir leit að krabbameinum á byrjunarstigi og styðja framfarir í meðferð og umönnun krabbameinssjúkra.

Allt frá upphafi hefur það verið rauði þráðurinn í starfsemi Krabbameinsfélagsins að brydda upp á og reyna nýmæli í baráttunni við krabbamein á Íslandi. Stuðning til þess starfs hefur félagið sótt til þjóðarinnar, sem með fórnfýsi og örlæti hefur gert félaginu kleift að ná árangri, sem aftur hefur skilað sér til fólksins í landinu. Þannig eru ýmis tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins nú orðin að rótgrónum þáttum í íslenzku heilbrigðiskerfi og þjóðlífi.

Þótt krabbamein séu áleitin og heillandi verkefni fyrir vísindamenn eru þau mörg lævísir sjúkdómar, sem fyrirvaralaust geta tekið sér bólfestu þar sem þeirra er sízt von og valdið þeim, sem með þau greinast og fjölskyldum þeirra óbærilegum erfiðleikum, líkamlegum og andlegum. Veigamiklir þættir í starfsemi Krabbameinsfélagsins hafa snúizt um stuðning við sjúklinga og aðstandendur þeirra og þar er hlutur svæðafélaganna verulegur. Innan vébanda Krabbameinsfélagsins hafa orðið til og dafnað stuðningsfélög þeirra, sem fengið hafa krabbamein og aðstandenda þeirra. Hóparnir eru: Ný rödd, Kraftur, Samhjálp kvenna, Stómasamtökin og Styrkur. Sérstök ástæða er til að fagna nýjum hópi sjúklinga með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Einstaklingar, sem greinzt hafa með krabbamein og gengið hafa í gegnum erfiða meðferð hafa ekki getað gengið að því vísu að eiga kost á skipulegri endurhæfingu eins og þeir sem kljást við ýmsa aðra sjúkdóma. Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að koma á laggirnar þjónustu til að tryggja að sjúklingar eigi kost á markvissri andlegri og líkamlegri endurhæfingu að sjúkdómsmeðferð lokinni. Þetta er góð viðbót við þjónustu Krabbameinsráðgjafarinnar, en þar hafa hjúkrunarfræðingar í nokkur ár veitt sjúklingum og öðrum upplýsingar ráðgjöf í síma 800 4040.

Síðast en ekki sízt skal getið um íbúðirnar fjórar sem Krabbameinsfélagið og Rauði krossinn eiga í Reykjavík, en þær eru ætlaðar sjúklingum af landsbyggðinni sem þurfa að dvelja í Reykjavík vegna læknismeðferðar.

Í trausti þess að landsmenn telji rétt að hér verði áfram áhugamannafélag, sem beiti sér fyrir málum eins og þeim, sem að framan hefur verið lýst leitar Krabbameinsfélag Íslands til þjóðarinnar hinn 3. marz nk. og fer fram á öflugan stuðning til áframhaldandi baráttu gegn krabbameini.