Staðreyndir um hettuna

Núorðið nota fáar konur hettuna en hún hefur alveg fallið í skuggann af getnaðarvarnapillum og lykkjunni.

Hettan er virk og skaðlaus getnaðarvörn og á að endast í mörg ár ef vel er farið með hana. Alltaf þarf þó að kaupa sæðisdrepandi krem sem þarf að nota með henni.

Hverjum hentar hettan?

Kona, sem aðeins sefur hjá stöku sinnum, þarf ekki að vera með virka getnaðarvörn allan sólarhringinn – mánuð eftir mánuð. Fyrir hana getur hettan verið hentug lausn en aðeins ef hún er rétt notuð.

Flestar konur geta notað hettuna án neinna vandkvæða eða óþæginda. Auðvelt er að koma henni fyrir – það má gera nokkrum klukkustundum áður en kynlíf er stundað og auðvelt er að fjarlægja hana aftur. Það þarf að þvo hana og púðra eftir hverja notkun. Hún er fyrirferðarlítil og auðvelt er að hafa hana meðferðis í veski eða vasa.

Í hvaða skoðun þarf að fara til að fá hettuna?

Ef þú vilt fá þér hettu þarf læknir fyrst að taka mál af þér. Það er gert í venjulegri móðurlífsskoðun. Það tekur smá stund og þú finnur ekki fyrir því.

Hvernig á að nota hettuna?

Hettan líkist litlum barðalausum hatti. Hún er sveigjanleg og auðvelt er að renna henni upp í leggöngin. Áður verður að smyrja hana með sæðisdrepandi kremi sem eykur öryggi hennar sem getnaðarvörn. Ekki er nóg að nota hettuna án kremsins.

Þegar hettan er komin á sinn stað finnur hvorki þú né maki þinn fyrir henni við samfarir.

Hettan er auðveld í notkun og henni fylgja ítarlegar notkunarleiðbeiningar.

Það þarf að athuga hettuna af og til og meta hvort hún sé í lagi. Einnig skal endurmeta hana með tilliti til stærðar eftir barnsburð.

Er hettan örugg getnaðarvörn?

Hettan er örugg vörn ef hún er notuð með sæðisdrepandi kremi, henni komið fyrir áður en samfarir hefjast og hún látin vera kyrr í 6-8 klukkustundir að afloknum samförum. Setja þarf meira sæðisdrepandi krem upp í leggöngin ef kynmök standa lengi – en ekki má fjarlægja hettuna að svo stöddu.

Ef hettan er notuð rétt er hún jafn örugg og smápillan og lykkjan en ef maður er kærulaus er hún að sjálfsögðu ekki til mikils gagns. Það sama á við um pilluna ef gleymist að taka hana!

Yfirlit yfir fáanlegar hettutegundir?

Ortho Diaphragm

Sæðisdrepandi krem til notkunar með eða án hettunnar.

Gynol® Plus Orthoforms® Plan Pessar