Skyndihjálp vegna tannáverka

Talið er að meira en þriðjungur 16 ára unglinga hafi einhvern tímann fengið högg á tennur.  Sem betur fer eru flestir þessir áverkar það vægir að tennur og bein umhverfis þær verða ekki fyrir varanlegum skaða.  Hafa verður þó í huga að ekki er alltaf allt sem sýnist og ættu því allir að leita til tannlæknis sem fyrst eftir áverka til þess að hægt sé að ganga úr skugga að allt sé í lagi.  Í það minnsta skal nefna áverkann í næstu reglulegri heimsókn til tannlæknis.

Þegar alvarlegir tannáverkar verða, skiptir öllu máli að strax sé rétt brugðist við.  Er jafn mikilvægt að foreldrar sem og börnin sjálf viti hvernig á að bregaðast við.  Vil ég hvetja alla foreldra til að tala við börn sín og kenna þeim lágmarks tannskyndihjálp. 

Hvað á að gera þegar fullorðinstennur verða fyrir áverka?

  • Ef króna tannar hefur brotnað af getur tannlæknir oft límt brotið á aftur.  Þarf því fyrst af öllu að finna brotin áður en farið er til tannlæknis.  Tíminn skiptir ekki öllu máli í þessum tilfellum og er því óhætt að eyða nokkrum mínútum í að leita.  Ef brotið er þanng að það blæðir úr tönninni má ekki bera neitt á sárið til að stöðva blæðinguna, best er að halda bara munninum lokuðum. 
  • Ef tönnin hefur ekki brotnað heldur færst til í sæti sínu þá má reyna að koma henni fyrir á réttum stað með því að ýta henni til baka með léttum þrýstingi.  Ef það dugar ekki má alls ekki þvinga tönnina, heldur fara sem allra fyrst til tannlæknis.  Gott er að hafa lítið þvottastykki milli jaxlanna til að bíta á ef tönnin hefur ýtst aftur þannig að ekki er hægt að loka munninum án þess að hún lendi á mótstæðum tönnum.
  •  Ef tönnin var slegin út úr munninum verður að bregðast hratt við, ef um fullorðinstönn er að ræða.  Ef barnatönn er slegin úr er yfirleitt ekki hægt að bjarga henni og skiptir þá tíminn minna máli.  Yfirborð rótarinnar er mjög viðkvæmt og ef fullorðinstönnin er utan munns lengur en 30 mínútur eru batahorfur hennar mjög slæmar.  Sé tönninni hins vegar strax komið aftur fyrir á sínum fyrra stað er oft hægt að bjarga henni. Ekki má koma við rótaryfirborðið, heldur skal halda um krónuna og varlega en með jöfnum þrýstingi setja tönnina í aftur. Ef tönnin vill ekki fara alveg upp má ekki beita krafti heldur frekar að styðja hana þar sem hún er komin og halda af stað til tannlæknis.

    Ef ekki er unnt að koma tönninni fyrir aftur í munninum þá er mikilvægt að geyma hana í vökva sem heldur frumunum á yfirborði hennar lifandi.  Komið hefur í ljós að mjólk er mjög góður kostur. Geymast tennur í allt að 6 tíma í mjólk, en ef tönnin er geymd þurr eða í kranavatni þá skemmist yfirborð rótarinnar á innan við 30 mínútum.

 

 Ásgeir Sigurðsson tannlæknir, sérfræðingur í tannholsfræðum

 

Frá Landlæknisembættinu