Streita – Stress

 Hvað er streita?

Það er varla hægt að tala um líf án streitu.  Jákvætt álag í hóflegu magni styrkir okkur, á meðan of mikið álag skaðar okkur.

Það er gjarnan talað um að streita eða stress hafi einkum þrjár merkingar.

  • Streita í umhverfinu  Einstaklingar eru afar misnæmir fyrir áreiti í umhverfinu, það sem hefur mikil áhrif á einn kemur lítið við annan.  Það er að stærstum hluta á okkar valdi hvort og hvernig við leyfum atburðum, stórum og smáum, að hafa áhrif á okkur.
  • Innri spenna  Það er oft talað um streitu sem innri tilfinningu um spennu. Að vera stressaður af kvíða, reiði eða tímahraki eru dæmi sem flestum eru kunn.
  • Samsafn þreytu og spennu   Langvinnt álag er það form streitu sem er líklega erfiðast að greina, enda getur það komið hægt og hljótt og einkennin vanist sem hluti daglegs lífs. Viðvarandi streita skemmir líffæri mannsins þannig að hann eldist hraðar og verr en ella.

Við þurfum að þekkja streituna, vita hvað hún er, hvernig hún er, hvaðan hún kemur og hvernig við getum losað okkur við hana. Annars stöndum við ráðalaus og kunnum ekki að leiðrétta málin næst þegar við lendum í streituástandi en slíkt getur hent hvern sem er.  Streita er eðlileg svörun við innra eða ytra álagi, oftast í formi hækkaðrar spennu, en jafnframt sú þreyta sem safnast upp ef ekkert er gert í málunum.

Streituvaldar

Almennt má segja að við getum lifað heilbrigð ef við höldum okkur innan vissra marka, þekkjum takmörk okkar og virðum þarfir okkar.  Það má þó ekki skilja það svo að allt streituástand sé framkallað með ógætni eða ábyrgðarleysi.  Í listanum hér að neðan eru taldir upp streituvaldandi atburðir sem geta gerst í lífi fólks.  Hafa þeir svokallað streitugildi eftir því hversu skaðleg áhrif þeir hafa á heilsu fólks, en tölurnar eiga að meta þörf fyrir aðlögun að félagslegri breytingu.  Það er athyglivert að það virðist sem breytingin sjálf skipti mestu máli, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð.

Makamissir                                          100

Hjónaskilnaður                                      73

Dauði einhvers nákomins                       63

Meiðsl, sjúkdómur                                 53

Að vera sagt upp starfi                          47

Hjónabandserfiðleikar                           47

Vinnulok                                             45

Breytingar á vinnustað                          36

Búferlaflutningar                                  30

Vandræði í samskiptum                        29

Framúrskarandi árangur                       28

Sumarfrí                                             13

Hvernig skynjum við streitu

Það er misjafnt hvernig streita kemur fram og fer það fyrst og fremst eftir því hversu mikil streitan er.   Væg streita er nokkuð sem við þekkjum öll, en þá getum við afkastað meira en venjulega og getum unnið í kapp við tímann.  Þetta ástand getur okkur fundist svo eftirsóknarvert, að við venjum okkur á að vinna í tímaþröng.  Þegar streitan verður meiri fara líkamleg einkenni að koma í ljós s.s. vöðvaspenna, meltingartruflanir, svefntruflanir og þreyta.  Verði streitan svo enn meiri eða viðvarandi versna þessi einkenni og við þau bætast samskiptaerfiðleikar, verkkvíði og þetta getur síðan leitt til ofsakvíða, svita og skjálfta.

Vinnum bug á streitunni

Streituvaldar eru margir og allt andlegt og líkamlegt álag er streituvaldur.  Andlegt álag er verra, áhyggjur og óvissa eru kvíðavaldur.  Flest störf í dag valda meira andlegu en líkamlegu álagi.  Andlegt álag veldur gjarnan andvökum sem eru einn mesti og markvissasti streituvaldur sem til er.

Það er auðvelt að leiðrétta streitu, en það getur verið gott að fá hjálp sérfræðinga, t.d. geðlækna eða sálfræðinga til að leiðrétta streituna.  Leiðréttingin byggist fyrst og fremst á því að finna út hvað veldur streitunni, þekkja streituna, greina ástandið rétt og setja markmið um bata, síðan er ákveðið hvernig sku li ná þeim markmiðum.

Líf án streitu

Hvernig getum við lifað án streitu, hér eru talin upp nokkur atriði sem skipta hvað mestu máli.

  • Svefn  Að fá svefn sem veitir fulla hvíld er merki um heilbrigði og tryggir að við söfnum ekki upp þreytu.
  • Slökun  Að nota slökun í amstri dagsins er gulls ígildi.
  • Hreyfing  Að vera í góðu formi eru lífsgæði sem auka á vellíðan og styrkja ónæmiskerfið.
  • Næring  Það er mikilvægt að vera í kjörþyngd og drekka nóg af vatni.  Það er mikið af næringarlítilli fæðu í boði.  Maður er það sem maður borðar, því er mikilvægt að spá í það sem maður setur ofan í sig og velja það af kostgæfni.  Lífrænt og grænt er alltaf gott.  Hafa ber í huga að koffein eykur spennu og nikótín líka.
  • Leikur  Að hlæja og leika sér hefur verulega slakandi áhrif á alla.
  • Markmið  Þér leifist að legja mikið á þig ef þú stefnir að ákveðnu markmiði og vinnur að hugðarefnum þínum.  Markmið og draumar gefa manni stefnu og tilgang í lífinu.

Okkur er öllum hollt að hugsa um það hvernig við getum haft áhrif á líðan okkar.  Jákvæð hegðun og hugsun skiptir þar mestu máli.