Spítalasýkingar

Sýkingar innan heilbrigðisþjónustunnar

Sýkingar af völdum smits innan heilbrigðisþjónustunnar geta lagst bæði á sjúklinga og starfsfólk. Heilbrigðisþjónusta hefur á undanförnum árum í auknum mæli færst frá sjúkrahúsunum. Minni háttar aðgerðir eru framkvæmdar á heilsugæslustöðvum og æ fleiri aðgerðir, sem áður voru framkvæmdar á sjúkrahúsum, eru gerðar á einkareknum skurðstofum. Sýkingar innan heilbrigðisþjónustunnar eiga sér einnig stað á meðferðarstofnunum, dvalar- og hjúkrunarheimilum, enduhæfingar- og umönnunarstofnunum. Sýkingar þessar ná jafnvel inn á heimili landsins, því reynt er í auknum mæli að meðhöndla fólk með krabbamein og langvinna sjúkdóma í heimahúsum.

Afleiðingar sýkinga innan heilbrigðisþjónustunnar eru m.a. aukin vanlíðan fyrir viðkomandi, hugsanlega lengri sjúkrahúsdvöl en ella, aukinn kostnaður við sýklalyfjagjöf og vandmeðhöndlaðar sýkingar, frávera starfsfólks vegna veikinda og kostnaður við aðgerðir til að stöðva útbreiðslu sýkinga. Í einstaka tilfellum geta sýkingar innan heilbrigðiskerfisins leitt til dauða.

Fjöldi mismunandi smitefna geta valdið sýkingum innan heilbrigðisþjónustunnar og smitleiðirnar eru margar. Algengasta smitleiðin eru hendur starfsmanna, en aðrar vel þekktar eru m.a. sápa, loftborið smit, mengaður innrennslisvökvi, menguð skurðáhöld og örverumenguð matvæli. Hornsteinn í forvörnum gegn sýkingum innan heilbrigðisþjónustunnar er góður handþvottur.

Við Landspítala háskólasjúkrahús (LSH) er starfandi sýkingavarnadeild sem vinnur að því að koma í veg fyrir spítalasýkingar og stöðva útbreiðslu þeirra innan LSH. Sýkingavarnadeild LSH er í nánu samstarfi við sóttvarnalækni, sem hefur yfirumsjón með forvörnum gegn sýkingum innan heilbrigðisþjónustunnar og úrlausn hópsýkinga jafnt innan sem utan stofnana annarra en LSH.

Sjá einnig:
Norwalk líkar veirur

Sjá efni um MÓSA og stunguóhöpp á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss.
Best er að velja Leit og slá þar inn Sýkingavarnadeild. Á vef deildarinnar  má finna margvíslegan frekari fróðleik um sýkingar á heilbrigðisstofnunum.

Frá landlæknisembættinu