Stórtónleikar og sirkusstemning

Ingólfstorgi laugardaginn 18. maí

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Mörg þúsund fordómablöðrum verður sleppt í loftið kl. 17:00 laugardaginn 18. maí, á nákvæmlega sömu stund á átta stöðum á landinu. Í Reykjavík fer athöfnin fram á Ingólfstorgi á útiskemmtun sem þar hefst kl. 16:00 þar sem 5000 fordómablöðrum sleppt í himininn.

Fjölbreytt dagskrá verður á Ingólfstorgi. Þar koma fram margir af fremstu skemmtikröftum landsins Þeir listamenn sem koma fram á laugardaginn eru m.a. Ragnhildur Gísladóttir ásamt RaggaJackMagic, Stefán Hilmarsson,Páll Rósinkrans, ný sveit Guðmundar í Sálinni og Margrétar Eirar sem ber nafnið Meir!, Jón Jósep söngvari Í Svörtum fötum ásamt hljómsveitinni Landi og sonum, indverska söngprinsessan Leoncie, hljómsveit aldraðra sem nefnist Vinabandið, Eyjólfur Kristjánsson, Gvendur á Eyrinni, svar Mosfellsbæjar við Lúðrasveit Verkalýðsins sem nefnist Lúðraverk Sveitalýðsins, sönghópurinn Blikandi stjörnur o.fl., o.fl.

Auk þess verða eldgleypar, trúðar, dansarar og fjöllistamenn á svæðinu til að kóróna sígilda sumarstemningu í Reykjavík. Samkoman hefst sem fyrr segir kl. 16:00 og er öllum opin, endurgjaldslaust. Spáð er afbragðs veðri. Stjórnandi samkomunnar er Stefán Karl Stefánsson leikari. Einnig ávarpar Héðinn Unnsteinsson verkefnsistjóri Geðræktar samkomugesti og kl. 17.00 tekur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í spottann sem losar blöðrurnar 5000 upp í loftið.

Samtímis verður fordómablöðrum sleppt í loftið upp á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum, Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ. Á öllum stöðunum hafa einnig verið skipulagðar dagskrár í tengslum við þennan viðburð.

Þessi viðburður setur punktinn aftan við vitundarvakninguna SLEPPUM FORDÓMUM sem hófst í Listasafni Reykjavíkur 1.maí sl. með tónleikum 12 helstu píanótrúbadora þjóðarinnar. Upptaka frá þeim tónleikum verður sýnd á Skjá einum föstudaginn 17. maí og laugardaginn 18. maí.

Sjálfboðaliðar úr röðum aðstandenda átaksins hafa síðan 1. maí dreift 35.000 blöðrum og póstkortum með boðskap sem ætlað var að vekja til umhugsunar, fá fólk til að líta í eigin barm og velta fyrir sér eigin fordómum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið farið í öll hverfi og nágrannabæi Reykjavíkur á gömlum strætisvagni sem Strætó bs lánaði til verksins án endurgjalds. Hefur vagninn hvarvetna dregið fólk að sér og vakið athygli á málefninu. Síðan hefur fólki gefist kostur á að losa sig við fordóma-blöðrurnar á bensínstöðvum Skeljungs og þannig sleppa fordómum sínum á táknrænan hátt.