Sleppum fordómum! Blásum þá burt!

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Maímánuður er tileinkaður vitundarvakningu gegn fordómum. Vitundarvakningin ber yfirheitið „Sleppum fordómum“ og hefst með glæsilegum tónleikum í Listasafni Reykjavíkur kl. 16.00, en allan maímánuð verður eitthvað um að vera.

Átakið beinist fyrst og fremst inn á við. Það á að vekja okkur til meðvitundar um eigin fordóma, það krefst sjálfsskoðunar. Allan maímánuð verður póstkortum dreift ásamt mislitum blöðrum meðal landsmanna. Blöðrurnar eiga að tákna fordómana sem við eigum inn í okkur og eru í öllum regnbogans litum. Við fáum tækifæri til að blása þeim burt og sleppa þeim lausum laugardaginn 18. maí þegar mörgþúsund fordómablöðrum verður blásið úr brjóstum okkar og sleppt upp í beran himininn.

Ef fólk er tilbúið til að skoða eigin fordóma þá öðlast það tækifæri sem hægt er að nýta til andlegs þroska. Fordómar eru ekki bara augljóst hatur. Við verðum að átta okkur á því að við erum uppfull af fordómum þegar við segjum setningar eins og: „Ég er ekki haldin(n) fordómum gagnvart samkynhneigðum en mér finnst að þau eigi bara að halda þessu fyrir sig“ eða: „Ég er ekki haldin(n) kynþáttafordómum en ég myndi ekki vilja að dóttir mín giftist svörtum manni.“

Fordómar eru ekki bara áróðursfullar opinberar hatursaðgerðir, þeir eru ekki síður meiðandi og skemmandi litlar „en-setningar“. Þessar setningar lýsa hræðslu. Fordómar eru ótti við tilfinningar. Við erum hrædd við að upplifa áður óþekktar tilfinningar, við erum hrædd við viðbrögð okkar gagnvart því sem er framandi. Við óttumst að hið óþekkta raski jafnvægi okkar eða umhverfi, að við þurfum að viðurkenna fávisku okkar og hugsa eitthvað upp á nýtt.

Fordómar vinna gegn okkur sjálfum. Við þurfum ekki að vera hrædd við útlit fólks. Við þurfum ekki að vera hrædd við framandi tungumál og menningu, ólíkar skapgerðir eða geðheilsubresti. Við þurfum ekki að vera hrædd við fordóma. Þeir eru til staðar innan í okkur og innan í öðrum. Viðurkennum þá og sleppum þeim svo lausum. Blásum þá burt!

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnaar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands