Sorg og sorgarviðbrögð

Inngangur

Sorg er fólgin í eðlilegum viðbrögðum við missi og felst í tilfinningalegum og líkamlegum einkennum. Fólk upplifir sorg á mismunandi hátt tengt eftirfarandi þáttum: Tegund sorgar, tengslum við hinn látna, fyrri reynslu, trúarskoðunum, aldri og kyni syrgjandans. Konur tjá sig oft meira um sorgina en karlar, sérstaklega um depurð og ótta.  Þrátt fyrir að sorgin geti verið mjög sársaukafull, er hún mikilvægt skref í áttina að því bataferli sem er nauðsynlegt eftir missi. Sorg er ekki atburður, heldur ferli sem getur tekið langan tíma. Sorgin veldur breytingu á lífi þess sem syrgir. Það getur tekið langan tíma að vinna úr sorginni eftir missi ástvinar. Flestir ná einhverskonar sátt á einu til tveimur árum.

Fyrir marga er hjálplegt að skilgreina sorgina út frá fjórum stigum tilfinninga. Röð stiganna og lengd er mismunandi á milli einstaklinga. Sumir upplifa eitt stig meira en annað og það upplifa ekki allir öll stigin.

  1.  Áfall, doðatilfinning og afneitun

Gerist yfirleitt strax á eftir missi. Syrgjandinn ímyndar sér að missirinn hafi ekki orðið. Syrgjandanum finnst hann áhorfandi að lífinu en ekki þátttakandi. Syrgjendur lýsa líðan sinni þannig að þeir séu ,,frosnir“ eða ,,fastir“. Doðatímabilið einkennist af því að syrgjendur heyra ekki það sem sagt er, skilja það ekki og sjá ekki samhengið. Þetta getur jafnvel varað í 3-4 mánuði. Þessi doðatilfinning er í raun vörn fyrir syrgjandann til að hjálpa honum að takast á við erfið verkefni, svo sem skipulag jarðarfararinnar. Afneitun er algeng, að neita að horfast í augu við missinn. Hún gefur syrgjandanum færi á að ná áttum og taka við sársaukanum í litlum skömtum í einu. Áfallið og afneituninn getur varað frá nokkrum klukkutímum í nokkra mánuði.

2.  Reiði

Getur komið fram hjá syrgjandanum, út í hann sjálfan, hinn látna, annað fólk s.s. ættingja og heilbrigðisstarfsfólk, út í guð og svo framvegis. Oft fylgir ásökun eða sektarkennd í kjölfar reiðinnar, vegna þess sem var sagt eða gert og einnig yfir því sem ekki komst í verk að segja eða gera.

Mikilvægt er að horfast í augu við reiðina og sýna þær tilfinningar sem við höfum í sorgarferlinu. Fólk sem geymir reiðina innra með sér getur upplifað seinna í lífinu, bæði líkamleg og streitutengd vandamál vegna þessara niðurbældu tilfinninga.

3.  Þunglyndi

Tengist oft söknuði, einmanaleika og vonleysi í sorginni, jafnvel löngu eftir missinn. Þunglyndi kemur stundum í kjölfar reiðinnar. Það einkennist af kvíða og örvæntingu. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á daglegt líf viðkomandi, þannig að syrgjandinn hugsar minna um eigin heilsu, hann nærist illa og á minni samskipti við ættingja og vini. Syrgjandinn einangrar sig, kvíðir nýjum degi, er bjargarlaus og á erfitt með að einbeita sér að nauðsynlegum verkefnum. Hann fær martraðir og ofskynjanir, finnst hann jafnvel sjá hinn látna.

4.  Sátt

Eðlilegt er að upplifa allar ofantaldar tilfinningar og getur oft verið nauðsynlegt í  sorgarúrvinnslunni. En það er líka mikilvægt að geta unnið sig í gegnum þessar tilfinningar, sigrast á þeim, tekist á við raunveruleikann og öðlast sátt.

Eftir því sem tíminn líður mun sorgin minnka og verða sársaukalausari, en kannski aldrei hverfa að fullu.

