Skjaldkirtilsofvirkni


Hvað er ofvirkur skjaldkirtill?

Helstu einkenni skjaldkirtilsofvirkni eru eirðarleysi, hitatilfinning og hjartsláttur. Einnig þyngdartap, þrátt fyrir aukna matarlyst.

Sjúkdómurinn stafar af of mikilli framleiðslu líkamans á efnaskiptahormónunum týroxín og/eða þríjoðtýrónín en þau kallast einu nafni skjaldkirtilshormón. Skjaldkirtilshormónin eru framleidd í skjaldkirtlinum, sem er staðsettur framan á hálsinum, rétt neðan við barkakýlið, fyrir framan og til hliðar við barkann beggja vegna. Hjá flestum sjúklingum stækkar skjaldkirtillinn en hjá sumum verður engin stækkun.

Hvaða sjúkdómar leiða til ofvirkni í skjaldkirtlinum?

 • Samhverf og jöfn stækkun á skjaldkirtli sem veldur mikilli aukningu á framleiðslu skjaldkirtilshormónanna (Struma diffusa toxica). Kallast einnig Basedow´s og Grave´s sjúkdómur. Herjar yfirleitt á ungt fólk en kemur einnig fyrir hjá eldra fólki.

  Þessi tegund ofvirkni í skjaldkirtlinum leiðir í þriðjungi tilvika til augneinkenna (frá vægum óþægindum og þurrktilfinningu í augum til útstæðra augna þar sem sjúklingurinn sér jafnvel tvöfalt og sjón skerðist). Augneinkennin nefnast einu nafni úteygð (Exopthalamus).

 • Hnútótt stækkun á skjaldkirtli með aukinni framleiðslu skjaldkirtilshormónanna.

  Algengast hjá eldra fólki. Skjaldkirtillinn er þá gjarnan ójafn og hnútóttur. Í sumum tilfellum orsakast ofvirkni í skjaldkirtlinum af einum hnút í annars samhverfum og jafnt stækkuðum skjaldkirtli. Þessi hnútur er því ofvirkt kirtilæxli (Toxic adenoma).

  Við þessarri tegund sjúkdómsins fylgja ekki augneinkenni.

  Í báðum tilvikum eru hnútarnir góðkynja þ.e.a.s. ekki er krabbameinsvöxtur.

 • Skjaldkirtilsbólga: Bólga hleypur í skjaldkirtilinn (oftast vegna veirusýkingar) og veldur tímabundinni röskun á starfsemi hans. Þetta er sjaldgæf orsök ofvirkni í skjaldkirtlinum.

  Þessu fylgja einnig verkir framan á hálsi ásamt hita.

Hver er orsökin?

Ekki er vitað með vissu hver er orsök ofvirkni í skjaldkirlinum en talið er að sjúkdómurinn geti verið ættgengur og að umhverfisþættir hafi eitthvað að segja. Sjúkdómurinn er 5-10 sinnum algengari hjá konum en körlum. Ýmislegt bendir til þess að umhverfisþættir eins og sígarettureykingar, sum lyf (Lítíum, Cordarone), eða of mikil eða of lítil joðneysla geti í sumum tilfellum orsakað sjúkdóminn.

Hver eru einkenni ofvirkni skjaldkirtils?

 • Kvíði, innri órói, eirðarleysi, einbeitingarerfiðleikar og viðkomandi er grátklökkur.
 • Skjálfti á höndum.
 • Hjartsláttur, hraður reglulegur púls eða hraður óreglulegur púls.
 • Hitatilfinning, hitaóþol og svitaköst.
 • Heit og rök húð.
 • Þyngdartap, þrátt fyrir aukna matarlyst.
 • Þreyta.
 • Verkir og þreyta í vöðvum.
 • Tíðar og linar hægðir.
 • Truflanir á tíðablæðingum.

Skjaldkirtilshormónin hafa áhrif á mörg líffæri líkamans og því geta einkenni komið samtímis frá mörgum þeirra (heila, hjarta, vöðvum o.s.frv.). Í sumu fólki, sérstaklega öldruðum, koma einkenni einungis fram frá einu eða fáum líffærum.

Sjálfshjálp

 • Borða hollan og fjölbreyttan mat, gjarnan mikið af fiski.
 • Hætta að reykja.
 • Forðast náttúrulækningalyf/heilsubótaefni sem innihalda mikið af joði.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Ef grunur leikur á að um ofvirkni í skjaldkirtli sé að ræða mun læknirinn þreifa á hálsinum og skoða til að meta skjaldkirtilsstækkun.
 • Læknirinn mun líta eftir og spyrja um augneinkenni.
 • Blóðsýni er tekið til að ákvarða magn þess hormóns sem örvar skjaldkirtilinn (thyroid stimulating hormone=TSH) og einnig er mældur styrkur skjaldkirtilshormónanna týroxín og þríjoðtýrónín. Ef skjaldkirtillinn er ofvirkur er líklegt að magn þess hormóns sem örvar skjaldkirtilinn sé óeðlilega lágt miðað við eðlileg gildi en magn skjaldkirtilshormónanna sé hækkað miðað við eðlileg gildi.

Til að ganga úr skugga um hver orsökin er reynist nauðsynlegt að framkvæma nánari myndgreiningarrannsóknir á skjaldkirtlinum og ómskoðun. Stundum þarf að taka sýni úr honum.

Hver er meðferðin?

Yfirleitt er sjúkrahúsinnlögn ekki nauðsynleg. Nú til dags eru til þrenns konar meðferðir:

Lyfjameðferð:

 • Dregið er úr myndun skjaldkirtilshormónanna með lyfjum svo sem Neo-Mercazole.

Starfsemin er að öllu jöfnu orðin eðlileg eftir 1-2 mánuði. Lengd lyfjameðferðar fer eftir orsakaþættinum.

 • Varðandi ofvirkan skjaldkirtil sem er jafnt stækkaður mun læknirinn líklega reyna að hætta lyfjagjöfinni eftir eitt til tvö ár. Þú ættir að láta mæla hormónana reglulega, því að hjá um það bil helmingi fólks tekur sjúkdómurinn sig upp aftur innan tveggja ára.
 • Varðandi ofvirkan skjaldkirtil sem er hnútótt stækkaður þarf venjulega ævilanga lyfjameðferð.

Á meðan á lyfjameðferð stendur þarf að fylgjast með starfsemi skjaldkirtilsins á nokkurra mánaða fresti. Til þess þarf að mæla skjaldkirtilshormónana í blóðinu.

Skurðaðgerð:

Ungu fólki með stækkaðan skjaldkirtil er í sumum tilfellum boðið upp á skurðaðgerð.

 • Með skurðaðgerðinni er stór hluti skjaldkirtilsins fjarlægður.
 • Flestir ná fullum bata eftir slíka aðgerð. Sjúkdómurinn getur þó komið aftur.

Eftir aðgerðina eru sumir með vanvirkan skjaldkirtil. Í sumum tilvikum er eingöngu um að ræða tímabundið ástand. Meðhöndlun á vanvirkum skjaldkirtli eftir aðgerð felst í ævilangri gjöf skjaldkirtilshormóna (Thyroxin-Natrium, Liothyronin Nycomed Pharma), í töfluformi.

Geislavirkt joð:

Konur fá þessa meðferð oftast eftir tíðahvörf og karlmenn sem komnir eru yfir fertugt en einnig er hægt að bjóða yngra fólki þessa meðferð.

 • Meðferðin krefst ekki innlagnar og felst í inntöku geislavirks joðs.
 • Efnaskiptin verða eðlileg aftur eftir nokkrar vikur eða mánuði.

Einn af hverjum fimm sem fá joðmeðferðina eru með vanvirkan skjaldkirtil, en tíðni þessa fer eftir því hvers konar skjaldkirtilssjúkdómur er til staðar.

 • Þetta er skýringin á því að það þarf að fylgjast með skjaldkirtilshormónum það sem eftir er ævinnar.
 • Ef vanvirkni kemur fram þarf að taka skjaldkirtilshormón í töfluformi (Thyroxin-Natrium, Liothyronin Nycomed Pharma) eftirleiðis.

Í örfáum tilvikum versnar þeim sjúklingum sem eru með einkenni í augum. Meðferð við því eru barksterar (Prednisólón) í styttri tíma.

 • Meðferð með geislavirku joði er örugg og væg meðferð.

Það hefur ekkert bent til þess að meðferðin sé krabbameinsvaldandi. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að hún valdi litningabreytingum.