Smitsjúkdómar á meðgöngu

Yfirleitt gerir það fóstrinu lítið til þótt móðir þess verði veik um meðgönguna. Hár hiti á fyrstu vikum meðgöngu getur þó valdið fósturskaða og jafnvel fósturláti. Einstaka sjúkdómar eru einnig þekktir fyrir að valda fósturskaða en þeir eru fremur sjaldgæfir. Algengustu ástæður fyrir fósturskaða á meðgöngu eru litningafrávik, lyfja-, fíkniefna- eða áfengisneysla móður á meðgöngu og þættir sem tengjast starfi eða umhverfi.

 • Hvaða bakteríur, veirur eða sníkjudýr geta verið hættuleg á meðgöngu? 
 • Rauðir hundar 

  Rauðir hundar eru veirusjúkdómur sem öll börn eru bólusett gegn á Íslandi. Rauðu hunda veiran getur valdið fósturskaða s.s. heyrnarleysi eða vansköpun, smitist kona á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Á Íslandi hefur verið gert mikið átak til að koma í veg fyrir að konur smitist af rauðum hundum á meðgöngu. Þeim stúlkum sem ekki hafa fengið rauða hunda við 12 ára aldur er boðin bólusetning. Flest börn sem fæðst hafa eftir 1990 hafa fengið bólusetningu gegn rauðum hundum. Í upphafi meðgöngu er einnig skoðað hvort kona hafi næg mótefni til að verjast sjúkdómnum og hafi þær ónóg mótefni eða vanti þau alveg er þeim boðin bólusetning eftir fæðingu til að verja þær í komandi meðgöngum. Þær konur sem nú eru á barneignaraldri eru því flestar varðar gegn rauðum hundum.

 • Mislingar og hettusótt 

  Mislingar og hettusótt eru einnig barnasjúkdómar sem bólusett er gegn en þeir eru ekki taldir tengjast fósturgöllum fái kona þá á meðgöngu.

 • Hlaupabóla 

  Hlaupabóla, sem er algengur barnasjúkdómur, hefur yfirleitt lítið að segja fái kona hann á fyrstu tveim þriðjungum meðgöngu. Ef móðirin smitast skömmu fyrir fæðingu getur barnið fæðst veikt og jafnvel beðið skaða. Ekki er bólusett gegn hlaupabólu en flestir hafa fengið hana í æsku og eru því ónæmir fyrir henni.

 • Smáveirusótt 

  Smáveirusótt stafar af smáveirunni B 19. Smáveirur ráðast á lifur fóstursins sem sér því fyrir blóði á fyrstu 18 vikum meðgöngu. Smáveirusmit er því hættulegast á því skeiði. Ekki er hægt að bólusetja gegn smáveirum og engin meðferð er til.

 • Cýtómegalóveira 

  Sýkist kona af Cýtómegalóveiru á meðgöngu er hætta á að fóstrið smitist. Veiran leggst helst á nýrun og getur valdið óafturkræfum skaða, bæði niðurbroti mikilvægra líffæra og þroskafrávikum. Veiran getur lagst í dvala og fólk verið einkennalaust. Unnt er að greina mótefni gegn veirunni í blóði, hafi fólk ástæðu til að óttast smit. Ekki er bólusett gegn cýtómegalóveiru og engin meðferð er til.

 • Bogfrymill 

  Bogfrymill er sníkjudýr sem getur borist úr hráu kjöti, kattaskít og jarðvegi. Bogfrymilssmit er mjög hættulegt fóstrinu og getur valdið miklum skemmdum á heila fóstursins. Unnt er að greina mótefni gegn bogfrymli í blóði og til eru lyf sem vinna á honum. Ekki er bólusett gegn bogfrymli.

 • Herpes 

  Herpes er veirusjúkdómur sem smitast við kynmök og veldur því að lítil sár myndast á skapabörmum og í leggöngum. Sjúkdómurinn leggst í dvala eftir upprunasmit en getur tekið sig upp ef mótstöðuafl konunnar minnkar. Barn smitaðrar móður getur smitast í fæðingunni og því er mikilvægt að fylgjast með einkennum þegar líður að lokum meðgöngu. Ef um virkan sjúkdóm er að ræða þegar kemur að fæðingu er hægt að koma í veg fyrir að barnið smitist með því að taka það með keisaraskurði. Ekki er bólusett gegn herpes en hægt er að stytta þann tíma sem útbrotin vara með asýklóvír-lyfjum.

 • Lifrarbólga 

  Lifrarbólga af gerðunum A, B og C fyrirfinnst svo til eingöngu meðal sprautufíkla og innflytjenda frá löndum þar sem hún er algeng. Börn kvenna sem haldnar eru lifrarbólgu eru bólusett strax eftir fæðingu til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn taki sér bólfestu í þeim. Hægt er að bólusetja þungaðar konur gegn lifrarbólgu en forðast ber það þó í lengstu lög þar sem notuð er lifandi, veikluð veira. Undantekningar eru þó ef konan hyggur á ferðalög til landa þar sem lifrarbólga er útbreidd eða ef hún tilheyrir heilbrigðisstarfshóp sem vinnur með fólk úr áhættuhópum.