Ýmis líkamleg einkenni geta komið fram hjá syrgjandanum.

Hjartsláttarköst, herpingur í brjósti, svimaköst, hár blóðþrýstingur, höfuðverkur, sjóntruflanir, þyngdartap, lystarleysi, minnisleysi, óróleiki, pirringur, orkuleysi, tárin streyma auðveldlega, öndun er hröð, þung andvörp, hármissir og meltingarfæratruflanir; óróleiki í maga, niðurgangur og hægðatregða.

 

Góð ráð

Borðaðu hollan mat reglulega.

 • Borðaðu frekar oftar og minna í einu.
 • Borðaðu mat sem er þægilegt að búa til. Leyfðu þér samt að dekra við þig í mat endrum og eins.
 • Streita getur minnkað með réttu mataræði, matur með háu sykur- og fitumagni eykur streitu.
 • Það gæti verið gott fyrir þig að nota fjölvítamín og lýsi.
 • Borðaðu mikið af ávöxtum, grænmeti og trefjum.
 • Drekktu mikið af vatni.

Mikilvægt er að hvílast vel og slaka á.

 • Algengt er að svefninn raskist fyrstu vikurnar eftir missi. Notaðu aðferðir sem hafa reynst þér vel.
 • Dragðu úr kaffidrykkju.
 • Stundaðu hreyfingu, svo sem göngu seinni part dags.
 • Forðastu lyf og áfengi, sem veita aðeins tímabundna lausn.
 • Drekktu flóaða mjólk fyrir svefninn.
 • Farðu í slakandi bað fyrir svefninn.
 • Láttu loga lítið ljós við rúmið þitt.
 • Reyndu að halda þig við ákveðið skipulag á hverjum degi, leggstu til svefns og vaknaðu á sama tíma.
 • Andaðu. Taktu þér stutta hvíld oft á dag, hættu því sem þú varst að gera, andaðu djúpt inn og hægt frá þér aftur.
 • Notaðu slökunartækni liggjandi í rúminu. Notaðu djúpöndun ( til dæmis teldu upp að 4 inn og 8 út og finndu kviðinn lyftast við hverja innöndun). Ímyndaðu þér að þú sért kominn á þinn uppáhaldsstað.
 • Hlustaðu á slakandi tónlist eða slökunaræfingar.

Regluleg hreyfing

 • Er mikilvæg, svo sem að ganga, synda, stunda leikfimi, dans eða þá hreyfingu sem þér líkar best við.
 • Hreyfingin örvar myndun efna (endorfína) í líkamanum, sem minnka sársauka og streitu og auka vellíðan. Blóðrásin eflist, hjartað örvast, líkaminn hreinsast og neikvæð orka minnkar. Þú færð útrás fyrir tilfinningar eins og reiði og kvíða.

Annað

 • Vertu meðvituð/aður um það að einbeiting, samhæfing og viðbrögð eru kannski ekki alveg í eðlilegu ástandi einmitt nú. Vertu varkár í akstri og við notkun hnífa og rafmagnstækja.
 • Taktu ekki afdrifaríkar ákvarðanir of fljótt, svo sem að flytja.
 • Ef dagurinn er venjulega of erilssamur hjá þér, reyndu þá að fækka viðfangsefnum hvers dags.
 • Vertu mikið með fjölskyldu og vinum, frekar en að vera ein/n.
 • Talaðu opinskátt um andlátið og missinn, sérstaklega við börnin. Leyfðu þeim að taka þátt í sorginni. Þau þurfa líka að kveðja tilfinningalega þann sem farinn er.
 • Gefðu þér góðan tíma til að ganga frá munum hins látna. Það getur hjálpað þér að minnast og syrgja.
 • Þú skalt biðja um þá hjálp og þann stuðning sem þú þarfnast. Það er ekki auðvelt fyrir aðra að geta sér til um hvers þú þarfnast.
 • Snertu/knúsaðu ástvini eða gæludýr og fáðu snertingu/nudd frá öðrum.
 • Gerðu eitthvað fyrir útlitið svo sem farðu í klippingu, farðu í andlitssnyrtingu eða keyptu þér ný föt, eitthvað sem styrkir líkamsímyndina. Er ekki sagt að þegar þú lítir vel út þá líði þér líka vel.
 • Viðhaltu von með því að vera viss um þa að þú munir komast í gegnum þennan kafla lífs þíns, þó að þér líði ekki þannig hér og nú.

