Spilafíkn

Undanfarin ár hefur umræða um spilafíkn á Íslandi aukist, þó finna megi opinbera umræðu um hana a.m.k. frá árunum í kringum 1970. Aðgangur að fjárhættuspilum hefur aukist verulega með tilkomu happdrættisvéla, lottós, íþróttagetrauna, skafmiða o.fl. Benda má einnig á verðbréfamarkaðinn í þessu samhengi. Fyrir 1970 voru einu leyfilegu happdrættin tengd mánaðarlegum útdráttum eða einum útdrætti auk þess sem bingó voru spiluð öðru hvoru. Nú eru alls konar möguleikar fyrir fólk til þess að stunda það að leggja peninga í eitthvað í þeim tilgangi að ávaxta þá hratt. Megineinkennin eru þó þau að sá sem leggur peninga undir í þessum tilgangi hefur enga möguleika á því að vita fyrirfram hvort hann tapar þeim eða ávaxtar. Þetta er sú áhætta, sem höfðað er til hjá þeim sem reka slík happdrætti. Þó svo að allir viti, ef þeir vilja hugsa út í það, að sá sem rekur happdrætti gerir það í þeim tilgangi að græða á þeim, er höfðað til þess, að þó fjöldinn tapi, græðir einn og einn.

Skynsemin

Í nútímasamfélagi er okkur kennt að nota rökhyggju og skynsemi til þess að leita lausna. Svo virðist sem fjöldinn allur af fólki reyni einnig að nota rökhyggju og skynsemi til þess að græða á þann hátt að spila með peninga sína. Fólk reynir að fylgjast með tíðni vinninga í happdrættisvélum, finna samhengi milli þess hvernig spilað er og hvenær vinningar koma, hversu miklar upphæðir þarf að spila fyrir til þess að geta átt von á vinningi o.s.frv. Þannig reynir fólk að nota rökhyggju og skynsemi á aðstæður, sem yfirleitt er ekki hægt að nota hana á. Í langflestum tilvikum eru tölvur látnar sjá til þess að útdráttur vinninga sé algerlega tilviljanakenndur og því engin leið að sjá út, finna rök eða skynsamlega ástæðu fyrir því hvenær vinningur fellur viðkomandi í hag. Oft er einnig rætt um heppni eða jafnvel yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og að sumir laði til sín vinninga, séu forspáir. Auglýsingar eru svo notaðar til að gefa í skyn að séu þessir einstaklingar við afgreiðslustörf einhvers staðar aukist líkur á vinningi hjá þeim sem versla við þá.

Rökhyggja getur reyndar í örfáum tilvikum nýst í þessu sambandi, ef spilarar setja sig vel inn í ákveðna hluti, þjálfa minni sitt og rökfærni. Hér á ég við það að með því að setja sig vel inn í og fylgjast með öllum þeim íþróttaliðum sem koma við sögu hjá Íslenskum getraunum er hægt að auka líkurnar á að vinna og eins er hægt að auka líkurnar á vinningi í ákveðnum spilum, sem notuð eru sem fjárhættuspil t.d. póker og bridge. Í engu þessara dæma er þó hægt að tryggja sér vinning, hvað þá stóran vinning, með rökhyggjunni, minnisþjálfun eða ástundun.

Skemmtun eða eyðilegging

Þeir sem reka fjárhættuspil halda því gjarnan fram að þeir séu að bjóða upp á afþreyingu eða skemmtun fyrir almenning, sem sé tiltölulega saklaus og gefi auk þess samhliða oft kost á því að almenningur styðji góð málefni með afþreyingariðjunni. Hin geysimikla þátttaka almennings í þessu bendir til þess að almennt sé auðvelt að höfða til fólks á þennan hátt. Það er mjög erfitt að halda til haga hversu háum upphæðum er varið á ári til fjárhættuspilamennsku, þar sem rekstraraðilar og tækifæri til slíkrar spilamennsku eru óteljandi, bæði lögleg og ólögleg. Á Íslandi er um marga milljarða á ári að ræða og árið 1998 var rætt um að heildarvelta löglegrar fjárhættuspilamennsku í Bandaríkjunum einum hefði verið 50 milljarðar bandaríkjadala eða 5000 milljarðar íslenskra króna. Þetta er meira en allur kvikmyndaiðnaðurinn, allir skemmtigarðar og allur tónlistariðnaðurinn í Bandaríkjunum veltu til samans það ár.

Því er gjarnan haldið fram að mikill meirihluti þessa fjármagns komi frá fólki, sem stundar fjárhættuspil sér til afþreyingar og að aðeins lítill hluti fjárins komi frá fólki, sem kallast geti spilafíklar. Rannsóknir eru reyndar mjög ófullkomnar og fáar hvað þetta snertir, en ljóst er að sumir geta spilað sér til skemmtunar og hafa stjórn á eyðslu sinni. Eru ekki beinlínis háðir þessari tegund afþreyingar þó þeir noti hana við og við. Hins vegar er einnig ljóst að þó nokkuð stór hópur fólks getur það ekki. Missir stjórn á eyðslu sinni, ánetjast stjórnlausri þörf fyrir fjárhættuspilamennsku og gerir líf sitt og annarra mjög erfitt eða leggur það jafnvel í rúst. Þetta fólk lendir í öngstræti eða vítahring, sem það kemst ekki út úr og þegar svo er komið fyllist það kvíða, vonleysi og þunglyndi. Sjálfsvíg eru mjög algeng í hópi þeirra sem kallast spilafíklar.

