Sterk verkjalyf

Sterk verkjalyf

Þegar talað er um sterk verkjalyf er átt við lyf sem draga úr sársauka, fyrst og fremst með verkun á miðtaaugakerfið. Þessi lyf eru flest þess eðlis að þau geta valdið fíkn og þeir sem þau nota þurfa venjulega síaukna skammta ef lyfin eru notuð reglulega. Af þessum sökum nota læknar þau ekki nema í ýtrustu neyð annaðhvort við miklum verkjum, sem líklegt er að gangi fljótt yfir, svo sem verki af völdum hjartadreps og slysa, eða við fæðingar. Þau eru einnig notuð þegar um er að ræða sjúkdóm sem líklegt er að leiði til dauða og veldur miklum sársauka t.d. krabbamein.

Vegna þess að sterk verkjalyf eru oft misnotuð hefur verið komið á þeirri skipan að lyfin eru eftirritunarskyld. Landlæknir fær þá skýrslur um hvern einasta lyfseðil sem gefinn er út á þessi lyf og getur þannig fylgst með því hvort óeðlilega miklu magni er ávísað handa einhverjum sjúklingi. Lyf sem eru eftrritunarskyld eru merkt í lyfjaskránni með sérstakri kennimynd í myndramma í fyrirsögn lyfsins.

Auk þess að valda fíkn geta þessi lyf einnig haft alvarlegar aukaverkanir, einkum í stórum skömmtum. Alvarlegast er að þau lama þær stöðvar í heilanum sem stjórna öndun og geta þannig valdið súrefnisskorti, meðvitunarleysi og dauða ef þau eru tekin í of stórum skömmtum.