Starfsemi hjartans

Hlutverk hjartans

er að viðhalda hringrás blóðsins og þar með flutningi súrefnis og næringarefna um líkamann. Hjartað er klætt sléttu frumulagi að innan, en veggir þess eru að mestu úr vöðva. Gollurshúsið sem er gert úr bandvef umlykur hjartað. Hjartað liggur ofan við þindina á bak við bringubeinið og er verndað af því og rifbeinunum. Vinna sem þetta mikilvæga líffæri vinnur er ekki í neinu samræmi við stærð þess sem er á við krepptan hnefa og vegur í fullorðnum manni um það bil 200 til 300 grömm. Á hverri mínútu dælir hjartað um það bil 5 lítrum af blóði.

Bygging hjartans

Hjartað er í rauninni tvær aðskildar vöðvadælur sem vinna saman og kallast hægri og vinstri hjartahelmingur. Í hvorum helmingi eru tvö hólf, efra hólf sem nefnist gátt eða forhólf og neðra hólf sem nefnist slegill. Veggur aðskilur vinstri og hægri hjartahelminga og nefnist hann skil. Hægri hjartahelmingur tekur við súrefnissnauðu bláæðablóði frá líkamanum og dælir því til lungnanna eftir lungnaslagæðinni, þar sem það mettast af súrefni. Súrefnisríkt blóð fer frá lungunum til vinstri hjartahelmings, sem dælir því eftir ósæðinni (meginslagæðin) út um allan líkamann.

Hjartalokurnar

eru fjórar og gegna mikilvægu hlutverki við að dæla blóðinu. Þríblaðaloka í hægri hjartahelmingi og míturloka í vinstri hjartahelmingi aðskilja gáttir og slegla. Lungnaæðarloka og ósæðarloka eru báðar í upptökum stóru slagæðanna sem áður eru nefndar og flytja blóðið frá hjartanu. Aðalhlutverk lokanna er að beina blóðinu í hjartanu í eina átt, frá gátt til slegils og frá slegli til meginslagæða. Verði einhver af þessum lokum fyrir skemmdum, verða óþéttar eða þrengjast, truflast starfsemi hjartans.

Hjartslátturinn

Þegar hjartað slær, dregst hjartavöðvinn saman vegna rafboða, sem eiga upptök í gangráði hjartans og fara um sérhæft leiðslukerfi. Þessi rafboð er hægt að skrá á hjartaafrit. Í fullorðnum einstaklingi slær hjartað að meðaltali 70-90 sinnum á mínútu, en hægar í hvíld og hraðar við áreynslu.

Líkamleg áreynsla, spenna, geðshræring, þreyta, kaffi, tóbak og fleira eykur hjartsláttarhraðann. Segja má að allt sem hefur áhrif á gangráð hjartans hafi áhrif á getu þess til að viðhalda fullnægjandi blóðrás.

Kransæðarnar

næra hjartatvöðvann. Þær nefnast hægri og vinstri kransæð, greinast í smærri greinar og umlykja hjartavöðvann. Heilbrigðar kransæðar flytja um það bil 250 ml af blóði á hverri mínútu. Við líkamlega og einnig við andlega áreynslu eykst álag á hjartað og rennsli í kransæðunum vex.

Birt með góðfúslegu leyfi Landssamtaka hjartasjúklinga  og yfirfarið 12.11 2008