Starfsendurhæfing á vegum TR

Öryrkjum hefur fjölgað jafnt og þétt á Íslandi undanfarin ár. Ungir öryrkjar eru hlutfallslega fleiri á Íslandi en hinum Norðurlöndunum. Ein af ástæðum þessa er að ekki hafa verið í boði nægir endurhæfingarmöguleikar fyrir þá sem vegna afleiðinga sjúkdóma eða fötlunar hafa verið óvinnufærir um tíma. Reynslan sýnir að þegar fólk hefur verið óvinnufært lengur en nokkra mánuði getur verið mun erfiðara að stuðla að því að það hefji störf að nýju heldur en ef gripið er fljótt til aðgerða. Jafnvel þótt sjúkdómseinkenni sem ollu óvinnufærni hafi dvínað með tímanum er hætta á að fólk glati sjálfstrausti, sjálfsbjargarviðleitni og fótfestu á vinnumarkaði. Það er afar brýnt að geta gripið fljótt inn í þennan vítahring, þannig að viðkomandi þurfi ekki að verða öryrki fyrir lífstíð.

Endurhæfingarmatsteymi

Tryggingastofnun hefur komið á fót sérstöku teymi til að meta möguleika óvinnufærs fólks til endurhæfingar. Það starfar sjálfstætt, samkvæmt þjónustusamningi við TR. Í teyminu eru endurhæfingarlæknir, sem veitir því forystu, félagsráðgjafi, sálfræðingur, og sjúkraþjálfari. Teymið getur kvatt aðra fagaðila til liðs við sig eftir þörfum. Því er ætlað að meta hvort líklegt sé að endurhæfing beri árangur og ef svo er, að leggja á ráðin um hvernig standa beri að henni. Jafnframt er teyminu ætlað að leiðbeina fólkinu um „frumskóg“ velferðarkerfisins, þ.e. hvar það kann að eiga rétt á aðstoð og hvernig nálgast megi hana.

Þjónustusamningar Tryggingastofnunar um starfsendurhæfingu

TR hefur samið við Hringsjá – Starfsþjálfun fatlaðra, Reykjalund endurhæfingarmiðstöð og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um atvinnu með stuðningi.

Í Hringsjá – Starfsþjálfun fatlaðra fær fólk sem vegna sjúkdóma eða áfalla þarf að skipta um starfsvettvang eða endurmeta og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði kennslu og ráðgjöf sem miðar að því að það verði fært um að vinna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði eða takast á við frekara nám. Jafnframt fer fram mat á stöðu einstaklingsins og hann lærir að þekkja sjálfan sig betur, óskir sínar, hæfileika, getu og takmarkanir. Hver einstaklingur er að jafnaði í starfsþjálfun í eitt til tvö ár. Auk þess er boðið upp á skemmri námskeið, tölvu- og bókhaldsnámskeið og sjálfstyrkingu, atvinnuleit og gerð umsókna (vinnuklúbb).

Á Reykjalundi er færniskerðing einstaklingsins kortlögð og gerð vinnuprófun. Mikil áhersla er á fræðslu og kennslu. Lögð er áhersla á bætta líkamsvitund, réttar vinnustellingar, aukið vinnuþol og styrktar- og úthaldsþjálfun. Einstaklingurinn er aðstoðaður við að setja sér raunhæf markmið miðað við færni og getu. Stefnt er að vinnu við hæfi á hinum almenna vinnumarkaði. Gott samstarf við atvinnulífið og mennta- og fræðslustofnanir er mikilvæg undirstaða starfseminnar. Meðaldvalartími er um það bil tveir mánuðir. Starfsemin er rekin á dagdeildarformi. Möguleiki er á dvöl á sjúkrahóteli fyrir þá sem eiga langt til síns heima.

Útdráttur úr erindi sem flutt var á ráðstefnu um krabbamein og vinnandi fólk 14. febrúar 2001