Streituráð

Ekki gefast upp þó illa gangi að standa við nýjársheitin. Þetta er arðbær fjárfesting sem  verðfellur aldrei!

Það er okkur eðlislægt að fylgja þrautreyndum og velæfðum munstrum í hegðun og hugsun. Minnstu breytingar í lífsstíl eins og t.d. að auka hreyfingu geta reynst erfiðari en við viljum viðurkenna og flóknari breytingar eins og að breyta matarræði eða bæta samskipti virðast nánast óyfirstíganlegar. Erfiðustu verkefnin eru þó þegar við viljum losna við þætti í lífsstílnum sem fela í sér andlega eða líkamlega fíkn eins og reykingar og áfengisofnotkun.

Nokkur ráð að styðjast við:

 • Undirbúðu þig vandlega með umhugsun og aflaðu þér fræðsluefnis og leitaðu ráða hjá öðrum áður en þú hefst handa.
 • Settu þér raunhæf markmið.
 • Gerðu ekki allt í einu.
 • Gerðu áætlun um hvenær breytingarnar hefjast og skipulegðu áfanga.
 • Leitaðu stuðnings og hvatningar hjá vinum og vandamönnum.
 • Gleymdu ekki að gleðjast yfir áfangasigrum og velgengni og leyfðu öðrum að samgleðjast þér.
 • Láttu ekki mótbyr og truflun á áætlun draga úr þér kjarkinn.
 • Mundu að flestum sem tekst að breyta lífsstílnum varanlega hefur mistekist oft áður en þeim tekst ætlunarverkið.
 • Heilsueflingin sem felst í svona lífsstílsbreytingum er alltaf raunveruleg og getur bætt æviheilsuna verulega og jafnvel lengt lífið um áratugi.
 • Geymdu textann á “desktop” tölvunnar, í minnisblaði símans eða bara á pappírsblaði í veskinu þínu og lestu þetta yfir af og til.
 • Þú verður montinn um áramótin 2008-2009!

Streituskólinn

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir