Starfsemi Stígamóta


Ríkjandi gildi í starfsháttum.

Kvennapólitískar kenningar um kynferðisofbeldi skýra ekki aðeins orsakir þessa ofbeldis, þær marka einnig viðhorf og grunngildi í starfi með þolendum þess, hvort heldur er í einstaklingsstarfi eða í hópum.

Feministísk viðhorf fela í sér þau megin gildi að líta ekki á þá sem beittir eru kynferðisofbeldi sem varnarlaus fórnarlömb eða sjúka einstaklinga, heldur einstaklinga sem hafa lifað af ógnandi ofbeldi og búa þess vegna yfir miklum styrk. Jafnframt lítum við svo á að viðbrögð þolenda við kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á líf þeirra séu eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Vinnan á Stígamótum felst því í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi, en ekki sem persónulega vankanta. Jafnframt lítum við svo á að þeir sem hingað leita séu “sérfræðingarnir” það er að segja enginn þekkir betur afleiðingar kynferðisofbeldis en sá sem því ofbeldi hefur verið beittur. Við leitumst því við í starfi okkar að skapa jafnræðistengsl og nánd milli starfskvenna og þeirra sem aðstoðar leita.

Þessar hugmyndir leitumst við við að endurspegla í öllu starfi hvort heldur um er að ræða einstaklingsmiðaða ráðgjöf eða hópastarf.

Einstaklingsmiðuð ráðgjöf.

Þegar fólk leitar fyrst til Stígamóta er því boðið upp á einkaviðtöl. Einstaklingsbundinn stuðningur við að ræða ofbeldið, rifja það upp og setja það í orð, eru fyrstu skrefin í þá átt að ná tökum á afleiðingum ofbeldisins á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þolenda. Þolendur ráða sjálfir ferðinni, hve mikinn stuðning þeir vilja og í hve langan tíma. Margir velja að taka þátt í sjálfshjálparhópi eftir nokkur einstaklingsviðtöl. Aðrir velja eingöngu einstaklingsbundna ráðgjöf.

Stuðningur og ráðgjöf starfskvenna Stígamóta er ekki eingöngu bundinn við þolendur kynferðisofbeldis. Aðstandendur þolenda, svo sem foreldrar, makar og vinir geta einnig fengið stuðning og ráðgjöf á Stígamótum óski þeir þess.

Starfskonur Stígamóta veita ekki eingöngu persónulega ráðgjöf í formi viðtala. Umfangsmikið ráðgjafarstarf fer einnig fram í gegnum síma. Að jafnaði eru mörg stuðningsviðtöl á dag alla virka daga ársins. Um það bil 2/3 hluti þeirra eru ráðgjafarsímtöl vegna nýrra og eldri mála. Það er einkum fólk á landsbyggðinni sem notfærir sér þessa leið, bæði þolendur, aðstandendur þeirra og fólk í barnaverndarnefndum svo og kennarar og leikskólakennarar, sem hafa grun um að barn í þeirra umsjá kunni að hafa verið beitt kynferðisofbeldi.

Sjálfshjálparhópar.

Frá upphafi starfsemi Stígamóta hafa sjálfshjálparhópar verið kjarninn í starfseminni. Boðið er upp á hópa fyrir konur sem beittar hafa verið sifjaspellum og nauðgunum. Reynslan af sjálfshjálparstarfinu hefur verið mjög góð. Í þessum hópum koma konur saman til þess að sækja sér styrk til að takast á við vandamálin, sem rekja má til afleiðinga sifjaspella og nauðgana. Með þátttöku í hópstarfi sem þessu er einangrun rofin, þar veita þátttakendur hver öðrum stuðning. Samkennd og trúnaður ríkir þar í samskiptum þátttakenda.

Börn og unglingar.

Með tilkomu Barnahússins skapaðist vettvangur þar sem safnað var á einn stað þverfaglegri þjónustu við börn sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Markmiðið var að vanda eins og kostur er rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála og að tryggja að börn þyrftu ekki að þeytast á milli aðila og staða og margsegja sögu sína. Til Barnahússins geta barnaverndarnefndir leitað hvaðanæva af landinu. Með tilkomu nýrra laga 1. maí árið 1999 urðu þær breytingar á, að dómurum var ætlað að koma að kynferðisbrotamálum á rannsóknarstigi og þykir það auka sönnunargildi yfirheyrslna. Dómurum var um leið gert að ákveða sjálfir hvar yfirheyrslurnar færu fram og hvort þeir nýttu sér aðstoð fagfólks. Komið var upp viðtalsherbergjum í Héraðsdómi Reykjavíkur og á Norðurlandi eystra og slík aðstaða er í hönnun hjá Héraðsdómi Reykjaness.

Hjá Stígamótum fara ekki fram viðtöl eða annað starf með börnum sem grunur leikur á að hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Margir foreldrar og aðstandendur hringja þó og leita ráða um hvernig þau eigi að bregðast við, hafi þau grun um að börn þeirra hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Þeim er þá ávallt veitt ráðgjöf, en bent á að hafa samband við viðkomandi barnaverndarnefnd eða lögreglu.

Eftir að mál hafa verið gerð opinber, eru börn og unglingar boðin velkomin til Stígamóta. Díana Sigurðardóttir hefur staðið fyrir mjög árangursríku hópastarfi með unglingsstúlkum og hefur starf hennar verið metið af Barnaverndarstofu og hlotið lofsverða umsögn.

Símaþjónusta og þjónusta við landsbyggðina

Því miður er ekki til tölfræðileg úttekt á umfangi og eðli þeirrar símaþjónustu sem starfskonur Stígamóta veita. Símtölin sl. ár námu þúsundum. Það má þó fullyrða að í símaviðtölum berast okkur upplýsingar um mikið og alvarlegt kynferðisofbeldi sem hvergi kemur fram annars staðar. Þeirri vitneskju þykir okkur fylgja mikil ábyrgð.

Annars staðar er getið fræðsluátaksins sem Stígamót stóðu að og fólst m.a. í ferðum í alla landsfjórðunga. Að auki voru Stígamót kynnt á Þjóðahátíðinni í Bolungavík. Stígamótakonur leituðu eftir samstarfi við Jafnréttisnefnd og Félagsmálaráð Akureyrar um opnun þjónustu þar í bæ. Vel var tekið í hugmyndir okkar, en afgreiðslu frestað til næsta fjárlagaárs.

Útihátíðir.

Eins og á undanförnum árum gengust Stígamót fyrir sérstöku átaki gegn nauðgunum í tengslum við útihátíðir um verslunarmannahelgi. Handhægur fræðslubæklingur fyrir ungmenni um nauðgun, hvað væri hægt að gera til þess að reyna að forðast nauðgun og hvað ætti að gera væri einhverjum nauðgað er til hjá Stígamótum og var sendur til mótshaldara útihátíða þar sem þeirra var óskað. Í ár var hvergi óskað eftir samvinnu við Stígamót í tengslum við útihátíðir, en á nokkrum stöðum var komið upp teymum heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu.

Stígamótakonur tóku þó virkan þátt í fjölmiðlaumræðu um nauðganir á útihátíðum. Megin áhersla var lögð á að forvarnir verði að beinast að piltum en ekki stúlkum. Ábyrgð á því hvort nauðgun er framin eður ei, er alltaf karla. Nauðgun er alltaf framin gegn vilja þeirra kvenna sem fyrir henni verða og því geta þær ekki borið ábyrgð á henni. Það er því orðið meira en tímabært að beina varnaðarorðum til pilta en ekki stúlkna.

Ýmis fræðsluverkefni

Frá upphafi hefur meginmarkmið Stígamóta verið tvíþætt. Annars vegar að veita stuðning og ráðgjöf þeim sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og hins vegar að vinna kvennapólitíska samfélagsvinnu.

