Spangardeyfing við barnsburð


Hvað er spangardeyfing?

Algengasta form spangardeyfingar er staðdeyfing sem sprautað er úr spreybrúsa á spöngina þegar kollur/sitjandi barnsins fer að þrýsta á hana. Einnig er stundum sprautað deyfiefni með sprautu í spöngina sjálfa. Til er einnig staðbundin deyfing, svokölluð pudental deyfing, sem deyfir allan grindarbotninn. Þessi deyfing er notuð þegar útvíkkun er lokið til að minnka þrýstingstilfinninguna þegar barnið fer um fæðingarveginn eða ef beita þarf sogklukku eða töng. Staðdeyfingarnar eru einnig notaðar þegar sauma þarf rifur í spönginni eftir fæðinguna.

Hvernig er spangardeyfingu beitt?

Oftast er notað staðdeyfilyfið Lidocain og er því sprautað úr sprautu með holnál inn í spöngina. Pudentaldeyfing er gefin á sama hátt um það bil 6 cm. uppi í leggöngunum báðum megin.
Sú deyfing getur haft áhrif niður í fætur og áhrifin vara í nokkra tíma.

Af hverju er tíðni pudentaldeyfingar svona misjöfn?

Þegar spangardeyfingin hefur áhrif niður í fætur, getur konan ekki haft fótaferð. Nú til dags þegar konur ganga um, breyta um stellingu, fæða standandi eða halla sér fram á fjóra fætur, getur pudentaldeyfingin hindrað hreyfingarnar og er því sjaldnar valin. Meðan deyfingin er gefin þarf konan að liggja á bakinu með fætur glennta og mörgum konum finnst það mjög óþægilegt þegar hríðarnar koma jafnt og þétt. Ef pudentaldeyfingin er gefin of snemma getur það líka skemmt rembingstilfinninguna.

Konur sem átt hafa börn áður, fæða oft hratt og því getur verið erfitt að koma við pudentaldeyfingu.

Fær konan að ákveða sjálf?

Spangardeyfingin stendur öllum konum til boða og flestar kjósa að fá spreydeyfingu, enda er auðvelt og sársaukalaust að fá hana. Deyfingar með sprautu eru frekar gefnar ef gera þarf spangarskurð eða leggja sogklukku eða töng því þær deyfa betur inn í vefina. Pudentaldeyfing getur verið góður kostur fyrir konur sem þola illa þrýstinginn á grindarbotninn og togið á spönginni. Ræddu við ljósmóðurina sem annast þig í fæðingunni um hvaða deyfingu þú óskar helst eftir. Yfirleitt er hægt að koma til móts við þær óskir.