Spilafíkn – spilaárátta

Á Íslandi er gjarnan notað hugtakið spilafíkn í dag. Sálfræðingar hafa gjarnan rætt um spilaáráttu. Árið 1980 var spilafíkn samþykkt í Bandaríkjunum sem sjúkdómur og þá undir nafninu “Sjúkleg fjárhættuspilamennska” (Pathological gambling). Í dag eru ekki allir sammála því að nota það hugtak og margir vilja nota víðari hugtök eins og “problem gambling”. Mjög fáir nota hugtök sem minna á fíkn eða “addiction”. Mjög margt í fari spilafíkilsins minnir á hegðun sem einkennir áráttu- eða þráhyggju.

Spilaárátta einkennist af óviðráðanlegri þörf fyrir að að spila fjárhættuspil. Ekki er alveg ljóst hvort þörfin fyrir vinning er stýrandi í upphafi, en eftir því sem meiru er eytt af peningum og fjárhagserfiðleikar steðja að, verður sú þörf meiri og meiri. Sumir vilja halda því fram að spilaárátta eigi það sameiginlegt með vímuefnanotkun að hún valdi vellíðan og eigi því ekki að falla undir áráttuhegðun, sem veldur vanlíðan. Þá hefur því einnig verið haldið fram að um skilyrta hegðun sé að ræða og því sé hægt að aflæra hana.

Þó oft komi fram að þeir, sem haldnir séu spilafíkn séu einnig alkóhólistar eða vímuefnaneytendur, kemur einnig fram að þeir, sem taka fjárhættuspilamennsku alvarlega, þó stjórnlaus sé, halda sér fjarri vímuefnum á meðan á spilamennsku stendur. Þeir vilja vera með fullri meðvitund á meðan þeir spila. Hugsanlega er þarna á ferðinni hugmynd um að geta haft á einhvern rökrænan hátt áhrif á möguleikann til vinnings.

Fræðimenn eru aðeins í seinni tíð farnir að freista þess að sameinast um skýringar á orsökum spilafíknar og túlkanir á því hvað í raun sé spilafíkn, en eiga enn alllangt í land. Hinu er þó ekki hægt að líta framhjá að fjárhættispilamennska leggur fjárhag fjölda fólks og fjölskyldna í rúst.

Meðferð

Meðferð við spilafíkn hefur gengið misjafnlega vel. Hvort sem litið er á spilafíkn sem fíkn eða sjúkdóm. Mjög margir virðast eiga auðvelt með að láta af fjárhættuspilamennsku með góðri fræðslu ásamt góðum stuðningi frá vinum og ættingjum ásamt GA-samtökum, á meðan aðrir geta alls ekki nýtt sér svo einföld úrræði, heldur þurfa miklu lengri og djúpstæðari sálfræðilega meðferð. Þannig virðist ekki einhlítt hver orsök stjórnlausrar fjárhættuspilamennsku er og þá ekki heldur hver besta meðferðin er. Það eru þó alltaf að koma fram nýjar kenningar um orsakir og einnig nýjar kenningar um meðferð.

Meðferð sem byggir á sjúkdómshugtakinu byggir gjarnan á samblandi lyfjameðferðar og sálfræðilegrar meðferðar. Sálfræðileg meðferð getur bæði lagt áherslu á persónuuppbyggingu, uppbyggingu sjálfsvirðingar ásamt afnámi óæskilegrar hegðunar, en einnig áherslu á að viðkomandi læri að takast á við þá stjórnlausu hvöt að spila fjárhættuspil. Bæði getur verið notast við aðferðir sálgreiningarstefnunnar og atferlisstefnunnar.

Rannsóknir

Á seinustu árum hefur fjölgað rannsóknum á spilafíkn, en niðurstöður eru ekki alveg samhljóma. Bæði er það að erfitt virðist vera að gera góðar rannsóknir og eins hitt að túlkun á því hvað er spilafíkn og hvað ekki er misjöfn. Þó virðist margt benda til þess að einhver staðar á bilinu 1-3% fólks lendi í miklum og alvarlegum erfiðleikum vegna fjárhættuspilamennsku, en allt að 6-7% lendi í minni eða verulegum erfiðleikum.

Rannsóknir benda einnig til þess að unglingar annars vegar og hins vegar fólk, sem á erfitt á einhvern hátt lendi frekar í miklum og alvarlegum erfiðleikum vegna fjárhættuspilamennsku.

Hér á landi var nýlega gerð rannsókn, sem var þýdd og staðfærð eftir bandarískri rannsókn. Niðurstöður hennar benda til þess að um 2000 manns lendi í miklum erfiðleikum vegna fjárhættuspila hér á landi, 10-12 þúsund manns lendi í minni erfiðleikum. Þetta eru sambærilegar tölur og oft er hægt að lesa út úr erlendum rannsóknum. Hins vegar virðist mikil þörf á því að rannsaka þennan málaflokk miklu betur til þess að reyna að finna betur, bæði hvað það er sem orsakar spilafíkn og einnig hvaða meðferðarúrræði skila bestum árangri. Af einhverjum ástæðum virðist erfitt að fá vísindamenn til þess að sameinast um rannsókn á þessum málaflokki.