Stam

Höfundur: Málbjörg, félag um Stam

Hvernig eru einkenni stams?

Stam birtist í tali og skoðast því sem talgalli. Það er kallað stam þegar sá sem talar endurtekur hljóð, atkvæði eða orð. Það er einnig kallað stam þegar sá sem talar festist með talfærin í ákveðinni stöðu þannig að hljóð lengjast áberandi svo talið slitnar í sundur.
Þetta eru aðaleinkenni stams, en hjá mörgum þróast ýmis aukaeinkenni. Þau geta verið aukahreyfingar og grettur, andköf og ýmis „brögð“ til að draga úr staminu, hætta við að tala eða reyna aftur. Hjá mörgum ber meira á þessu en sjálfum endurtekningunum og lengingunum.
Stamið er ekki bara talvandamál, heldur einnig samskiptavandamál. Oft reynir sá sem stamar að skipta út ákveðnum erfiðum orðum með öðrum auðveldari, forðast ákveðnar aðstæður, eða í versta falli að forðast að tala yfirleitt. Afleiðing af þessu getur verið vítahringur af ótta við að tala, minnimáttar- og sektarkennd, skortur á sjálfsáliti og félagsleg einangrun. Stami er oft líkt við ísjaka, en einungis tíundi hluti hans stendur uppúr vatninu, því það er einungis lítill hluti stamsins sem er sjáanlegt.

Hverjar eru orsakir stams?

Engin einhlít skýring er til á því hvers vegna fólk byrjar að stama. Ýmsar kenningar eru til en ekkert hefur verið sannað þrátt fyrir miklar rannsóknir.

 

Hversu algengt er stam?

 

Erlendar athuganir hafa sýnt að á bilinu 0,7% – 1,0% fólks stami. Það má því reikna með því að á bilinu 1800-2500 Íslendingar stami. Talið er að fjögur af hverjum hundrað börnum byrji að stama en þrjú þeirra hætti því áður en þau komast á fullorðinsár. Flestir byrja að stama á aldrinum 3 – 7 ára og stam er 3 – 4 sinnum algengara hjá körlum en konum.

Hvernig er stam meðhöndlað?

Það er engin töfraaðferð til við stami, en almennt má segja að því fyrr sem eitthvað er gert í málinu, því betra. Hjá ungum börnum er fyrst og fremst um að ræða óbeina meðferð sem felst m.a. í upplýsingum og ráðgjöf til foreldra og starfsfólks skóla og leikskóla. Hin síðari ár hefur bein meðferð barna þó færst í vöxt erlendis með góðum árangri. Hjá eldri börnum, unglingum og fullorðnum er aðallega um beina meðferð að ræða. Þar er átt við talkennslu- og þjálfun sem getur verið með ýmsu sniði.

Þú getur hjálpað þeim sem stamar með því að:

– Hlusta rólegur og grípa ekki fram í.
– Hvetja hann til að tala.
– Horfa á hann þegar hann talar.

Hvernig geta foreldrar og kennarar hjálpað?

Ráðin sem gefin eru upp hér að ofan eiga líka við um börn. Mestu máli skiptir að hlustað sé á barnið þegar það talar og því sýndur áhugi. Það er líka gott að vera barninu góð fyrirmynd með því að tala hægt og rólega.

Hvert skal leita eftir aðstoð?

Heyrnar og talmeinastöð Íslands aðstoðar fólk sem vill leita hjálpar vegna stams, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna.
Flestir skólar og leikskólar hafa talkennara sem foreldrar geta leitað til og ættu foreldrar ekki að hika við að leita til þeirra. Börn á skólaaldri eiga rétt á að fá talþjálfum á vegum skóla síns.
Nokkrir talkennarar/talmeinafræðingar starfa sjálfstætt og taka að sér börn og fullorðna sem stama.

Hvar er hægt að fá frekari upplýsingar?

Tvær bækur eru til á íslensku um stam og er þessi texti m.a. byggður á þeim. Þær eru:

* STAM: Upplýsingar um stam og þá sem stama, Elmar Þórðarsson,
© Elmar Þórðarson 1991

* Um stam skólabarna, L. Larsson,
© K. Svanholm, Námsgagnastofnun 1987