Spurningar og svör um heilabilun

Hver eru einkenni heilabilunar?

Einkenni heilabilunar eru fyrst og fremst minnistap, erfiðleikar við að átta sig á umhverfi sínu, erfiðleikar við að tjá sig eða skilja aðra og framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs.

Hverjar eru helstu orsakir heilabilunar?

Algengasta orsök heilabilunar er Alzheimersjúkdómur. Þar næst koma afleiðingar hjarta- og æðasjúkdóma. Aðrar ástæður eru sjaldgæfari, en greining þeirra er mikilvæg þar sem sumar þeirra má meðhöndla.

Hvernig er heilabilun greind?
Heilabilun er greind af lækni með aðstoð annarra fagaðila. Við greiningu er stuðst við sjúkrasögu, minnispróf, myndgreiningu af heila og blóðrannsóknir.

Hverjir fá heilabilun?

Líkur á að greinast með heilabilun aukast mikið með hækkandi aldri. Við 67 ára aldur þjást um fimm af hundraði af heilabilun en við 80 ára aldur er hlutfall þeirra sem hafa greinst með heilabilun um tuttugu af hudraði. Heilabilun er sjaldgæf á miðjum aldri.

Hvernig má takast á við heilabilun á byrjunarstigi?

Draga má úr álagi í daglegu lífi, velja viðfangsefni við hæfi, nýta tiltækan minnisstuðning og meðhöndla þunglynd þegar þess verður vart.

Í hverju felst meðferð við heilabilun?

Meðferð við heilabilun felst í að standa vörð um heilsufar og hreyfigetu, að styrkja sjálfsbjargargetu með tillitssömum samskiptum, með vali á viðráðanlegum verkefnum og meðferð á geðrænum einkennum ef þeirra verður vart.

Hvað veldur erfiðri hegðun sjúklinga sem þjást af heilabilun?

Erfið hegðun getur orsakast af skaða í heila, lyfjum eða mistúlkun á umhverfi. Orsakir geta einnig verið sorg, vanlíðan, einsemd eða blanda af ofantöldu.

Hvar eru sjúklingar með heilabilun?

Langflestir þeirra sem eru með heilabilun búa heima hjá sér og njóta aðstoðar fjölskyldu og vina. Þegar heilabilun ágerist er varanleg umönnun sjúklings á stofnun oft besti kostur sjúklings og fjölskyldu hans.

Hvert er markmið með umönnun þeirra sem þjást af heilabilun?

Markmiðið felst í að veita einstaklingnum vellíðan og öryggi í mynd „margra góðra augnablika“ og auðvelda honum þannig að koma óskum sínum á framfæri og að skilja umhverfi sitt.

Hvernig má aðstoða þann er annast ástvin sem þjáist af heilabilun?

Aðstoð getur verið fólgin í því að umgangast viðkomandi heimili eins og áður. Hvetja umönnunaraðila til að leita hjálpar, huga að eigin heilsu, afla sér þekkingar um sjúkdóminn og ræða hann opinskátt.

Eftirfarandi aðilar sinna málefnum heilabilaðra:

  • Minnismóttökudeild öldrunarsviðs Landspítala á Landkoti
  • Heilsugæslustöðvar
  • Öldrunarlæknar
  • Félagsmálastofnanir
  • Félag aðstandenda Alzheimersjúklinga (FAAS)

Heilabilun

  • Er langvinnur sjúkdómur í heila
  • Er algeng meðal aldraðra
  • Er oft feimnismál
  • Er ekki smitandi

 

Heilabilun hefur mikil áhrif á daglegt líf sjúklings og ástvina hans. Heilabilaður einstaklingur þarfnast umhyggju og þolinmæði til að upplifa „mörg góð augnablik“

Heilabilun er eins og skel kuðungs.

Heilabilun getur einangrað manninn en með umhyggju og þolinmæði auðveldum við þeim er ber heilabilun að skilja og ná til okkar.