Spilafíkn

Í söfnunarkössum Íslenskra söfnunarkassa geta menn með skemmtilegum hætti lagt góðum málum lið. Fjármunirnir sem þar safnast renna óskiptir til félagasamtaka sem gegna afar mikilvægu hlutverki í íslenskri samfélagsþjónustu.

Langflestir þeirra sem spila upp á peninga, hvort sem er í söfnunarkössum eða með öðrum hliðstæðum hætti, gera það sér til ánægju. Samt sem áður finnast alltaf einhverjir í þessum hópi sem haldnir eru sjúklegri spilafíkn.

Samkvæmt skilgreiningu bandaríska geðlæknafélagsins er spilafíkn sérstakur sjúkdómur sem svipar um margt til áfengissýki.

Spilafíknin fer ekki í manngreinarálit. Hún fer ekki eftir greind, aldri, kyni eða þjóðfélagsstöðu. Allir sem byrja að spila upp á peninga taka því nokkra áhættu sem rétt er að vara við. Afleiðingar spilafíknar geta verið alvarlegar, ekki síður en annarra fíkna: Upplausn fjölskyldna, rúið traust, sektarkennd, lág sjálfsvirðing svo eitthvað sé nefnt. Góðu fréttirnar eru þær að hægt er að ráða bót á þessum vanda með aðstoð fagfólks og stuðningi GA, sem eru samtök spilafíkla sem snúið hafa blaðinu við.

Aðvörunarmerki um hugsanlega spilafíkn

Hefur þú einhvern tíma…

– Misst úr skóla eða vinnu vegna fjárhættuspila?

– Spilað lengur en þú ætlaðir þér?

– Spilað áfram til að bæta upp tapið?

– Spilað til að gleyma þér og forðast áhyggjur og vanda?

– Fengið löngun til að halda upp á atburði með því að spila?

– Slegið lán til að spila eða borga spilaskuldir?

– Vanrækt sjálfa(n) þig eða fjölskyldu þína vegna spilamennsku?

– Spilað til að bjarga fjárhagnum?

– Lofað sjálfum þér eða öðrum að hætta spilamennsku, en ekki staðið við það?

Hugsaðu málið…

Það er til lækning!

Hafir þú eða einhver sem þú þekkir upplifað eitthvað af framantöldu, hvetjum við þig til að ráðfæra þig við einhvern eftirtalinna aðila:

Gamblers Anonymous
Sjálfshjálparhópur spilafíkla sem starfa eftir 12 spora kerfi AA-samtakanna

Gam-Anon
Stuðningshópur fyrir maka, fjölskyldu og vini spilafíkilsins. Starfar eftir 12 spora kerfinu

Göngudeild SÁÁ
Síðumúla 3-5 Reykjavík, sími 530 7600

Upplýsingar um spilafíkn er að fá á vefsíðu S.Á.Á.: