Smábörn – öryggisráðstafanir á heimilinu


Hvers ber að gæta varðandi öryggi smábarna?

Börn verða oft fyrir slysum á heimilinu. Ef gerðar eru vissar öryggisráðstafanir á heimilinu, umhverfi þess og vinnuumhverfi er hægt að fyrirbyggja mörg slysin. Einnig skiptir miklu máli að velja örugg leikföng og aðbúnað. Þótt heimilið sé öruggt þýðir það ekki að óhætt sé að sofna á verðinum og þurfi ekki að fylgjast með barninu árvökulum augum. Ávallt að vera í viðbragðstöðu þegar smábarn er annars vegar.

Rúm er ekki bara rúm

Mikilvægt er að barnið sé í góðu rúmi. Smábarnið ver miklum tíma í rúminu. Vagga er þægileg og rómantísk en hún er hvorki nógu sterk né traust. Þegar barnið fer að geta snúið sér er tímabært að hætta að nota vöggu og setja barnið í rúm.

Það þarf að velja gæðarúm. Það verður að vera traust og botninn heill. Gættu þess að bilið milli rimlanna í rúminu má ekki vera meira en milli 4,5 til 6 cm því annars gæti barnið troðið höfðinu milli þeirra og fest sig. Hliðarnar og gaflarnir eiga að vera að minnsta kosti 60 cm á hæð, mælt frá rúmbotninum, til að barnið geti ekki prílað yfir. Á rúminu má ekki vera neitt sem barnið getur krækt eða fest sig í. Það má aldrei hafa plast á dýnunni í barnarúmi, þar sem það getur valdið köfnun. Það má nota bómullarklæddan gúmmídúk en hann þarf að vera skorðaður undir dýnuna. Sæng barnsins þarf að vera létt og hæfilega stór. Ekki láta barnið fá kodda, því koddinn getur bæði valdið köfnun og er óhollur fyrir bak barnsins. Vatnsrúm henta ekki fyrir kornabörn. Vatnsrúmin eru of mjúk og gljúp og þeim fylgir köfnunarhætta.

Hvernig eru öruggasta skiptiborðið valið?

Skiptiborðið þarf að standa traustum fótum. Púðinn á því má gjarnan vera með upphækkaða hliðarkanta svo að barnið eigi ekki auðvelt með að snúa sér. Aldrei má freistast til að fara frá barninu á skiptiborðinu. Jafnvel nýfædd börn eru sterk og geta skyndilega hrokkið til og dottið fram af borðinu. Ævinlega skal taka barnið með sér ef þörf er á að bregða sér frá og leggja barnið í leikgrindina eða á teppi á gólfið.

Áttu að kaupa öruggt snuð?

Snuðið á að vera heilt og sitja alveg fast við plötuna. Hægt er að að prófa það með því að halda þéttingsfast í túttuna og plötuna og toga hraustlega. Ekki mega vera lausir hlutir á snuðinu. Platan á að vera minnst 4 cm í þvermál svo að barnið geti ekki gleypt hana. Sjálf túttan má ekki vera lengri en 3 cm, svo að hún fari ekki of langt niður í kok barnsins.

Hvaða öryggisatriði skipta máli varðandi leikföng barnsins?

  • Lítil leikföng eru hættuleg. Barnið stingur öllu upp í sig til að kynnast því. Ef hluturinn er of lítill getur barnið gleypt hann og kafnað.
  • Ráðlegt er að athuga hvort augu, nef og annað slíkt sé örugglega fast á böngsum, brúðum og öðrum leikföngum úr vefnaði. Slaufur og reimar á að fjarlægja.
  • Einnig á að yfirfara hringlur og spiladósir. Ekki má vera hægt að opna þær og í þeim mega ekki vera smáhlutir. Leikföng þurfa að vera þannig úr garði gerð að barnið festi sig ekki í þeim.
  • Þegar barnið fær gjafir er ráð að aðgæta merkinguna á þeim. Leikföng, sem ekki eru talin örugg börnum undir 3 ára aldri eiga lögum samkvæmt að vera merkt.
  • Hnappar, peningar, steinvölur og aðrir smáhlutir eru hættulegir fyrir smábörn. Slíkt getur valdið köfnun.
  • Sumar spiladósir og önnur leikföng, sem gefa frá sér hljóð, geta verið svo hávær að þau geta skaddað heyrn barnsins ef þau eru of nærri eyrum þess.

Hvernig leikgrindur eru öruggar?

Leikgrindin þarf að vera sterk og traust. Hún má ekki geta lagst saman af sjálfu sér þó að barnið hreyfi sig af miklum krafti. Ganga þarf úr skugga um að þar séu ekki hlutir sem barnið getur fest sig í. Það á bæði við inni í grindinni og utan á henni.

  • Ef grindin er bólstruð áklæði skal efnið vera svo sterkt, að barnið geti ekki bitið eða klórað gat í það svo að það gleypi ekki tróðið.

Mæla þarf hæðina og bilið milli rimlanna. Hæðin á að vera að minnsta kosti 60 cm, til að barnið geti ekki prílað upp úr grindinni. Bilið milli rimlanna má ekki vera meira en 6 cm svo að barnið festi ekki höfuðið milli þeirra.

Eru hallastólar öruggir fyrir barnið?

Hallastóll reynir á bak barnsins. Hann ber því að nota eins lítið og hægt er. Ef slíkur stóll er valinn þarf að íhuga að það er stórvarasamt að hafa hann uppi á borði eða öðrum upphækkuðum fleti þar eð barnið getur brölt og velt stólnum fram af borðbrúninni.

Hvernig er hægt að sjá hvort barnavagninn er öruggur?

Barnavagninn þarf að vera traustur. Á honum þurfa að vera góðar bremsur og festingar. Öryggisbúnaður hans þarf að tryggja að hann leggist ekki óvænt saman. Ef skermurinn er mjög ljós að innan getur það angrað augu barnsins. Á sumrin er vissara að fylgjast með hitastiginu innan í skerminum áður en barnið er lagt í vagninn og ganga úr skugga um að þar sé ekki of heitt. Í miklu sólskini á vagninn að standa í skugga. Áður en barnið er lagt í barnavagninn, þarf að aðgæta hvort vagninn sé vel fastur á grindinni. Þegar barnið er í vagninum á það að vera beislað niður, svo að það brölti ekki upp úr vagninum eða sporðreisi hann. Fylgjast þarf vel með barninu jafnvel þótt það sé í beisli. Ef farið er með vagninn í innkaupaferð er hentugt að setja varninginn á grindina undir vagninum. Það er traustara en að bera varninginn á stýrinu. Á sumrin er ráðlegt að hafa skordýranet yfir barnavagninum svo að barnið verði ekki fyrir skordýrabiti. Það heldur líka köttum frá vagninum. Ekki á að nota kerrur fyrir kornabörn þar eð bak þeirra er ekki nógu sterkt. Þegar barnið er farið að geta setið sjálft er bakið orðið nógu sterkt