Skotheld um áramót

Upplýsingar um meðferð skotelda frá Árvekni

Um hver áramót slasast fjöldi barna og unglinga við meðhöndlun skotelda. Skoteldar eru ekki leikföng og því verða foreldrar að fylgjast með að börn séu ekki að fikta með þá. Alvarlegustu slysin verða oft rétt eftir jólin þegar að sala á skoteldum hefst. Algengustu slysin á þessum tíma eru augnslys en þau hafa orðið þegar að börnin hafa verið að setja skoteldana í ílát sem hafa sprungið með þeim afleiðingum að glerbrot eða járn bútur hefur farið í augu. Djúp brunasár hafa orðið þegar að kviknað hefur í skoteldum í vösum. Alvarlegustu slysin hafa orðið þegar að unglingspiltar hafa tekið skotelda í sundur til að gera þá öflugri og hafa sprengt af sér fingur, misst sjónina að hluta eða alveg. Dæmi eru um að ungir piltar hafi orðið öryrkjar í kjölfar slíkra slysa en þeir hafa verið með mjög alvarlega áverka víðsvegar á líkamanum.

Á gamlárskvöld er meira um brunaslys en sum þessara slysa hafa verið mjög alvarleg. Má þar nefna djúpa útbreidda bruna þegar skoteldar hafa verið settir á klaka og þegar kveikt var í þeim þá hafa þeir skotist inn í mannþröng en ekki upp í loft eins og til var ætlast. Fullorðnir karlmenn hafa einnig slasast alvarlega í seinni tíð um áramótin þegar öflugir skoteldar hafa sprungið í andlit þeirra. Þá hafa hafa reyndir einstaklingar í meðferð skotelda slasast á sýningum, en þetta kennir okkur það að það er aldrei of varlega farið þegar að skoteldar eru meðhöndlaðir.

Tjón á eignum hafa færst í aukana á liðnum árum og verða foreldrar að fylgjast með hvað börnin eru að aðhafast í kringum áramótin því þeir bera ábyrgð á að þau séu ekki að stunda skemmdarverk. Skemmdaverk sem unnin hafa verið á mannvirkjum geta valdið öðrum tjóni og dæmi um það er barn sem var úti að renna sér á snjóþotu og lenti á sundursprengdu strætisvagnaskýli með þeim afleiðingum að það skarst illa á hönd.

Fylgið ábendingunum hér að neðan um meðferð skotelda og stuðlið þannig að slysalausum áramótum!

Undirbúningur:

 • Lesið vandlega leiðbeiningar sem fylgja með skoteldum, því þá á að meðhöndla á mismunandi hátt.
 • Breytið ekki eiginleikum skotelda með því að taka þá í sundur eða setja þá í ílát.
 • Geymið skotelda á öruggum stað. Ekki í raka eða við hitagjafa.
 • Gætið vel að gæludýrum – þau eru viðkvæm fyrir hávaða.
 • Veljið ábyrgan aðila til að stjórna aðgerðum á skotstað.

Hvað þarf:

 • Öryggisgleraugu og hanska.
 • Forðist að vera í eldfimum fatnaði.
 • Hólk til að skorða flugelda
 • Slétt og stöðugt undirlag á opnu svæði fyrir skotkökur/gos o.þ.h. Forðist að setja á klaka.
 • Sjúkrakassa til taks.

Þegar skotið er upp:

 • Kveikið í skoteldum með útréttri hendi – bogrið ekki yfir þeim.
 • Hafið sérstakar gætur á börn séu ekki fyrir.
 • Víkið strax frá eftir að kveikt hefur verið í skoteldum – haldið öðrum í fjarlægð.
 • Reynið ekki að kveikja aftur í skoteldum sem áður hefur verið kveikt í.
 • Gerið viðeigandi ráðstefanir vegna mögulegrar eldhættu af völdum skotelda, td. að hafa glugga lokaða.
 • Bannað er að skjóta skoteldum upp við bálkesti.

Stjörnuljós og handblys:

 • Látið börn aldrei meðhöndla stjörnuljós á eftirlits fullorðinna.
 • Látið börn aðeins hafa eitt stjörnuljós í einu.
 • Haldið stjörnuljósi og handblysi frá líkama.
 • Handblys eru varasöm börnum og unglingum.

Að lokinni sýningu:

 • Fjarlægið notaða skotelda með varúð
 • Farið aftur yfir svæðið daginn eftir og fjarlægið skoteldaleifar.

ATH! Skoteldar og áfengi eru hættuleg blanda.

Vefur Árvekni, átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga