Slys á börnum eru ekki náttúrulögmál

Talið er að 20 til 22 þúsund börn slasist árlega á Íslandi. Það eru hlutfallslega fleiri börn heldur en slasast í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur helst saman við. Stór hluti þessara slysa er minniháttar þannig að ekki hlýst varanlegt heilsutjón af. Um andlegar afleiðingar fyrir börnin og aðstandendur er minna vitað. Þá eru ótalin þau slys sem valda óbætanlegum skaða, varanlegum heilsubresti, örkumlum eða dauða. Á Íslandi, eins og annars staðar á Vesturlöndum, eru slys algengasta dánarorsök barna eldri en eins árs. Slys eru því eitt helsta heilsufarsvandamál íslenskra barna. Um kostnað þjóðfélagsins, beinan og óbeinan, þarf vart að fjölyrða.

Ýmsar ákvarðanir og samþykktir á undanförnum misserum vekja vonir um að lögð verði aukin áhersla á slysavarnir. Má þar nefna að slysavarnir barna og unglinga hafa verið settar í forgang í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og í þingsályktun um málefni barna og unglinga. Nýstofnuð Slysaskrá Íslands ætti einnig að geta orðið til þess að greina vandann, bregðast við með markvissum hætti og meta árangur aðgerða. Þá er það fagnaðarefni að fyrirheit hafa verið gefin um að því starfi sem þegar hefur verið unnið á vegum Árvekni verði fram haldið og það þróað.

Hægt er að koma í veg fyrir stóran hluta slysa ef sjálfsögðum öryggisreglum er fylgt og farið er að lögum og reglum sem í gildi eru. Virðingarleysi fullorðinna við lög og reglur er í mörgum tilvikum vítaverð áhættuhegðun auk þess að vera börnum og ungmennum slæm fyrirmynd sem stuðlað getur að sams konar afstöðu og hegðunarmynstri hjá þeim sem yngri eru. Mikilvægt er því að auka eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt og að þeir sem ekki fara eftir þeim, sæti ábyrgð.

Slys eru ekki náttúrulögmál eða plága sem lítið er við að gera. Aðgerðir í slysavörnum kosta óhjákvæmilega fjármuni en oft er hægt að ná verulegum árangri með litlum tilkostnaði ef unnið er markvisst og af þekkingu. Aðgerðir sem koma í veg fyrir slys eru án efa ein hagkvæmasta og fljótvirkasta fjárfesting sem nokkurt þjóðfélag getur lagt í.

6. landsþing um slysavarnir verður haldið 3. október n. k. á vegum slysavarnaráðs í Eldborg, fundarsal Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi. Þar munu sérfróðir aðilar fjalla um slys og slysavarnir frá ýmsum sjónarhornum, m.a. verður áhættuhegðun barna og unglinga til umræðu.

Ólafur Gísli Jónson, formaður stjórnar Árvekni
Herdís L.Storgaard, framkvæmdastjóri Árvekni

Frá Landlæknisembættinu