 • Vörtur á kynfærum 

  Vörtur á kynfærum smitast við samfarir en smitberinn er vörtuveira. Á meðgöngu stækka oft og fjölgar vörtum sem komið hafa á kynfærin vegna hagstæðra vaxtarskilyrða. Konur sem fengið hafa kynfæravörtur eru í aukinni hættu á að fá leghálskrabbamein og þurfa því að fara reglulega í leghálsskoðun. Barn getur smitast í fæðingu og setjast vörtur þá helst á raddbönd barnsins. Slíkt smit er þó ákaflega sjaldgæft og einungis er gripið til keisaraskurðar ef konan er með mikið af vörtum. Ekki er æskilegt að nota efnið Podofyllin til að eyða vörtum hjá barnshafandi konum. Sé um verulega vörtumyndun að ræða er notuð leyserbrennsla til að fjarlægja vörturnar. Best er að gera það a.m.k. mánuði fyrir fæðingu þannig að konan sé búin að jafna sig.

 • Streptókokkar (keðjukokkar) 

  Streptókokkar eða keðjukokkar eru bakteríur sem einnig geta valdið bólgu í leggöngum. Þetta eru sömu bakteríur og valda hálsbólgu. Svonefndir beta-rauðkornarjúfandi keðjukokkar geta valdið alvarlegri og lífshættulegri blóðeitrun og heilahimnubólgu hjá nýfæddu barninu, smitist það á meðgöngu eða í fæðingu. Keðjukokkar fyrirfinnast í leggöngum þriðju hverrar þungaðrar konu en afar sjaldgæft er að nýburar smitist. Í flestum tilvikum er hægt að meðhöndla keðjukokkasýkingar með sýklalyfjum.

 • Sárasótt 

  Sárasótt stafar af sárasóttarbakteríu sem smitast við kynmök en er afar sjaldgæf. Smit til fósturs getur hins vegar valdið mikilli vansköpun eða fósturláti. Unnt er að meðhöndla sjúkdóminn með stórum skömmtum af sýklalyfjum. Á Íslandi er gerð mótefnamæling gegn sárasótt hjá öllum þunguðum konum í byrjun meðgöngu.

 • Lekandi og klamydía 

  Lekandi og klamydía eru kynsjúkdómar sem geta valdið augnbólgum hjá nýfæddum börnum sé móðirin sýkt þegar barnið fæðist. Unnt er að greina smit með ræktun frá leggöngum. Hægt er að meðhöndla þessa sjúkdóma með sýklalyfjum.

 • HIV-veira 

  HIV-veiran, sem veldur alnæmi, smitast til barna í 10-15% þeirra tilvika sem mæður eru haldnar sjúkdómnum. Börnin geta bæði smitast í meðgöngunni og í fæðingunni. Í flestum tilvikum er mælt með því að börn smitaðra kvenna séu tekin með keisaraskurði. Það dregur úr hættunni á að barnið smitist með blóði móðurinnar. Ný lyf, sem tekin hafa verið í notkun, útrýma hinsvegar HIV-veirunni úr blóðrás flestra sjúklinga. Þess vegna er sums staðar erlendis farið að gefa smituðum konum kost á að fæða á venjulegan hátt, en þá þarf að ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti að lyfjameðferðin hafi borið tilætlaðan árangur, þ.e. að HIV-veiran sé ekki í blóðinu. Enn þarf þó að gera ýmsar rannsóknir áður en kveðið er upp um hvor aðferðin er öruggari, eðlileg fæðing eða keisaraskurður. Meðal þess sem ekki er vitað er hvernig HIV-veiran aðlagast nýju lyfjunum þegar til lengri tíma er litið, þ.e. hvort hún kemur sér upp ónæmi fyrir þeim. Öllum konum stendur til boða mótefnamæling gegn HIV-veirunni í upphafi meðgöngu.

 • Hvernig veit ég hvort ég hef hef smitast?Hægt er að gangast undir blóðrannsókn sem leiðir í ljós hvort maður hafi fengið einhvern þeirra sjúkdóma sem nefndir hafa verið. Í blóðrannsókninni er leitað að svonefndum mótefnum gegn viðkomandi sjúkdómi. Með því er hægt að kanna hvort einstaklingur hafi áður smitast og líkaminn myndað ónæmi gegn sjúkdómnum eða hvort um er að ræða ný smit. Sé einstaklingur ónæmur fyrir sjúkdómi á borð við rauða hunda svo dæmi sé tekið felur það í sér að viðkomandi er varinn gegn smiti af völdum sjúkdómsins til æviloka – ýmist vegna þess að hann hefur sjálfur fengið sjúkdóminn eða verið bólusettur gegn honum. Hann smitast því ekki við að umgangast barn sem er með rauða hunda.

  Bakteríusjúkdómum, eins og keðjukokkasýkingum og klamydíu, myndar maður hins vegar ekki ónæmi gegn og getur því fengið þá aftur og aftur.

 • Eru bólusetningar hættulegar á meðgöngu?Meginreglan er sú að þungaðar konur eru ekki bólusettar (sjá Lyfjabók). Þær konur sem hyggja á ferðalög til landa þar sem hætta er á smiti sem hægt er að verjast með bólusetningu ættu að ráðfæra sig við heimilislækni sinn eða sérfræðing í ónæmisfræðum.