Snuff – reyklaust tóbak

Höfundur: Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, FRÆ


Reyklaust tóbak er aðallega þrenns konar:
1. Gróft skorið – tuggið

2. Þurrkað, mjög fínt skorið tóbak – sogið upp í nefið

3. Rakt, fínt skorið tóbak, oft í grisjum – látið milli tanngarðs og kinnar
þar sem það frásogast inn í blóðrás

 

Þegar reyklaust tóbak er látið liggja milli góma og kinnar verður það rakt af munnvatni. Safanum úr tóbakinu er annað hvort skyrpt eða kyngt. Sé því kyngt getur það valdið ógleði.

Því hefur verið haldið fram að tóbaksneysla af þessu tagi sé réttlætanleg því að minni líkur séu á að fá fá af henni hjarta- og æðasjúkdóma, lungnakrabbamein og aðra lungnasjúkdóma en af reykingum. Raunin er að þessi tóbaksneysla er eins ávanabindandi og reykingar og afleiðingarnar geta verið allt eins alvarlegar þó að reyklaust tóbak valdi að sumu leyti annars konar heilsutjóni. Auk þess er hætt við að neysla þess leiði til reykinga, ekki síst þegar börn og unglingar eiga í hlut.

Reyklaust tóbak inniheldur ávana- og fíkniefnið nikótín sem sogast inn í blóðrás gegnum slímhúð í munni og nefi. Það getur skemmt eða eyðilagt slímhúð og sá skaði orðið varanlegur. Við mikla notkun getur miðnesið (brjóskið sem skilur nasir að) jafnvel alveg eyðst og eftir stendur þá ein nös í stað tveggja.

Reyklaust tóbak veldur því að gómur rýrnar en það getur valdið tannlosi auk þess sem tennur og gómar lykta mjög illa.

Neysla á reyklausu tóbaki eykur hættuna á krabbameini í munni: Þetta tóbak inniheldur ýmis krabbameinsvaldandi efni, eins og nítrósamínsambönd sem berast um slímhúð tilblóðrásar. Við neyslu myndast oft í munni hvítar skellur (leukoplakia) sem geta verið undanfari krabbameins. Því meira tóbak sem notað er, því tíðari eru þessar hvítu skellur. Líklegt er talið að reyklaust tóbak auki tíðni hjarta- og æðasjúkdóma og að það geti valdið krabbameini víðar í líkamanum en í munni.

Reyklaust tóbak inniheldur tin og kadíum í því magni að skaðvænlegt er fyrir þroska fósturs og ungra barna. Tóbaksframleiðendur halda því fram að reyklaust tóbak sé góður kostur fyrir þá sem ekki reykja. En þeir hafa leynt þeirri staðreynd að í reyklausu tóbaki eru að verulegu leyti sömu eiturefnin og í tóbaksreyk. Í reyklausu tóbaki er jafnvel meira um viðbótarefni en í reyktóbaki. Auk þess er oft notað sterkara tóbak (innihald nokótíns meira) í reyklausa tóbaksvarninginn.

Reyklaust tóbak getur valdið
krabbameini í munni