Stígamót tóku virkan þátt í þeirri fjölmiðlaumræðu sem tengdist kynferðisofbeldi í sinni víðustu mynd. Sérstaklega má nefna umræðuna í kringum tíu ára afmælið, heimsókn dr. Russells og í tengslum við kynningarátakið sem Stígamót stóðu fyrir í samvinnu við Kvennaathvarf og Kvennaráðgjöf.

Tvisvar var fræðslufulltrúi kallaður fyrir þingnefndir til þess að gefa umsagnir um mál er vörðuðu kynferðisofbeldi. Háskólanemar bæði í mannfræði og sálfræði unnu stærri rannsóknarverkefni í samvinnu við Stígamót.

Beiðnir um námskeið og fræðslufundi um kynferðisofbeldi hafa borist víðs vegar að af landinu. Mörg félög hafa einnig falast eftir fræðsluerindum á fundum sínum og starfskonur hafa rætt um þessi mál við nemendur í efstu bekkjum nokkurra grunnskóla og í framhaldsskólum. Á árinu voru haldin mörg fræðsluerindi um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess í skólum og á vegum ýmissa félagasamtaka.

Talsverður fjöldi skólafólks úr efstu bekkjum grunnskóla, á framhalds- og á háskólastigi leitaði til Stígamóta vegna verkefna um kynferðisofbeldi, sem þau voru að vinna að. Má þar nefna auk grunn- og framhaldsskólanema, félagsráðgjafarnema, sálfræðinema, mannfræðinema, guðfræðinema, djáknanema, þroskaþjálfanema og konur úr íþróttakennaraskólanum. Að auki heimsóttu okkur íslenskar og erlendar fræðikonur og fagfólk. Starfsfólk fyrirtækisins „Rannsóknar og greiningar” sem vann að úttekt á umfangi vændis á Íslandi fyrir Dómsmálaráðuneytið var í miklu sambandi við Stígamót vegna upplýsingaöflunar.

Stígamótafréttir og vefsíðan

Á árinu voru gefin út tvö tölublöð af Stígamótafréttum. Fréttabréfinu er ætlað að greina ýtarlega frá starfseminni hverju sinni og að tryggja upplýsingaflæði á milli Stígamóta og umheimsins. Áskrift að Stígamótafréttum er ókeypis og öllum heimil. Á póstlista nú eru um 350 manns. Vefsíða Stígamóta hefur slóðina www.stigamot.is www.stigamot.is

Alþjóðastarf Stígamóta

Stígamót tóku virkan þátt í alþjóðlegu starfi árið 2000. Eins og áður er getið var dr. Diana E.H. Russell boðin til Íslands frá Bandaríkjunum. Hún hélt fyrirlestur í Iðnó og vakti mikla athygli í fjölmiðlum.

Við sendum líka fulltrúa til útlanda, bæði til þess að fræða um okkar starf og fræðast um annarra verk. Okkur var boðin þátttaka í rússneskri vísindaráðstefnu í Arkangelsk og tvisvar var okkur boðið að senda fulltrúa til Bretlands. Annars vegar til þess að taka þátt í Evrópuverkefni undir yfirskriftinni “Nauðgun – gleymda þemað” og hins vegar til þess að kynna viðbrögð Íslendinga við klámvæðingunni. Við sendum þrjár konur á norrænu Kvennaathvarfaráðstefnuna í Færeyjum í maí og á haustdögum fóru tvær starfskonur á fundi og í könnunarleiðangra til Skandinavíu. Markmið þeirrar ferðar var margþætt, haldinn var norrænn undirbúningsfundur vegna ráðstefnunnar sem Stígamót hafa tekið að sér að halda árið 2001 og fundir voru haldnir bæði í Noregi og í Svíþjóð með nýjum hópum sem bjóða á þátttöku í ráðstefnunni. Heimsóttir voru aðilar í Danmörku sem vinna gegn vændi og systursamtök Stígamóta voru sótt heim bæði í Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi.

Úr ársskýrslu Stígamóta 2000