Til fjölskyldu vina og annarra sem vilja hjálpa syrgjendum

 • Hafðu samband, til að sýna að þér sé ekki sama, jafnvel þó að þú vitir ekki hvað þú eigir að segja. Syrgjandinn á oft erfitt með að taka frumkvæði og hefur ekki kraft til þess að hafa samband við þig.
 • Að segja ekkert um missi syrgjandans er rangt. Að segja í einlægni ,,eitthvað rangt“ er í rauninni betra en að segja alls ekki neitt.
 • Vertu reiðubúinn að bjóða aðstoð þína við hagnýta hluti, svo sem að útbúa mat, þvo upp, svara í símann og kaupa inn. Einnig við að passa börnin.
 • Virtu sjálfa/n þig og eigin mörk. Samhyggð er mikilvæg, að vera til staðar, viðurkenna sorg og söknuð syrgjandans án þess að tapa sjálfum sér í sorginni.
 • Einlægni er mikilvæg. Vertu þú sjálf/ur.
 • Vertu tilbúinn að hlusta. Leyfðu syrgjandanum að segja frá því hvernig honum líður.
 • Ekki vera hrædd/ur við að tala um manneskjuna sem dó, hafðu hugrekki til að segja nafnið hennar.
 • Snerting eða faðmlag er mikilvægt, segir meira en mörg orð.
 • Varastu að gefa ráð. Fólk fer í gegnum sorgarferlið á misjafnan hátt og á mislöngum tíma. Það bregðast ekki allir við á sama hátt.
 • Virtu þörf syrgjenda fyrir að taka ,,hlé“ frá sorginni, að gera að gamni sínu og hlæja. Það gefur kraft til að takast á við sorgina á ný.
 • Bjóddu þeim sem syrgir í öll skipulögð boð, sem honum hefur áður verið boðið í. Taktu það skýrt fram að þú sért meðvituð/aður um að það geti verið erfitt að taka boðinu.
 • Mundu eftir mikilvægum dögum, svo sem, jólum, páskum, afmælum og sérstaklega afmælisdegi hins látna. Ef þú þekkir syrgjandann vel spurðu þá hvort þú getir hjálpað til.
 • Mundu að ástin deyr aldrei og sársaukinn mun aldrei að fullu hverfa hjá syrgjandanum.

Oft vinnur syrgjandinn smám saman úr sorgarferlinu, án sérstakrar utanaðkomandi sérfræðihjálpar. En stundum er þörf fyrir hjálp, vegna erfiðleika við að takast á við sorgina. Hægt er að leita hjálpar víða, meðal annars hjá sálfræðingi, lækni, félagsráðgjafa, presti viðkomandi og sorgarsamtaka sem heita ,,Ný dögun“.

Viðbrögð við missinum eru mjög mikil og óeðlileg:

 • ef þú getur ekki stundað þína vinnu eða lifað lífinu á eðlilegan hátt
 • ef upp koma sjálfsvígshugsanir vegna missisins

Þá þarf strax að leita hjálpar og panta tíma hjá heimilislækni.


,,Ný dögun“
eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð sem hafa það að markmiði að styðja syrgjendur og alla sem vinna að velferð þeirra. Starfsemi félagsins lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Samtökin eru öllum opin. Samtökin hafa á að skipa reyndum aðilum sem unnið hafa að sálgæslu og geta veitt stuðning og ráðgjöf.
Allar frekari upplýsingar eru á heimasíðu samtakanna nydogun.is

Unnið af Rannveigu B. Gylfadóttur fyrir Sjúkrahúsið á Akranesi